Flýtilyklar
Kvikan, menningar- og auðlindahús
Í Kviku eru tvær glæsilegar sýningar, Jarðorka og Saltfisksetur Íslands.
Sýningunni JARÐORKU er ætlað að fræða gesti um undirstöðuatriði íslenskrar jarðsögu og jarðfræði, skýra á einfaldan hátt eðli jarðhita, eldvirkni og jarðskjálfta.
Á Íslandi eru einstök skilyrði til að sjá og rannsaka flest sem varðar jarðfræði, eldvirkni og jarðhita því að landið er ungt og enn í mótun. JARÐORKU er ætlað að varpa nokkru ljósi á þessa þætti um leið og hún skýrir fyrir gestum hvernig orkan í iðrum jarðar er beisluð til að hita upp þúsundir heimila á Suðurnesjum og sjá íbúum þeirra fyrir fersku drykkjarvatni og nokkurri raforku að auki.
Á sýningunni eru 18 fræðslukassar með eftirfarandi þema:
1 Land í mótun
2 Sjór og eldur takast á
3 Ísland verður til
4 Jörðinni má líkja við egg
5 Plötumörk á jarðskorpunni
6 Jarðskjálftalíkan
7 Virka eldgosabeltið
8 Jarðskjálftar á Íslandi
9 Eldgos eru tíð á Reykjanesi
10 Sprungugos eru algengust á Íslandi
11 Aldur jarðar
12 Jökull yfir Skandinavíu
13 Ísland var suðræn paradís...
14 Rannsóknir og vísindi
15 Orka sótt í iður jarðar
16 Borað eftir heitu vatni
17 Orkuverið í Svartsengi
18 Bláa lónið
Sýningin er sett upp í samstarfi við HS Orku.
Saga saltfiskverkunar á Íslandi þar sem fléttast inn í saga sjómennsku, þróun skipa, veiða og vinnslu, frá lokum hefðbundinnar verbúðarmennsku til þessa dags.
Sýningin Saltfisksetrið er ljóslifandi saga sjómennsku. Hún er mjög forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna.
Grindvíkingar hafa löngu verið drjúgir við
saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á saltfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í Grindavík.
Sýningin Saltfisksetrið var opnuð árið 2002. Saga salfisksins er sögð með stórum myndum, hnitmiðuðum texta og lýsandi munum. Mörkuð er ákveðin leið í gegnum sýninguna og sagan þannig rakin í tímaröð. Möl er á gólfi og leikmyndir af húsum frá ýmsum tímabilum sem skapa sérstaka og eftirminnilega upplifun.
Ekkert var sparað til að gera sýninguna sem glæsilegasta enda hefur hún vakið mikla athygli. Grindavíkurbær var leiðandi aðili við byggingu setursins í samstarfi við stofnendur þess og aðra styrktaraðila í bænum.
Björn G. Björnsson sýningarhönnuður sá um hönnun og uppsetningu beggja sýninganna í Kvikunni.
240
Kvikan, menningar- og auðlindahús - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands