Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Brimrúntur

Inniheldur: Hafnir, Hafnarberg, Brú milli heimsálfa, Valahnúkur, Reykjanesviti, Gunnuhver, Brimketill, Grindavík ofl.

Hvort sem komið er frá Reykjavík eða Keflavíkurflugvelli er hægt að keyra veg 41 og beygja síðan veg 44 til þorpsins Hafnir. Mælum með ef þið eruð svöng að áður fáið ykkur að borða á Kaffi Duus áður en lagt er af stað.

Tími: Fer eftir því hvað er stoppað lengi á hverjum stað en mögulega 4-5 tímar.


 1. Brimið er einnig tígullegt í Höfnum og gaman að standa við bryggjusporðinn á gömlu bryggjunni og horfa á hafið ólmast og ólga í öllum sínum ofurkrafti. Hafnir voru ein stærsta útgerðarstöð Suðurnesja um aldir meðan enn var róið á árabátum, stutt á miðin en lendingin gat verið erfið í öldurótinu.

 2. Þá er haldið áfram en nú er það vegur 425. Tilvalið er að fá sér göngutúr hjá Hafnarbergi sem er um 4 km frá Höfnum. Þar er fjölskrúðugt fuglalíf og gott útsýni yfir hafið. Mikilvægt er þó að fara með gát þar sem bergið getur verið laust í sér.

 3. Rétt hjá Hafnarbergi, skammt ofan við Sandvík er Brú milli heimsálfa. Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður - Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið- Atlantshafshryggurinn) gangi á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi "hafi gengið á milli heimsálfa" gegn vægu gjaldi á Markaðsstofu og Upplýsingamiðstöð Suðurnesja, Grænásbraut 506, Eldey Frumkvöðlasetri, Ásbrú í Reykjanesbæ.

 4. Þá er haldið útá Reykjanestá. Á Reykjanesi er mikill jarðhiti. Árið 1878 var fyrsti viti á Íslandi hlaðinn á Valahnúki á Reykjanesi. Árið 1907 var reistur nýr viti á Bæjarfelli og sá gamli aflagður. Við nýja vitann hefst gönguleiðin Reykjavegur. Á Valahnjúki er ógnvænlegt en að sama skapi tignarlegt klettaþverhnípi. Skammt undan landi rís móbergsdrangurinn Karl, 51m. Oft má sjá hvali á sundi við Reykjanestá. Um 8 sjómílur undan landi rís Eldey úr sæ (77 m) og er talið að þar sé fjórða mesta súlubyggð í heimi. Það er skemmtilegt að standa á Valahnúki og horfa á hvítfyssandi öldurnar þegar þær skella á hamrabeltinu. Valahnjúkur og umhverfi hans er það sem dregur gesti fyrst og fremst út að vitanum. Það er gaman að ganga á Valahnjúki en vert er að sýna fyllstu aðgát og leiða yngstu börnin. Gangan upp á bjargi er stutt og ætti að vera við flestra hæfi. Á fáum stöðum á Íslandi er hægt að fylgjast með sjávarföllunum og krafti hafsins úr eins miklu návígi og við Reykjanesvita. Fuglalífið á staðnun er fjörugt og tilkomumikið að fylgjast með því um leið og maður andar að sér sjávarloftinu og horfir á öldurótið.

 5. Gunnuhver. Á þessu svæði er mikið af leir- og gufuhverum. Sá stærsti og áhugaverðasti er hverinn Gunna eða Gunnuhver. Hverinn heitir í höfuðið á Guðrúnu Önundardóttur sem að sögn gekk aftur til að hrella Vilhjálm Jónsson lögréttumann er hún hafði átt í útistöðum við í lifanda lifi.

 6. Brimketill er skammt frá Gunnuhver en hann er einn vinsælasti ferðamannastaður á Reykjanesi. Um er að ræða hringlaga berg eins og sundlaug.

 7. Í Grindavík er oft ólgandi brim, ægifagurt á að líta og gaman að aka meðfram ströndinni og fylgjast með bátunum smjúga innsiglinguna í Grindavíkurhöfn. Ef hungrið seðjar að mælum við með Salthúsinu í Grindavík en þeir eru sérfræðingar í að matreiða Þorsk.

Á leiðinni til baka á vegi 43, ef tími og vilji er til mælum við eindregið með Bláa Lóninu, yndislegt að slaka aðeins á eftir langann dag. Annars er líka Vatnaveröld í Reykjanesbæ.

Vonum að þú njótir dvalarinnar á Reykjanesi og munið að merkja myndirnar ykkar með #Reykjanes!

Brimrúntur
GPS punktar N0° 0' 0.000" W0° 0' 0.000"

Brimrúntur - ferðaupplýsingar

Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands

Aðrir

Icelandtaxi.com
Leigubílar
 • 892-0501
JM Þjónusta ehf.
Dagsferðir
 • 864-0070
Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir
Ferðasali dagsferða
 • Holtsgata 48
 • 245 Sandgerði
 • 868-1805

Reykjanes

Þéttbýliskjarnar

Reykjanesið er frekar láglent af náttúrunnar höndum og einkennist landlagið af hraunbreiðum og vogskorinni ströndu. Landslagið hefur haft áhrif á staðsetningu þéttbýla við sjávarsíðuna og mótað samfélag og sögu þess í gegnum aldirnar. Við hvetjum gesti til að kynna sér hvað svæðið hefur uppá að bjóða.

Map Garður Sandgerði Reykjanesbær Vogar Grindavík