Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Innan Reykjanes Geopark eru skilgreindir 55 áhugaverðir jarðminjastaðir (e. geosites). Þessi svæði þykja áhugaverð vegna jarðsögu, náttúrufars eða menningarsögu og gegna lykilhlutverki í því að segja sögu svæðisins.

Arnarsetur
Arnarsetur einkennist af stuttri gossprungu sem samanstendur af gjall- og klepragígum. Sprungan myndaðist á seinni hluta rek- og goshrinunnar Reykjaneselda á árabilinu 1210 til 1240 og er um tveggja kílómetra löng. Hraunið frá henni þekur um 20 ferkílómetra svæði, er stórskorið og í því leynast hraunhellar og ýmis ummerki um mannvistir. Svæðið dregur nafn sitt af arnarpari sem verpti þar áður fyrr. Arnarsetur er rétt austan vegarins til Grindavíkur (43) suður af Vogastapa. Hægt er að keyra að því frá Grindavíkurvegi, um miðja leið frá Reykjanesbraut til Grindavíkur.
Djúpavatn, Spákonuvatn og Grænavatn
Þrjú stöðvötn í móbergshryggjunum Vesturhálsi og Sveifluhálsi, að mestu með grunnvatni. Djúpavatn er við samnefnda ökuleið, að hluta eldgígur. Spákonuvatn við Sogin er sprengigígur, eins og Grænavatn við göngustíg yfir Sveifluháls. 
Básendar
 Fornt úræði og verslunarstaður sunnan við Stafnes.  Einnig kallað Bátssandar var ein af höfnum einokunarverslunarinnar og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes.  Básendar eyðilögðust mikið í  ofsalegu sjávarflóði, aðfararnótt 9. janúar 1799.  Flóðið hreif flest hús með sér, stór og smá.  Fólk varð að flýja og sumt varð svo naumt fyrir að það varð að skríða upp um þekjuna til að komast út. Vitað er að ein kona drukknaði. Þetta var eitt mesta sjávarflóð sem um getur við strendur Íslands.    Hvernig á að komast þangað: Vegur liggur frá Sandgerði að Stafnesi og þar er merkt bílastæði. Gengið er frá bílastæðinu þangað til að sjást tóftir staðarins og gamall grjótgarður. 
Brennisteinsfjöll
Brennisteinsfjöll eru hryggur móbergsfjalla frá síðari hluta ísaldar. Efst er hraundyngjan Kistufell. Í fjöllunum eru nokkrar gossprungur með gígaröðum sem mynduðust einhverju fyrir landnám. Í norðanverðum Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði og þar var numinn brennisteinn í kringum 1880 með litlum árangri. Brennisteinsnámurnar eru enn sýnilegar.
Brimketill
Brimketill er sérkennileg laug í sjávarborðinu vestast í Staðarbergi stutt frá Grindavík. Á sólríkum degi minnir grjótmyndunin helst á heitan pott. Brimketill og katlarnir í nágrenni hans urðu til vegna stöðugs núnings brims við hraunklettana. Þar hefur ytra álag smátt og smátt mótað bolla og katla í basalthraunið. Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum í nágrenni Brimketils má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þessi ferill brýtur bergið smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota sem aldan skellir á sjávarkletta og laust grjót, og auk þess frostveðrun þegar vatn í glufum þenst út við að harðna, og jafnvel sandblástur.  Hraunið umhverfis Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Þjóðsaga ein segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu. Á dögunum var lokið við að byggja áfanga 2 við Brimketil, verkefni sem hófst árið 2015 er nú lokið. Nýja viðbótin við útsýnispallinn veitir ferðamönnum betra útsýni yfir sjálfa Oddnýjarlaug sem einnig nefnist Brimketill. Samhliða áfanga 2 var unnið að því að bæta aðgengi og öryggi umtalsvert sem og að gert var við skemmdir sem urðu á pallinum eftir veðurofsa vetrarins. Verkið var styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og verkefnastjórn var í höndum Reykjanes Geopark og Grindavíkurbæjar. Landmótun og Efla sáu um hönnun og ÍAV smíðaði.  Öryggisupplýsingar! Ekkert eftirlit er á svæðinu. Gestir eru a eigin ábyrgð. Öldurnar geta verið ófyrirsjánlegar og óvæntar. Sjávarstraumar eru einstaklega sterkir. Sterkar vindhviður geta verið hættulegar og ófyrirsjáanlegar. Ef þú ert á ferð með börn, skildu þau aldrei við þig. Lífshættulegt getur verið að fara í sjóinn. Ferðastu um Ísland á öruggan máta. SafeTravel.is
Brúin milli heimsálfa
Brú á Reykjanesi á plötuskilum milli Evrópu og Ameríku.  Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafshryggurinn) "gangi" á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir. Byggð hefur verið brú á milli "plötuskilanna" upp af Sandvík á Reykjanesi þar gefst kostur á að upplifa það að ganga á milli heimsálfa (jarðfræðilega séð) Fólki að kostnaðarlausu. Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi "hafi gengið á milli heimsálfa" gegn vægu gjaldi á upplýsingamiðstöð Reykjaness og gestastofu Reykjanes jarðvangs sem staðsett eru í Duushúsum í Reykjanesbæ.
Drykkjarsteinn
Steinn með þremur holum í laginu eins og skálar.  Langþráður áfangastaður ferðamanna sem voru að fara annað hvort til Grindavíkur eða Vogastapa en Drykkjarsteinn er staðsettur þar sem tveir vegir mætast. Nokkrar holur eru í  steininum sem safna vatni það hefur reynst ferðalöngum vel að stoppa og svala þorstanum. Sagt er að vatnið sé vígt og sé allra meinabót. Staðsetning: Rétt fyrir ofan veg 427
Stóra-Eldborg við Geitahlíð
Eldborg er langstærstur fimm gíga sem liggja í gossprungu í hlíðum Geitafells, og oft kallaður Stóra-Eldborg. Hann er brattur og gerður úr gjalli og kleprum. Austur úr honum liggur myndarlegur hraunfarvegur. Bæði Stóra-Eldborg og Litla-Eldborg eru friðlýstir gjallgígar. Hægt er að ganga upp að Stóru-Eldborg, sem margir telja fegursta gíg Suðvesturlands, og þaðan niður í Litlu-Eldborg þar sem hægt er að sjá ofan í gíginn.  Frá Grindavík er Stóra-Eldborg fyrir ofan Suðurstrandaveg (427). Sumarið 2021 var lokið við að lagfæra stíga, bæta merkingar og sett var upp bílastæði við gamla Suðurstrandarveg. Í sumar (2022) verður unnið að því að setja upp ný upplýsingaskilti.
Eldborg við Höskuldarvelli
Norðvestur af Höskuldarvöllum, sléttu graslendi við rætur Grænudyngju og Trölladyngju, stíga jarðhitagifur upp umhverfis stóran gjall- og klepragíg. Gígurinn er eldri en landnám og nokkuð skemmdur eftir efnistöku.
Eldey
Þverhnípt klettaeyja (77 m.y.s) 8 sjómílur suður af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum sem stendur á einni grynningu og nær klasinn 45 sjómílur frá landi. Kallast hann Fuglasker eða Eldeyjar. Eitt þessara skerja var Geirfuglasker þar sem síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins voru en það sökk að mestu í eldsumbrotum 1830. Í Eldey er ein af stærstu súlubyggðum sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlu. Við talningu, sem gerð var 1949 var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.
Eldvörp
Eldvörp eru um tíu kílómetra löng gígaröð í skástígum hlutum, ásamt 20 ferkílómetra hrauni sem flæddi í gos- og rekhrinunni Reykjaneseldum á árabilinu 1210 til 1240. Við miðbik gígaraðarinnar er jarðhiti og stök rannsóknarborhola. Áður fyrr bökuðu grindvískar konur brauð í Eldvörpum og liggur svokallaður Brauðstígur þangað frá Grindavík. Mannvistarleifar má finna hér og þar í hrauninu.
Festarfjall
Eldfjall um 190 metra hátt. Meðfram því er bergveggur en sagan segir að það sé festi tröllskessu. Staðsetning: Fyrir neðan Suðurstrandaveg 427 fyrir ofan Hraunsvík. 
