Flýtilyklar
Þéttbýliskjarnar

Á Reykjanesi eru fjögur sveitarfélög sem ná yfir um 826 km2 af Íslandi.
Fjöldi íbúa er um 28.000 og hver bær hefur sinni sjarma og afþreyingu.
Hægt er að lesa meira um hvert sveitarfélag með því að smella á þau hér fyrir neðan.
Grindavík
Grindavík er rótgróinn sjávarútvegsbær á sunnanverðum Reykjanesskaga en í Landnámabók segir frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson og synir hans hafi numið land í Grindavík. Grindavík liggur fyrir opnu úthafinu þar sem brimaldan gengur næstum óbrotin á land. Hafnarskilyrði voru nánast engin frá náttúrunnar hendi. Sjósókn var frá fyrstu tíð erfið og áhættusöm frá Grindavík en þaðan var þó jafnan mikið útræði, meðal annars lengi á vegum Skálholtsstóls. Má enn sjá för í klettum fyrir ofan varirnar þar sem skipin voru sett upp.
Nú er höfnin í Grindavík með betri og öruggari fiskihöfnum landsins sem iðar af lífi allt árið um kring. Það eru fáir staðir á Íslandi þar sem hægt er að fá sjómennskuna jafn beint í æð og í Grindavík. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1974 og hefur bærinn vaxið og dafnað jafnt og þétt en íbúar í dag eru um 3.100 talsins.
Í Grindavík er allt til alls fyrir ferðamenn, hótel, gistiheimili, nýtt tjaldsvæði,18 holu golfvöllur, sundlaug, Bláa Lónið og mikið úrval hágæða veitingahúsa. Ýmis afþreying er í boði og stórbrotin náttúra Reykjanessins við bæjardyrnar.
Íþrótta- og menningarlíf hefur löngum verið öflugt í Grindavík en Grindvíkingar halda Menningarviku hátíðlega í mars og bæjarhátíð Sjóarinn síkáti um Sjómannadagshelgina er sannkölluð fjölskylduhátíð sem dregur að sér þúsundir gesta ár hvert.
Verið velkomin til Grindavíkur. Við tökum vel á móti ykkur.
Reykjanesbær
Reykjanesbær var til við sameiningu Keflavíkurkaupstaðar, Njarðvíkurkaupstaðar og Hafnahrepps. Mikil gróska hefur verið í bænum undanfarin ár og hefur samfélagið laðað til sín mikið af fólki enda er bæjarjarfélagið það fjórða stærsta á landinu.
Bæjarbragurinn hefur blómstrað undanfarna áratugi enda innblásin af fjölbreyttri menningu, sögu og merkum tónlistararfi. Uppskrift að góðum degi í Reykjanesbæ væri að fara í menningarferð í Duus safnhús, heimsækja Skessuna í hellinum, skoða Rokksafn Íslands, taka göngu í gamla hverfinu smella sér í Vatnaveröld og fá sér jafnvel ís á eftir. Bærinn er einnig frábær áfangastaður fyrir matgæðinga enda er boðið upp á sérlega fjölbreytt úrval veitingastaða og kaffihúsa þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Náttúran í kringum Reykjanesbæ er mögnuð en fjölbreyttar jarðmyndanir eru áberandi og Reykjanesið býr yfir jarðfræðilegri sérstöðu á heimsmælikvarða en þar kemur Reykjaneshryggurinn upp úr sjó og plötuskil heimsálfa eru sýnileg. Brú milli heimsálfa er svo einstakur staður þar sem hægt er að upplifa hreyfingar meginlandsfleka Evrasíu- og Norður-Ameríku sem ganga á land á Reykjanesi. Það er gríðarlega vinsælt að láta taka mynd af sér undir brúnni. Það er nauðsynlegt að skoða Hafnir sem er mjög áhugaverður viðkomustaður á Reykjanesskaga þar sem náttúran er kraftmikil við sjávarsíðuna en sjávarbrimið og útsýnið er ómetanlegt.
Það er sannarlega góð hugmynd að kíkja í heimsókn en það er einnig tilvalið að gista og kynnast betur Reykjanesbæ og þá gríðarlega fallegu náttúru sem umlykur svæðið. Fyrstu helgina í september er svo haldin Ljósanótt en þá breytist Reykjanesbær í björtustu fjölskyldu- og menningarhátíð landsins.
Vinsamlegast kíktu á ferðaupplýsingar hér neðar á síðunni:
Vogar
Sveitarfélagið Vogar er næst landstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær yfir Vatnsleysuströnd og bæinn Voga auk þess sem það teygir sig yfir í fjallgarðinn að Keili og Grænudyngju. Vogar standa við Vogavík, á norðanverðum Reykjanesskaga við Stakksfjörð. Sunnan við Voga er Vogastapi og norðan við er Vatnsleysuströnd. Vogar eru um 25 km frá Hafnarfirði og um 14 km eru í Reykjanesbæ.
Sveitarfélagið Vogar tengir byggðirnar á höfuðborgarsvæðinu við byggðirnar á Reykjanesinu. Strandlengjan í sveitarfélaginu er um 30 km löng. Vatnsleysustrandarvegurinn, um 12 km langur, er lagður bundnu slitlagi og tilvalinn fyrir þá sem velja vilja minni og hægari umferð en ef ekið er eftir Reykjanesbraut.
Í Sveitarfélaginu Vogum má finna ýmsa þjónustu fyrir ferðamenn, svo sem sundlaug, golfvöll, veitingastaði og gistingu. Auk þess eru í sveitarfélaginu fjöldamargir áhugaverðir staðir til að skoða og skemmtilegar gönguleiðir. Náttúrunnendum er sérstaklega bent á Vatnsleysustrandarveginn því í Vogum eru fallegar tjarnir og klettar og töluvert um fuglalíf. Vogastapi, Vogatjörn, Kálfatjarnarkirkja og Staðarborg eru meðal þess sem ferðamönnum er ráðlagt að skoða.
Í nágrenni Voga er einnig stutt í nokkra af skemmtilegustu ferðamannastöðum landsins, svo sem Bláa Lónið, Saltfisksetrið í Grindavík, Byggðasafnið á Garðskaga og Fræðasetrið í Sandgerði.
Suðurnesjabær
Sandgerði:
Sandgerðisbær (áður Miðneshreppur) er sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga. Nær hann yfir alla vesturströnd Miðness (Rosmhvalaness), allt út að Garðskaga.
Garður:
Garðurinn er frábær staður til að njóta útivistar hvort sem um er að ræða gönguferðir, berjatýnslu í móunum, golf, sund eða nestisferð í skrúðgarðinn. Skrúðgarðurinn Bræðraborg við Garðbraut er fallegur og litríkur og sannkallaður ævintýrastaður fyrir börn þar sem felustaðir og fjársjóðir leynast í hverju horni. Garðskagi er sannkölluð náttúruperla en þar er góð aðstaða fyrir tjaldbúa, tjaldvagna og húsbíla. Útsýnið frá Garðskaga er einstakt og fuglalífið sérstaklega fjölbreytt.

