Flýtilyklar
Sveitarfélagið Vogar er næst landstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær yfir Vatnsleysuströnd og bæinn Voga auk þess sem það teygir sig yfir í fjallgarðinn að Keili og Grænudyngju. Vogar standa við Vogavík, á norðanverðum Reykjanesskaga við Stakksfjörð. Sunnan við Voga er Vogastapi og norðan við er Vatnsleysuströnd. Vogar eru um 25 km frá Hafnarfirði og um 14 km eru í Reykjanesbæ.
Sveitarfélagið Vogar tengir byggðirnar á höfuðborgarsvæðinu við byggðirnar á Reykjanesinu. Strandlengjan í sveitarfélaginu er um 30 km löng. Vatnsleysustrandarvegurinn, um 12 km langur, er lagður bundnu slitlagi og tilvalinn fyrir þá sem velja vilja minni og hægari umferð en ef ekið er eftir Reykjanesbraut.
Í Sveitarfélaginu Vogum má finna ýmsa þjónustu fyrir ferðamenn, svo sem sundlaug, golfvöll, veitingastaði og gistingu. Auk þess eru í sveitarfélaginu fjöldamargir áhugaverðir staðir til að skoða og skemmtilegar gönguleiðir. Náttúrunnendum er sérstaklega bent á Vatnsleysustrandarveginn því í Vogum eru fallegar tjarnir og klettar og töluvert um fuglalíf. Vogastapi, Vogatjörn, Kálfatjarnarkirkja og Staðarborg eru meðal þess sem ferðamönnum er ráðlagt að skoða.
Í nágrenni Voga er einnig stutt í nokkra af skemmtilegustu ferðamannastöðum landsins, svo sem Bláa Lónið, Saltfisksetrið í Grindavík, Byggðasafnið á Garðskaga og Fræðasetrið í Sandgerði.

190
Vogar - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands