Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Áfangastaðurinn Reykjanes

Áfangastaðurinn Reykjanes
Brimketill - OZZO Photography

Áfangastaðurinn Reykjanes

Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála fóru af stað með stórt og metnaðarfullt verkefni í lok árs 2015 í samstarfi við markaðsstofur landshlutanna og Höfuðborgarstofu. Um er að ræða áfangastaðaáætlanir fyrir alla landshluta þar sem tvinnast saman stefnur og áætlanir svæðanna í uppbyggingu, þróun og markaðssetningu ferðaþjónustu til framtíðar.

Á Reykjanesi er unnin ein áætlun fyrir svæðið. Markaðsstofa Reykjaness og Reykjanes Geopark leiða þessa vinnu í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu og aðra hagaðila. Áætlað er að vinna við áfangastaðaáætlunina ljúki í apríl 2018.

Við upphaf verkefnisins kom í ljós að mikið af verkefnum áfangastaðaáætlunar hefur verið unnin innan svæðisins, þó það hafi ekki verið unnið undir formerkjum þess. Meðal þess sem litið er til og við viljum fjalla um hér er uppbygging áfangastaða og forgangsröðun.

 

Reykjanes Geopark – stefna og forgangsröðun um uppbyggingu áningarstaða.

Árið 2011 hófst vinna við stofnun Reykjanes Geopark og árið 2012 var ráðinn inn fyrsti starfsmaður verkefnisins sem hafði það verkefni að sækja um aðild að alþjóðlegum samtökum jarðvanga. Eitt af skilyrðum þess að gerast jarðvangur er að skilgreina helstu áningarstaði svæðisins (e. Geosites), flokka þá og forgangsraða uppbyggingu þeirra. Unnin var listi yfir 55 staði á svæðinu, áhugaverðir bæði fyrir jarðfræðilega- og menningarlega tengingu. Listinn er upphaflega frá árinu 2012 en hann var svo uppfærður 2015 í tengslum við umsókn Reykjanes Geopark að Global Geoparks Network.

Stefna Reykjanes Geopark á uppbyggingu áningarstaða er unnin í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu og hefur það samstarf gert það að verkum að hægt hefur verið að vinna að stærri verkefnum innan svæðisins með stuðningi allra sveitarfélaga.

 

Val á áningarstöðum

Ástæða þess að Reykjanes Geopark var samþykktur inn alþjóðleg samtök jarðvanga var sú að á Reykjanesi má finna jarðfræðilega einstakt fyrirbæri á heimsvísu. Hér er eini staðurinn í heiminum sem þú getur séð Mið-Atlantshafshrygginn koma á land og séð áhrif flekaskilanna á mjög afmörkuðu svæði. Þeir staðir sem settir hafa verið í forgang tengjast þessu, hvort sem það er jarðfræðileg tenging eða menningarleg. Flestir þessara staða eiga það sameiginlegt að á baki liggja fjölmargar rannsóknir og heimildir sem styðja við þá ákvörðun að þeir séu listaðir upp sem áhugaverðir staðir til að heimsækja til upplifunar eða frekari rannsókna og/eða til uppbyggingar.

Reykjanes Geopark hefur unnið markvisst að því að tengja saman áningarstaði á Reykjanesi og hefur áhersla undanfarinna ára verið á nágrenni Reykjanesvita. Þannig verður til net áningarstaða á leiðinni milli þéttbýliskjarnanna á norðanverðum Reykjanesskaga og Grindavíkur.

 

Aðkoma hagaðila

Uppbygging áningarstaða gerist ekki að sjálfu sér og því mikilvægt að tryggja aðkomu allra hagaðila við þróun á áningarstað, þannig að tryggt sé að uppbygging sé í takti við umhverfið og burðargetu svæðisins.

Áfangastaðaáætlun er ekki áætlun sem er meitluð við stein, heldur lifandi stefna og sýn til framtíðar og mikilvægt tól til að tryggja að uppbygging ferðaþjónustu vinnist í sátt við samfélagið. Áfangastaðaáætlun er mikilvægt að taka upp og endurskoða ef forsendur breytast. Þær forsendur geta verið fjölgun eða fækkun ferðamanna, breyting á ferðahegðun eða aðrar breytingar innan svæðisins í atvinnumálum eða í samfélaginu.

 

Þuríður H. Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness og verkefnastjóri Áfangastaðaáætlunar Reykjaness

Eggert Sólberg Jónsson, forstöðumaður Reykjanes Geopark og verkefnastjóri Áfangastaðaáætlunar Reykjaness.

 


Reykjanes

Þéttbýliskjarnar

Reykjanesið er frekar láglent af náttúrunnar höndum og einkennist landlagið af hraunbreiðum og vogskorinni ströndu. Landslagið hefur haft áhrif á staðsetningu þéttbýla við sjávarsíðuna og mótað samfélag og sögu þess í gegnum aldirnar. Við hvetjum gesti til að kynna sér hvað svæðið hefur uppá að bjóða.

Map Garður Sandgerði Reykjanesbær Vogar Grindavík