Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Herbergjanýting best á Reykjanesi en gistingin dýrust

Ný könnun á afkomu hótelfyrirtækja 2018, sem KPMG vann fyrir Ferðamálastofu, sýnir verulegan mun á afkomu fyrirtækja í Reykjavík og á landsbyggðinni. Samanburður við fyrri ár sýnir að afkoman hefur farið lækkandi öll árin frá 2016 bæði í Reykjavík og úti á landi. 

Herbergjanýting á Suðurnesjum var á bilinu 50-78% en það er hæst á landsvísu. Á Suðurlandi var hún 43-66%. Herbergjanýting á Norðurlandi var 43-62% og á Vesturlandi var hún 45-56%. Húsnæðiskostnaður er einnig mismunandi eftir landshlutum. Hann er lægstur á Suðurnesjum eða um 13% en landsmeðaltal er um 23%.

Ekki var marktækur munur á meðalverði á herbergi á milli landshluta. Meðalverð hótela var á bilinu 12.800 – 30.700 kr. Lægsta meðalverð hótels var á Vesturlandi og það hæsta á Suðurnesjum.

Seldar veitingar sem hlutfall af tekjum hótela eru lægstar á Suðurnesjum eða um 13% af tekjum en eru hæstar á Vesturlandi eða rétt tæp 40%. Sala á gistingu er langhæsti tekjustofninn á Reykjanesi eða 87%.

Samanburður við ári 2017 leiðir í ljós að rekstrarhagnaður sem hlutfall af tekjum var því sem næst óbreyttur í Reykjavík (12,6-12,7%) en lækkaði á Suðurlandi og Suðurnesjum. Á Vesturlandi dró úr rekstrartapi. Á Norðurlandi urðu ekki miklar breytingar á milli ára en þar er einnig tap

Könnunin var gerð í framhaldi af úttekt sem Ferðamálastofa fól KPMG að gera á rekstri fyrirtækja á fyrri hluta ársins 2018. Niðurstöður þóttu áhugaverðar og mikil umræða skapaðist um stöðu greinarinnar í kjölfar birtingar hennar. Því var talin ástæða til að endurtaka könnunina og fá fram upplýsingar um rekstur alls ársins 2018.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) hótela á landsbyggðinni var almennt lakari en í Reykjavík á árinu 2018. Rekstrarafkoma var að meðaltali neikvæð á Vesturlandi og Norðurlandi en jákvæð á Suðurlandi og Suðurnesjum. Rekstrarhagnaður fyrirtækja á Suðurnesjum lækkaði úr 11,3% í 6,9% milli áranna 2017 og 2018.

Húsnæðiskostnaður er einnig mismunandi eftir landshlutum. Hann er lægstur á Suðurnesjum þar sem afskriftir fastafjármuna eru hæstar. Það er vísbending um að fyrirtæki þar eigi fasteignir undir reksturinn en leigi þær ekki sem er algengara í öðrum landshlutum.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni: https://www.ferdamalastofa.is/static/files/konnun2018/konnun-a-rekstri-hotela-2018-2.pdf


Reykjanes

Þéttbýliskjarnar

Reykjanesið er frekar láglent af náttúrunnar höndum og einkennist landlagið af hraunbreiðum og vogskorinni ströndu. Landslagið hefur haft áhrif á staðsetningu þéttbýla við sjávarsíðuna og mótað samfélag og sögu þess í gegnum aldirnar. Við hvetjum gesti til að kynna sér hvað svæðið hefur uppá að bjóða.

Map Garður Sandgerði Reykjanesbær Vogar Grindavík