Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Þéttbýliskjarnar

imgmap.jpg
Þéttbýliskjarnar

Á Reykjanesi eru fimm sveitafélög sem eru um 826 km2 af Íslandi. 

Fjöldi íbúa er um 22.000 og hver bær hefur sinni sjarma og afþreyingu. 

 

Garður

Garðurinn er frábær staður til að njóta útivistar hvort sem um er að ræða gönguferðir, berjatýnslu í móunum, golf, sund eða nestisferð í skrúðgarðinn. Skrúðgarðurinn Bræðraborg við Garðbraut er fallegur og litríkur og sannkallaður ævintýrastaður fyrir börn þar sem felustaðir og fjársjóðir leynast í hverju horni. Garðskagi er sannkölluð náttúruperla en þar er góð aðstaða fyrir tjaldbúa, tjaldvagna og húsbíla. Útsýnið frá Garðskaga er einstakt og fuglalífið sérstaklega fjölbreytt.

Grindavík

Grindavík er rótgróinn sjávarútvegsbær á sunnanverðum Reykjanesskaga en í Landnámabók segir frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson og synir hans hafi numið land í Grindavík. Grindavík liggur fyrir opnu úthafinu þar sem brimaldan gengur næstum óbrotin á land. Hafnarskilyrði voru nánast engin frá náttúrunnar hendi. Sjósókn var frá fyrstu tíð erfið og áhættusöm frá Grindavík en þaðan var þó jafnan mikið útræði, meðal annars lengi á vegum Skálholtsstóls. Má enn sjá för í klettum fyrir ofan varirnar þar sem skipin voru sett upp.

Nú er höfnin í Grindavík með betri og öruggari fiskihöfnum landsins sem iðar af lífi allt árið um kring. Það eru fáir staðir á Íslandi þar sem hægt er að fá sjómennskuna jafn beint í æð og í Grindavík. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1974 og hefur bærinn vaxið og dafnað jafnt og þétt en íbúar í dag eru um 3.100 talsins.

Í Grindavík er allt til alls fyrir ferðamenn, hótel, gistiheimili, nýtt tjaldsvæði,18 holu golfvöllur, sundlaug, Bláa Lónið og mikið úrval hágæða veitingahúsa. Ýmis afþreying er í boði og stórbrotin náttúra Reykjanessins við bæjardyrnar.

Íþrótta- og menningarlíf hefur löngum verið öflugt í Grindavík en Grindvíkingar halda Menningarviku hátíðlega í mars og bæjarhátíð Sjóarinn síkáti um Sjómannadagshelgina er sannkölluð fjölskylduhátíð sem dregur að sér þúsundir gesta ár hvert.

Verið velkomin til Grindavíkur. Við tökum vel á móti ykkur.

Reykjanesbær

Reykjanesbær leggur áherslu á að skapa sterka segla í ferðaþjónustu.

Meðal þeirra eru Víkingaskipið Íslendingur og sýning Smithsonian Vikings - The North Atlantic Saga sem hýst verða í nausti við Fitjarnar í Njarðvík. Sýningin opnar sumarið 2009.
Brú milli heimsálfa - upplifðu hreyfingar meginlandsfleka Evrasíu- og Norður-Ameríku sem ganga á land á Reykjanesi. Brúin er 18 m löng og 6m metra beið og er á því svði þar sem flekaskilin ganga upp á landið en þaðan halda þau áfram norður fyrir land og eru víða sjáanleg.

Fólki gefst kostur á að fara yfir brúna hvenær sem er án gjalds. Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi "hafi gengið á milli heimsálfa" gegn vægu gjaldi á Upplýsingamiðstöð Reykjaness.

Duushús, menningar- og listamiðstöð Reykjanes er opin alla daga, allt árið, frá kl. 12:00 - 17:00. Lengri opnunartími er á virkum dögum á sumrin eða 09:00 - 17:00.

Vatnaveröld í Reykjanesbæ - Sundleikjagarður fyrir alla fjölskylduna.
Sunnubraut 31, Sími 421 1500

Opnunartími 7 til 21:00 virka daga, frá 8;00 til 18:00 laugardaga og sunnudaga. Það er frítt í sund fyrir börn í Reykjanesbæ!

Skessan í fjallinu flutti til Reykjanesbæjar á Ljósanótt 2008 og hefur nú aðsetur í Svartahelli við smábátahöfnina í Gróf.

Þar hefur skessan búið sér notalegan helli með góðu útsýni yfir Keflavíkina og Faxaflóann.

Skessan er höfundaverk Herdísar Egilsdóttur sem skrifað hefur 16 sögur um Siggu og skessuna í fjallinu en sú nýjasta fjallar einmitt um flutninginn til Suðurnesja.

Hönnun hellisins, framkvæmd og gerð skessunnar var í höndum listahópsins Norðanbáls en við undirbúning verkefnisins leituðu þeir ráða hjá skessunni sem kom með ábendingar um gerð hellisins en í hann er notað efni úr nálægu umhverfi sem gerir hann samofinn landinu. Skessan er í fullri stærð og situr sofandi í ruggustól í eldhúsinu.

Þeir sem hafa áhuga á að skoða skessuna og hellinn geta haft samband við Duushús, lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar í síma 421 3796 eða sent póst á netfangið duushus@reykjanesbaer.is.

Hægt er að senda skessunni bréf á netfangið skessan@reykjanesbaer.is

Virka daga er opnað fyrir hópa á opnunartíma safnsins frá kl. 11 - 17:00 en hellirinn er opinn um helgar frá kl. 13.00 - 17.00

Hafnir eru í Reykjanesbæ eins og Njarðvík og Keflavík. Eins og í flestum þorpum hér skiptast Hafnirnar í hverfi en mest byggð er í Kirkjuvogshverfinu. Kirkjan þar var byggð 1861 af Dannebrogsmanninum Vilhjálmi Kristjáni Hákonarsyni sem var útvegsbóndi í Kirkjuvogi. Rétt hjá, nær sjónum stendur eyðibýlið Kotvogur. Þar bjuggu og miklir útvegsbændur sem voru Katlarnir í 3 ættliði, en Kotvogur var eitt stærsta býli landsins á 19. öld. Bæði Kirkjuvogur og Kotvogur voru mikil útgerðarbýli og á sínum tíma var mesti mannfjöldi á Suðurnesjum í Höfnum.
Sr. Jón Thorarensen var alinn upp í Höfnum hjá frænku sinni Hildi Thorarensen og Katli Ketilssyni, kallaður mið-Ketillinn. Margar sögur skrifaði Jón um lífið í Höfnum. Má þar nefna bækurnar Útnesjamenn og Litla skinnið. Einnig tók Jón saman þjóðsögur bæði af Suðurnesjunum og af landinu öllu og setti á bók, Rauðskinnu.Nýlegur fornleifauppgröftur leiddi í ljós skála sem talinn er vera frá landnámsöld. Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli "Vágs ok Reykjaness," sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Talið er að hér séi kominn skáli sem Herjólfur hafi átt.

Sandgerði

Sandgerðisbær (áður Miðneshreppur) er sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga. Nær hann yfir alla vesturströnd Miðness (Rosmhvalaness), allt út að Garðskaga.


Miðneshreppur var stofnaður árið 1886 þegar Rosmhvalaneshreppi var skipt í tvennt eftir endilöngu nesinu. Hélt hinn hlutinn gamla nafninu áfram en hann náði yfir byggðirnar innan megin á nesinu: Garð, Leiru og Keflavík. Miðneshreppur fékk kaupstaðarréttindi 3. desember 1990 og nefndist upp frá því Sandgerðisbær.


Íbúar í Sandgerði eru rúmlega 1700 og hefur verið nokkur fjölgun síðustu áratugi. Sjávarútvegur og fiskvinnsla eru helstu atvinnuvegir, einnig iðnaður, verslun og þjónusta í frekar smáum stíl. Allgóð höfn er í Sandgerði og hafa viðamiklar hafnarframkvæmdir átt sér þar stað á seinni hluta 20. aldar. Flugstöð Leifs Eiríkssonar er innan bæjarmarka Sandgerðis.


Sandgerði var upphaflega útvegsjörð í betra lagi og bjuggu þar góðbændur, sem aðallega höfðu fiskinn í sjónum að bústofni. Eins og nafnið gefur til kynna er jarðvegur þarna mjög sendinn og ekki vel fallinn til ræktunar. Sandurinn var að miklu leyti heftur með umfangsmikilli ræktun melgresis og hleðslu mikils sjóvarnargarðs á fyrri hluta 20. aldar.


Í Sandgerði er Björgunarsveitin Sigurvon, sem er fyrsta björgunarsveit sem stofnuð var á vegum Slysavarnafélags Íslands. Rekur hún björgunarbátinn Hannes Þ. Hafstein og hefur mörgum verið bjargað úr sjávarháska og komið til aðstoðar vegna slysa eða sjúkdóma á hafi úti með þessum bát.


Sandgerðisbær nær frá Garðskagatá í norðri að Ósabotnum í suðri. Kirkjustaður er á Hvalsnesi, en þar var Hallgrímur Pétursson, sálmaskáld, (1614 - 1674) fyrst prestur árin 1644 - 1651.

Vogar

Sveitarfélagið Vogar er næst landstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær yfir Vatnsleysuströnd og bæinn Voga auk þess sem það teygir sig yfir í fjallgarðinn að Keili og Grænudyngju. Vogar standa við Vogavík, á norðanverðum Reykjanesskaga við Stakksfjörð. Sunnan við Voga er Vogastapi og norðan við er Vatnsleysuströnd. Vogar eru um 25 km frá Hafnarfirði og um 14 km eru í Reykjanesbæ. 

Sveitarfélagið Vogar tengir byggðirnar á höfuðborgarsvæðinu við byggðirnar á Reykjanesinu. Strandlengjan í sveitarfélaginu er um 30 km löng. Vatnsleysustrandarvegurinn, um 12 km langur, er lagður bundnu slitlagi og tilvalinn fyrir þá sem velja vilja minni og hægari umferð en ef ekið er eftir Reykjanesbraut.

Í Sveitarfélaginu Vogum má finna ýmsa þjónustu fyrir ferðamenn, svo sem sundlaug, golfvöll, veitingastaði og gistingu. Auk þess eru í sveitarfélaginu fjöldamargir áhugaverðir staðir til að skoða og skemmtilegar gönguleiðir. Náttúrunnendum er sérstaklega bent á Vatnsleysustrandarveginn því í Vogum eru fallegar tjarnir og klettar og töluvert um fuglalíf. Vogastapi, Vogatjörn, Kálfatjarnarkirkja og Staðarborg eru meðal þess sem ferðamönnum er ráðlagt að skoða.

Í nágrenni Voga er einnig stutt í nokkra af skemmtilegustu ferðamannastöðum landsins, svo sem Bláa Lónið, Saltfisksetrið í Grindavík, Byggðasafnið á Garðskaga og Fræðasetrið í Sandgerði. 

Reykjanes

Þéttbýliskjarnar

Reykjanesið er frekar láglent af náttúrunnar höndum og einkennist landlagið af hraunbreiðum og vogskorinni ströndu. Landslagið hefur haft áhrif á staðsetningu þéttbýla við sjávarsíðuna og mótað samfélag og sögu þess í gegnum aldirnar. Við hvetjum gesti til að kynna sér hvað svæðið hefur uppá að bjóða.

Map Garður Sandgerði Reykjanesbær Vogar Grindavík