Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Um 500 hjólreiðamenn tóku þátt í Blue lagoon challence

Hjólreiðakeppnin var haldin í 26. skiptið síðast liðinn laugardag, 11. júní.
Hljóreiðamenn á leið inn að Vigdísarvöllum
Hljóreiðamenn á leið inn að Vigdísarvöllum

Hjólreiðafélag Reykjavíkur stóð fyrir hinni árlegu Blue Lagoon Challenge síðast liðinn laugardag, 11. júní en hún var haldin núna í 26. skiptið.

Hátt í 500 hjólreiðamenn tóku þátt að þessu sinni, en er mótið eitt vinsælasta fjallahjólamót ársins á Íslandi. Bláa Lónið er aðalstyrktaraðili mótsins og bauð öllum þátttakendum upp á kjötsúpu og í lónið að móti loknu, auk þess sem allir keppnendur voru verðlaunaðir með húðvörum úr spa línu Bláa Lónsins

„Stemningin var einstök í mótinu og gleðin skein úr hverju andliti að keppni lokinni. Mjög breiður hópur tók þátt þar sem mismunandi vegalengdir voru í boði, 60 km leið, 30 km leið og nú í fyrsta sinn var boðið uppá sérstaka rafhjólakeppni. Hjólreiðafólk af öllum getustigum, keppnishjólreiðafólk, vinnustaðahópar, áhugafólk og allt þar á milli tóku þátt. Að lokum sameinuðumst allir í Bláa Lóninu þar sem átökin liðu úr keppendum undir kvöldsólinni. Það er áskorun en ekki síður afrek, að ljúka keppni en 60 kílómetraleiðin liggur frá Völlunum í Hafnarfirði og að Svartsengi í Grindavík en 30 kílómetra leiðin hófst við Krísuvíkurkirkju og endaði á sama stað, við Bláa Lónið. Markmiðin eru misjöfn hjá keppendum, sumir keppast um 1.-3. sæti en einnig eru margir að keppa við sjálfan sig, eru að hjóla vegalengdina í fyrsta sinn eða keppa við eigin tíma frá því áður“, Segir Jón Gunnar Kristinsson, mótsstjóri Bláalónsþrautarinnar.

Leiðin er malbikuð að hluta, en einnig fer hún um grófan malarveg, um moldarslóða og sand. Heildarhækkun á leiðnni, ef farið er 60 km leið, er um 600 metrar og þar munar mest um Ísólfskálabrekkuna. Þegar þangað er komið er um 40 km lokið og því farið að síga í hjá all flestum.

Í fyrsta sæti, í 60 km veglengd, var Ingvar Ómarsson á tímanum 1:47:46 og í kvennaflokki var það Björg Hákonardóttir sem bar sigur af hólmi á tímanum 2:18:34.

Í 30 km vegalengdinni var það Blær Örn Ásgeirsson sem sigraði á karlaflokki á tímanum 1:52:05 og Pálína Þorsteinsdóttir sem sigraði í kvennaflokki á tímanum 01:48:31

Í rafhjólakeppninni voru það Dagný Pétursdóttir á tímanum 02:19:41 og Atli Már Markússon á tímanum 02:20:45 sem sigruðu í 60 km flokki og Gunnar Erling Vagnsson á tímanum 01:20:07 og Hanna Steinunn Steingrímsdóttir á tímanum 01:21:52 sem sigruðu í 30 km flokki.

„Brautarmetin hafa fallið ár frá ári en veður og vindar hafa þó töluverð áhrif á tímann. Þó að brautarmet hafi ekki verið slegið í ár er ljóst að hjólreiðafólk á Íslandi hefur bætt sig töluvert síðustu ár enda hefur orðið mikil vakning í íþróttinni á sama tíma og allur búnaður hefur þróast. Þá hefur uppbygging barna og unglingastarfs Hjólreiðafélags Reykjavíkur eflst til muna en ágóðinn af þessari keppni fer, á hverju ári, óskiptur til þess uppbyggingarstarfs. Við erum því afar stolt og glöð að geta haldið jafn metnaðarfullt og stórt mót sem raun ber vitni og spilar þar frábært samstarf við Bláa Lónið stærstu rulluna“, sagði Jón Gunnar, mótsstjóri Bláalónsþrautarinnar að lokum.