Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Herbergjanýting dróst saman um tæp 60% á Suðurnesjum

Í fyrra var nýtingin hæst á landsvísu á Suðurnesjum, eða 88%. Samdráttur um 59,4% milli ára.
Í fyrra var nýtingin hæst á landsvísu á Suðurnesjum, eða 88%. Samdráttur um 59,4% milli ára.

Herbergjanýting á hótelum á Suðurnesjum dróst saman um tæp 60% í júlímánuði ef miðað er við sama tíma í fyrra. Herbergjanýting á hótelum á Íslandi í júlí var 46,7% og dróst saman um 34% frá því í fyrra. Nýtingin var lægst á Suðurnesjum (29,1%) en hæst á Austurlandi (73,3%). Hagstofan greinir frá þessu.

Í júlí á síðasta ári var nýtingin hæst á landsvísu á Suðurnesjum, eða 88%. Nú lækkaði hún hins vegar um 59,4% sem er langsamlega lægst á landsvísu. Höfuðuborgarsvæðið mátti þola 45,5% samdrátt í nýtingu gistinátta, og kemur þar næst á eftir Suðurnesjum.

Tölurnar sýna að Íslendingar voru á faraldsfæti í sumar og voru Austurland og Norðurland vinsæl meðal landsmanna, en á báðum landssvæðum dregst gisting saman um aðeins tæp 8%.

„Við lesum þannig í tölurnar að erlendir aðilar séu okkar helstu gestir á Reykjanesi og þeir voru einfaldlega ekki til staðar í sumar. Íslendingar sömuleiðis virðast ekki sækja hingað til þess að gista í sama mæli og annars staðar á landinu,“ segir Þuríður Aradóttir Braun forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness. 

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í júlí síðastliðnum dróst saman um 57% samanborið við júlí 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 56%, um 51% á gistiheimilum og um 49% á öðrum tegundum skráðra gististaða (tjaldsvæðum, farfuglaheimilum, orlofshúsum o.s.frv.). Samkvæmt áætlun sem byggir á landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofunnar var enn fremur 87% fækkun á gistinóttum erlendra ferðamanna á stöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður.