Flýtilyklar
Útivist

Reykjanes er tilvalinn staður fyrir afþreyingu utandyra. Hvort sem um ræðir gönguferðir, fjallgöngur, hjólreiðar, kayakferðir, hellaskoðun, brimbretti, köfun eða ferðir á vélknúnum ökutækjum. Þetta er allt saman í boði á Reykjanesi og meira til.
Gönguferðir
Að ganga, með eða án leiðsagnar, er sívinsæll ferðamáti og gönguleiðirnar óþrjótandi.
Jónsmessuganga á Þorbjörn
Fuglaskoðun
Á Íslandi er fjölskrúðugt fuglalíf og tilvalið fyrir áhugafólk um fugla að kynna sér það nánar.
Hér fyrir neðan má sjá fyrirtæki sem taka að sér fuglaskoðunarferðir.
Einnig höfum við sett saman síðu með öllum helstu fuglaskoðunarstöðum Reykjaness og upplýsingar um þá, hægt er að skoða hana með því að smella hér: Fuglaskoðunarstaðir
Keilir
Fjall (379 m.y.s) á Reykjanesskaga.
Keilir er til orðinn við gos undir jökli á ísöld og er móbergskeila. Hann er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Keilir er vinsæll til fjallgöngu enda er útsýn mikil af toppi hans yfir Reykjanesskagann og víðar. Þar er nú útsýnisskífa og gestabók.
Staðsetning: Hægt að ganga 3 km frá Höskuldarvöllum. Keyra á fjórhjóladrifnum bíl á Höskuldavallavegi en við norðurenda Oddafells er hægt að leggja bílnum. Þaðan byrjar síðan göngustígurinn að Keili.
Kajakferðir / Róðrarbretti
Það er skemmtileg upplifun að sigla um á kajak.
Margir aðilar um allt land bjóða upp á slíkar siglingar, bæði á sjó og vötnum.
Hellaskoðun
Ísland státar af fjölda hella, stórum, smáum, djúpum og grunnum. Mörg ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á hellaskoðunarferðir en suma hella er hægt að skoða upp á eigin spýtur.
Stangveiði
Á Íslandi er ógrynni áa og vatna. Tækifæri til stangveiði eru því óþrjótandi.
Hópsnes
Tanginn sem þú stendur á nefnist Hópsnes að vestanverðu en Þórkötlustaðanes að austanverðu. Nesið er tveggja kílómetra langt og eins kílómetra breitt. Það myndaðist fyrir um 2800 árum þegar hraun rann til sjávar.
Hópsnes/Þórkötlustaðanes myndaðist í gosi úr gígaröð sem kennd er við fellið Sundhnúk og er skammt norðan við byggðina í Grindavík. Hafnarskilyrði í Grindavík eru góð vegna þessa hraunrennslis og lóns (Hópsins) sem varð til við nesið þegar sjór tók að brjóta hraunið og flytja til laust efni. Ef nessins nyti ekki við er erfitt að sjá fyrir sér byggð í Grindavík. Það er því svo að eitt sex byggðalaga á Reykjanesskaga á tilvist sína að þakka gossprungu í eldstöðvakerfi sem enn er virkt. Jarðeldur getur komið upp á þessum slóðum hvenær sem er.
Grindavík hefur frá fyrstu tíð verið ein helsta verstöð á Íslandi. Sundhnúkur, þaðan sem hraunið rann er myndaði nesið, hefur leiðarmerki fyrir siglingar inn sundið inn á höfnina. Þegar farið er um nesið má víða sjá flök skipa sem strandað hafa þar og í nágrenninu á 20. öld. Við mörg flakanna eru upplýsingaskilti.
Fyrri hluti 20. aldar var blómatími byggðar og útgerðar á nesinu. Þá gerðu margir árabátar og síðar vélbátar út frá Þórkötlustaðanesi. Víða má sjá minjar um byggðina sem nú er horfin, s.s. innsiglingarvörður, fiskbyrgi, íshús, fiskhús, lifrarbræðslu og salthús. Útgerð fluttist á þann stað þar sem nú er Grindavíkurhöfn árið 1939. Þá gróf hópur atorkusamra Grindvíkinga í sundur rifið sem hindraði bátgegnd inn í Hópið. Hópsnesviti var byggður árið 1928.
Í dag er nesið er vinsælt til útivistar og liggur um það göngu- og hjólaleið.
Hjólaleigur
Hjólreiðar eru ódýr, heilnæmur og ekki síst umhverfisvænn ferðamáti.
Víða um land er hægt að leigja hjól til lengri eða skemmri tíma.
Þorbjörn
Stakt móbergsfell (243 m.y.s) fyrir ofan og norðan við Grindavík.
Af því er mikið útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Norðaustan í fellinu er mikil jarðhitamyndun og norður og norðaustur af því er allvíðáttumikið jarðhitasvæði. Fjallið er með mikinn sigdal á toppnum. Þorbjörn er myndaður á síðasta kuldaskeiði ísaldar, eins og flest önnur jföll á Reykjanesi.
Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Voru þeir síðast unnir með prettum að því er sagan segir.
Í heimsstyrjöldinni síðari hafði setuliðið bækistöð/varðstöð í sigdalnum og lögðu veg upp á fjallið. Sjást vel ummerki um byggingar setuliðsins frá þessum tíma.
Auðvelt er að ganga á Þorbjörninn bæði að norðanverðu upp eftir misgenginu og að austanverðu þar sem gamli bílvegurinn liggur. Undir norðurhlíðum fjallsins hafa Grindvíkingar ræktað skóg og er svæðið tilvalið til útivistar.
Hestaafþreying
Íslenski hesturinn er uppáhald margra og þekktur víða um heim sem fyrirtaks farskjóti. Fjölmargar hestaleigur eru um allt land, þar sem boðið er upp á lengri og skemmri ferðir og þær sniðnar að þörfum hvers og eins.