Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Björgvin Halldórsson í Rokksafni Íslands

Þann 12. nóvember opnar Rokksafn Íslands nýja sýningu sem ber heitið „Þó líði ár og öld“ og fjallar hún um stórsöngvarann Björgvin Halldórsson. Á sýningunni er farið um víðan völl og fjallað er ítarlega um hinar ýmsu hliðar Björgvins. Eins og flestum er kunnugt er Björgvin landsþekktur söngvari og hefur sungið með hljómsveitum eins og Bendix, Flowers, Ævintýri, Hljómum, Brimkló, Change, HLH flokknum, Ðe lónlí blú bojs og mörgum fleiri.

Björgvin hefur líka sinnt ýmsum störfum tengdum tónlist og fjölmiðlum í gegnum tíðina og má til dæmis nefna að hann starfaði sem markaðsfulltrúi á Íslensku auglýsingastofunni um tíma, var útvarpsstjóri Stjörnunnar og Bylgjunnar, framleiðandi og sjónvarpsstjóri Bíórásarinnar sem og verið rödd Stöðvar 2 um árabil. Einnig hefur Björgvin verið útgefandi, upptökustjóri, sinnt stjórnunarstörfum hjá hinum ýmsu fagfélögum tónlistarmanna og verið markaðsstjóri á veitingahúsinu Broadway.

Fjallað er um margar hliðar Björgvins á sýningunni og þeim gerð skil með hjálp tækninnar. Á sýningunni segir Björgvin sögur af ferli sínum og aðrir segja sögur af honum. Björgvin er mikill safnari og á sýningunni má finna fjölmarga muni sem hann hefur haldið til haga frá ferli sínum og samstarfsmanna í gegnum tíðina. Þar á meðal er hluti gítarsafns hans á sýningunni, plaköt allt frá fyrstu tónleikum til dagsins í dag, gullplötur, textablöð, glymskratti, ógrynni ljósmynda og myndbanda og þannig mætti lengi telja.

Gestir geta sungið lög sem Björgvin hefur sungið og gert vinsæl í söngklefa Rokksafnsins og prufað að hljóðblanda vinsælt lag sem Björgvin hefur flutt. Einnig verður til sölu tónlist Björgvins sem og ýmis varningur.

Þetta er sýning sem enginn tónlistarunnandi ætti að láta framhjá sér fara! Sýningarstjóri og hönnuður er Björn Georg Björnsson.

Opnun sýningarinnar fer fram kl. 15:00 þann 12. nóvember á Rokksafni Íslands í Hljómahöll.

Allir velkomnir! Frítt inn á opnunardaginn!

HÉR má lesa viðtal við Björgvin Halldórsson sem birtist í Fréttablaðinu í morgun 20. september. Þar fjallar hann um söfnunaráráttuna sína, samstarfið við Rokksafn Íslands og fleira. 

Heimasíða Hljómahallar

Heimasíða Rokksafns Íslands


Reykjanes

Þéttbýliskjarnar

Reykjanesið er frekar láglent af náttúrunnar höndum og einkennist landlagið af hraunbreiðum og vogskorinni ströndu. Landslagið hefur haft áhrif á staðsetningu þéttbýla við sjávarsíðuna og mótað samfélag og sögu þess í gegnum aldirnar. Við hvetjum gesti til að kynna sér hvað svæðið hefur uppá að bjóða.

Map Garður Sandgerði Reykjanesbær Vogar Grindavík