Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Áfangastaðaáætlun Reykjaness (DMP)

ReykjanesFerðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála vinna sameiginlega að gerð áfangastaðaáætlana um allt land (e. Destination Management Plans) - DMP.

Um er að ræða heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. Áfangastaðaáætlun er sameiginleg stefnuyfirlýsing svæða sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun þeirra yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðila ber ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu.

Mikilvægt er að hafa í huga að áfangastaðaáætlun inniheldur þannig áætlun um skipulag, þróun og markaðssetningu svæðis auk þess sem að skilgreindar eru þær leiðir sem fyrirhugað er að fara við stýringu á hinum ýmsu ferlum sem ráða þróun atvinnugreinarinnar innan svæðisins: uppbyggingu, efnahagslegu vægi, þjónustuþáttum o.s.frv.

Áfangastaðaáætlun Reykjaness nær yfir sveitarfélögin fimm á Suðurnesjum; Reykjanesbæ, Grindavíkurbæ, Garð, Sandgerði og Voga. Við gerð áætlunarinnar verður unnið út frá þeim áætlunum og stefnum í umhverfis-, ferða-, menningar-, og markaðsmálum sem fyrir liggja hjá sveitarfélögunum og sameiginlegum verkefnum svæðisins.

Áætlað er að fyrstu drög að áfangastaðaáætlun Reykjaness liggi fyrir í apríl 2018.

Markaðsstofa Reykjaness leiðir vinnu við áfangastaðaáætlun fyrir Reykjanesskagann í samstarfi við Reykjanes Unesco Global Geopark. Verkefnastjórar eru Þuríður H. Aradóttir Braun (MsR) og Eggert Sólberg Jónsson (RG).

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkefnið á vef Ferðamálastofu.

Reykjanes

Þéttbýliskjarnar

Reykjanesið er frekar láglent af náttúrunnar höndum og einkennist landlagið af hraunbreiðum og vogskorinni ströndu. Landslagið hefur haft áhrif á staðsetningu þéttbýla við sjávarsíðuna og mótað samfélag og sögu þess í gegnum aldirnar. Við hvetjum gesti til að kynna sér hvað svæðið hefur uppá að bjóða.

Map Garður Sandgerði Reykjanesbær Vogar Grindavík