Vitarnir á Garðskaga
Fyrstu  heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti. Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu. Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari
Gálgar á Stafnesi
Aftökustaður samkvæmt gömlum sögum.  Tveir frekar háir klettar og breitt bill á milli þeirra. Tré var á milli klettana og menn þar hengdir.  Staðsetning: Um 1 km frá Básendum, stutt ganga frá vegi 45
Grænadyngja og Trölladyngja
Grænadyngja og Trölladyngja eru brött móbergsfjöll vestan við Sogin. Þau eru umlukt ungum gossprungum, háhitasvæðum og mikilli litadýrð. Apalhraun rann frá gosstöðvum suður til sjávar við Reykjanesbraut og myndaði meðal annars Afstapahraun. Fjórir kílómetrar eftir vegi 41 í austur frá Keili.
Gunnuhver
Kröftugt hverasvæði á Reykjanesi. Rétt austan við Reykjanesvita er mikið jarðhitasvæði, eitt af mörgum á Reykjanesi. Gunnuhver er þekktasti hverinn þar en hann mun draga nafn sitt af Guðrúnu nokkurri sem gekk aftur og olli miklum usla á svæðinu þar til að Eiríkur Magnússon, prestur í Vogsósum, tókst að koma draugnum fyrir með því að senda hann í hverinn Á árinu 2006 hljóp mikill hamagangur í svæðið sem stækkaði mikið og eyðilagði akveg og göngupalla. Í endaðan júní 2010 hafa verið teknir í notkun nýjir göngupallar og útsýnispallar þar sem er aðgengi fyrir alla.
Hafnaberg
Hafnaberg eru há og löng sjávarbjörg, að mestu úr hraunlögum, sunnan við gömlu verstöðina Hafnir. Nokkrar tegundir sjávarfugla verpa í þverhnípinu. Merkt og vinsæl gönguleið liggur þangað frá vegi að Reykjanesi. Hafnaberg er mjög vinsælt til útivistar. Bílastæði og merkt gönguleið að Hafnabergi er um 4 km frá Höfnum. Við Hafnaberg má finna fjölskrúðugt fuglalíf og frábært útsýni yfir hafið. Mikilvægt þó er að fara gætilega þar sem brú bergsins er brotakennd.  Hafnaberg er áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Geopark.
Háleyjabunga
Háleyjarbunga er lítil og flöt hraundyngja sem myndaðist eftir flæðigos. Dyngjan er með stórum toppgýg, 20-25 m djúpur. Háleyjarbunga er um 9.000 ára gömul eða eldri, og úr frumstæðri basalttegund úr möttli sem nefnist pikrít. Grænir ólivínkristallar eru áberandi. Staðsetning: Nálægt Reykjanesvita á Reykjanestá. Merkt gönguleið liggur að Háleyjarbungu frá Gunnuhver.   Háleyjarbunga er áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Global Geopark.
Hópsnes
Tanginn sem þú stendur á nefnist Hópsnes að vestanverðu en Þórkötlustaðanes að austanverðu. Nesið er tveggja kílómetra langt og eins kílómetra breitt. Það myndaðist fyrir um 2800 árum þegar hraun rann til sjávar. Hópsnes/Þórkötlustaðanes myndaðist í gosi úr gígaröð sem kennd er við fellið Sundhnúk og er skammt norðan við byggðina í Grindavík. Hafnarskilyrði í Grindavík eru góð vegna þessa hraunrennslis og lóns (Hópsins) sem varð til við nesið þegar sjór tók að brjóta hraunið og flytja til laust efni. Ef nessins nyti ekki við er erfitt að sjá fyrir sér byggð í Grindavík. Það er því svo að eitt sex byggðalaga á Reykjanesskaga á tilvist sína að þakka gossprungu í eldstöðvakerfi sem enn er virkt. Jarðeldur getur komið upp á þessum slóðum hvenær sem er. Grindavík hefur frá fyrstu tíð verið ein helsta verstöð á Íslandi. Sundhnúkur, þaðan sem hraunið rann er myndaði nesið, hefur leiðarmerki fyrir siglingar inn sundið inn á höfnina. Þegar farið er um nesið má víða sjá flök skipa sem strandað hafa þar og í nágrenninu á 20. öld. Við mörg flakanna eru upplýsingaskilti. Fyrri hluti 20. aldar var blómatími byggðar og útgerðar á nesinu. Þá gerðu margir árabátar og síðar vélbátar út frá Þórkötlustaðanesi. Víða má sjá minjar um byggðina sem nú er horfin, s.s. innsiglingarvörður, fiskbyrgi, íshús, fiskhús, lifrarbræðslu og salthús. Útgerð fluttist á þann stað þar sem nú er Grindavíkurhöfn árið 1939. Þá gróf hópur atorkusamra Grindvíkinga í sundur rifið sem hindraði bátgegnd inn í Hópið. Hópsnesviti var byggður árið 1928. Í dag er nesið er vinsælt til útivistar og liggur um það göngu- og hjólaleið.
Hrafnagjá
Hrafnagjá er siggengi á togsprungu. Siggengið er um 12 km langt og allt að 30 m hátt. Það er lengsta brotalínan af þeirri gerð á Reykjanesskaga og sést af Reykjanesbraut. Hrafnagjáin er hluti dæmigerðs sigdals skammt frá Vogum. Staðsetning: Sprungan nær frá Stóru-Vatnsleysu suðvestur á móts við Vogastapa, en er ekki þó alveg samfelld.  Þar sem gjáin er dýpst á móts við Voga. Hægt er að skoða gjána við veginn hjá Stóru-Vatnsleysu og ef gengið er frá bílastæði sem er við mislægu gatnamótin til Voga.   Hrafnagjá er áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Global Geopark.
Hrólfsvík
Fundarstaður hnyðlinga.  Í gosum hefur kvikan tekið með sér aðskotasteina sem kallast Hnyðlingar. Þeir eru bæði rúnaðir og kanntaðir en ein tegundin er úr gabbró.  Staðsetning: Rétt hjá Grindavík, stutt ganga frá vegi 427
Hrútagjárdyngja
Hrútagjárdyngja er 6.000-6.500 ára hraundyngja sem þekur um 80-100 km2 lands. Alls rúmir 3 rúmkílómetrar af hrauni. Dyngjan er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota. Hrútagjárdyngja er einn af stærstu hraunskjöldum á Reykjanesi. Í hrauninu er hægt að finna hraunhella þ.a.m Steinbogahelli. Staðseting: Keyrt er að Hrútagjárdyngju af Krýsuvíkurvegi. Hrútagjárdyngja er áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Global Geopark.
Húshólmi
Bæjarrústir og túngarðar að hálfu undir Ögmundarhrauni. Húshólmi er neðanlega í hrauninu nálægt Hælsvík.  Bæjarrústirnar eru mjög fornar og auðvelt er að ganga að þessum rústum.  Sérfræðingar eru sammála um að hér séu elstu minjar sem hafa fundist um landnám á Íslandi, taldnar vera eldri en 871. Svæðið er vinsælt útivistarsvæði. Í kringum það liggur bílfær vegur sem gaman er að ganga eða hjóla. Þá er hann einnig mikið nýttur af hestamönnum.
Hvalsneskirkja
Hvalsneskirkja, vígð 1887 staðsett á vestanverðu Reykjanesi, kirkja Sandgerðinga.Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði kirkjubygginguna. Hvalsneskirkja er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, um tréverk sá Magnús Ólafsson. Allur stórviður hússins var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins.Kirkjan er enn starfandi í dag og rúmar 100 manns.  Kirkjan er friðuð Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1886 og sýnir hún upprisuna. Einn merkasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674) mesta sálmaskálds Íslendinga sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn, hans kona var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín 1644-1651. Hella þessi var lengi týnd en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna. Kirkja hefur liklega verið á Hvalsnesi lengi, hennar er fyrst gerið í kirknaskrá Páls biskups frá 1200.Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes- og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820 og var hún timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan sem stendur utan kirkjugarðs. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni, María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn helgi kross. 
Hvassahraunskatlar
Áhugaverð hraundrýli í hrauni úr Hrútagjárdyngju. Þau myndast jafnan við öflugt gasútstreymi nálægt eldgíg en í þessu tilviki um 10 km frá dyngjuhvirflinum. Hraun hefur runnið mest í norður og er allt milli Vatnsleysuvíkur austur að Hvaleyrarholti og að Kaldárseli. Staðsetning: Af Krýsuvíkurvegi (42) liggur Djúpavantsleið. Finna má skilti við þann veg sem vísar leiðina.   Hvassahraunskatlar eru áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Global Geopark.
Katlahraun
Katlahraun rann í sjó fram fyrir um 2.000 árum og hlóðst upp við ströndina vegna fyrirstöðu. Stór, hringlaga hrauntjörn myndaðist en tæmdist eftir að hlutar hennar höfðu storknað. Eftir standa margvíslegar, fallegar og óvenjulegar hraunmyndanir. Staðsetning: Katlahraun er vestan Selatanga og liggur vegur fyrir fjórhjóladrifnabíla að Ketli og Selatöngum. Katlahraun er áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Global Geopark.
Keilir
Keilir er einkennisfjall Reykjanesskaga, 379 metra hátt keilulaga móbergsfjall tengt við lágan hrygg sem nefnist Keilisbörn. Gosmyndunin kom undan ísaldarjökli. Keilir er vinsæll til fjallgöngu og útsýni mjög gott af toppi hans.
Kleifarvatn
Stöðuvatn á miðjum Reykjanesskaga milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi,um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins 97m. Það hefur lítilsháttar aðrennsli en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Töluverður jarðhiti er syðst í vatninu og einnig út af Innri stapa vestan við það. Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn ágætlega í því. Munnmæli herma a skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sést þar endrum og eins. Á það að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð.
Lambafellsgjá
Gjá hjá Lambafelli sem er nokkuð víð og getur verið 50 metra djúp. Hægt er að ganga eftir gjánni þar að segja yfir sumartímann. Bólstraberg má finna í veggjum hennar. Staðsetning: Keyrt er að Höskuldsvöllum og beygt þaðan niður að Trölladyngju. Bílastæði er við Eldborg og þaðan er gengið austan hennar að Lambafelli.
Ósar
Vík við Hafnir sem varð til vegna landsig. Ósar er þekkt náttúruverndarsvæði þar sem er fjölskrúðugt lífríki fjörunnar og mikið fuglalíf.
Patterson
Bandaríkjamenn byggðu árið 1942 og var lokað þremur árum síðar. Hann var aðalega notaður til að sinna orrustuflugvélum hersins sem sinntu loftvörnum á suðvesturlandinu. Við flugvöllinn má finna gömul sjávarsetlög síðan fyrir 20.000-22.000 árum. Staðsetning: Hafnavegur 44 að girðingu Patterson. Frá gömlum skotfærabirgjum er gengið norður. 
Reykjanesviti
Tignarlegur viti stendur á Suðvesturodda Reykjaness og hefur staðið á Bæjarfelli þar frá árinu 1908.  Rætt var fyrst um að byggja vita á Reykjanesi 1875 en ekki til peningar fyrir því. Stuttu seinna var vitagjald tekið upp til að safna fé til að byggja vita. Öll skip nema fiskiskip við allar hafnir landsins áttu að greiða 15 aura fyrir hverja lest sem úr skipinu væri tekin. Íslendingar ræddu við dani um kosti þess að hafa ljósvita þar sem tryggingafélög vildu ekki ábyrgjast skip sem sigldu til Íslands nema að skipaeigendur greiddu miklu hærri iðgjald. Að enginn skip komu til Íslands var mjög slæmt fyrir íbúana. Loks samþykktu danir að fjármagna ljóshúsið og tækin í ljósið en Íslendingar sæju um bygginguna sjálfa, efniskostnað og launakostnað starfsmanna.  Danskur verkfræðingur Rothe að nafni sá um að hanna bygginguna og skipuleggja verkið. Tafðist verkið af ýmsum ástæðum en 1. desember 1878 var fyrsti ljósviti Íslands formlega vígður á Valahnúk og tekinn í notkun. Það fór ekki betur en svo að hann skemmdist í jarðskjálfta 9 árum síðar og rústirnar sprengdar í apríl 1908.  Fyrsti vitavörðurinn var Arnbjörn Ólafsson og gegndi hann starfinu til 1. ágúst 1884.   
Rosmhvalanes
Nes sem er milli Ytri-Njarðvíkur og Kirkjuvog. Rostungur var þekktur undir nafninu Rosmhvalur og er talið að þeir hafi dvalið á þessu nesi. Nýlega er búið að setja upp gott skilti sem sýnir góða leið til að aka Reykjaneshringinn.
Sandfellshæð
Ein elsta og stærsta hraun breiða á Reykjanesi. Um er að ræða dyngjugíg sem er í Sandfellsdal. Gígurinn myndaðist á jökultíma fyrir um 14.000 árum þegar sjávarmál var 30 m lærra en það er í dag. Breiður sigdalur gengur yfir Sandfellshæð. Til að komast þangað er hægt að ganga frá veginum milli Svartsengis og Reykjanes en einnig hægt að fara þangað á velbúnum jeppum.
Selatangar
Gömul verstöð miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Á Selatöngum var allmikið útræði, bæði á vegum Krýsuvíkurbónda og annarra, meðal annars reru þar skip frá Skálholtsbiskupi.  Vísa er til sem nefnir 82 sjómenn þar.  Útræði lagðist niður á Selatöngum eftir 1880.  Allmiklir verbúðarústir eru þar og viða hefur verið hlaðið fyrir hraunhella sem vermenn höfðu til ýmissa nytja, má þar nefna Mölunarkór og Sögunarkór.  Minjar þar eru friðlýstar.  Á seinni hluta 19. aldar kom upp reimleiki á Selatöngum og var draugurinn nefndur Tanga-Tómas.  Mikill reki er við Selatanga.  Þar er stórbrotið umhverfi og má einkum nefna Katlahraun vestan við Tangana.  Þangað liggur ógreiðfær vegarslóði af Ísólfsskálavegi.
Seltjörn
Tjörn þar sem liggja góðir göngustígar, tilvalin staður fyrir lautarferðir og grill. Við hliðinná er lítill skógur sem heitir Sólbrekkuskógur með áhugaverðum formum steina hér og þar. Einnig mögulegt að veiða þar.  Við Tjörnina er gömul bygging sem var reist 1941 af útgerðarmönnum og var húsið notað sem íshús, ísinn sem tekinn var úr seltjörn var notaður til kælingar á fiski.  
Skagagarður
Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn var aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum. Var garðurinn 1,5 km langur og lá frá túngarði á Útskálum að túngarði á Kirkjubóli. Sveitafélagið Garður tekur nafn sitt af þessum garði. Staðsetning: Liggur frá Útskálakirkju í Garði að Kirkjubólsvelli. Farið eftir þjóðvegi 45 í átt að Garðskagavita.
Skálafell
Jarðskjálftasprungur á fleti með hraunlögum yfir 8000 ára. Skálafell er byggt uppá nokkrum gosum á mjóu sprungukerfi.Efst er klepragígur af eldborgargerð og kringum hann eru jarðföll suður meðfram gígnum en þar er hægt að finna smáhella.  Hentugast er að ganga á Skálafell frá bílastæði við Gunnuhver.
Snorrastaðatjarnir/Háibjalli
Vinsælt útivistarsvæði sem og tjarnir þar sem er kjörið að skoða fugla. Nálægt þessi svæði er Háibjalli 10 m hár klettur. Eru báðir á náttúruminjaskrá. Staðsetning: Vegur 43 rétt hjá Seltjörn og Sólbrekkuskógi.
Sogasel
Þar má finna gamlar rústir af skýli sem er í gíg. Það var notað í gamla daga fyrir kýr yfir sumartímann.  Staðsetning: Stutt að fara frá vegi 428, en hann er lokaður veturnar. 
Sogin
Sérkennilegt háhitasvæði sunnan við Trölladyngju og Grænudyngju.  Svæðið er allt ummyndað af jarðhita og gefur hlíðunum sem eru myndaðar af Sogaselslæknum fjölbreytta litaskrúð.   Staðsetning: Á sumrin er hægt að keyra Vigdísarvallaveg 428 en á veturnar er hægt að ganga frá Krýsuvíkurvegi 42.  
Staðarborg
Fjárborg á Strandarheiði. Staðsett 2-3 km frá Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju. Hún er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld.  Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m.  Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m.  Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt. Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla.  Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest.  Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu.  Ætlun hans var að hlaða borgina í topp.  En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn.  Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði.  Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans.  En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan.  Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951 
Stampar
Tvær gossprungur liggja frá sjó inn í land á vestanverðu Reykjanesi og mynda gígaraðir. Þessar gígaraðir hafa verið kenndar við Stampa. Gígaraðirnar eru frá tveimur tímaskeiðum og fylgja stefnunni SV-NA sem er algengasta sprungustefna á Reykjanesi. Sú eldri myndaðist í gosi á tæplega 4 kílómetra langri sprungu fyrir 1.800-2000 árum. Yngri-Stampagígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Gígaröðin er um 4 kílómetrar að lengd og er flatarmál þess hrauns sem þá rann um 4,6 km2. Þeir tveir gígar sem næst eru veginum, nefndir Stampar, eru við norðurenda gígaraðarinnar. Sunnar á gígaröðinni má sjá fleiri stæðilega gíga s.s. Miðahóll, Eldborg dýpri og Eldborg grynnri sem allir voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Flestir gígarnir eru þó lágir klepragígar og lítt áberandi. Þess má geta að í Reykjaneseldum 1210-1240 runnu fjögur hraun í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum auk þess sem neðansjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi. Hundrað gíga leiðin, merkt gönguleið, liggur að hluta um Stampahraunið. Leiðin hefst við Valahnúk á Reykjanesi. Leiðin liggur m.a. um háhitasvæðið á Reykjanesi, fram hjá gjall- og klepragígum og móbergsfjallinu Sýrfelli að Stampagígunum. Þaðan er gengið um úfið helluhraun og sandskafla og þræðir leiðin sig frá frá vesturhlið gígsins sem er næst veginum, áfram eftir gígaröðinni, sjávarmegin við Reykjanesvirkjun. Gígarnir sem gengið er meðfram eru fjölmargir og viðkvæmir.  Leyfilegt er að ganga á gíginn sem er nær veginum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að raska ekki viðkvæmum jarðminjum. Staðsetning: Vegur 425 um 2,5 km til norðurs frá Rauðhólum er stutt ganga. 
Sundhnúksröðin
Gígaröð sem varð til fyrir um 2.350 árum. Í því gosi varð náttúrulega höfnin í Grindavík til. Sundahnúkur var einkenni Grindavíkurbæjar í fyrri tíð.
Svartsengi
Grasfletir norður frá Svartsengisfelli, norðan við Grindavík. Þar hafa verið haldnar sumarsamkomur Grindvíkinga. Sunnan við það er Svartsengisfell. Mikið háhitasvæði er við Svartsengi. Er hitaveita leidd þaðan til allra Suðurnesja. Affallsvatn af orkuverinu sem þar er myndar Bláa Lónið.
Sveifluháls
Hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi ( Vesturháls). Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan í Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurberg. Sunnan til í hrauninu er 2 hólmar sem standa upp úr og er annar nefndur Óbrynnishólmi en hinn, sá austari Húshólmi. Í þeim síðar nefnda eru bæjarrústir sem taldar eru vera með þeim elstu á landinu eða frá landnámi og mótar vel fyrir þeim eins og sést á loftmyndinni hér. Er talið að hér séu rústir af elstu kirkju á Íslandi.
Útilegumannabyggð við Eldvörp
Minjar af skjóli úr steinum og steyptum veggjum fannst nálægt Eldvörpum við gamla gönguleið. Hellir hjá Eldvörpum fannst þegar Hitaveita Suðurnesja var að bora þar. Stærð hellisins er 30 m langur og 6-8 m breiður. Hæð er um 1,5 metri. Seinna fundust fyrir vestan Eldvörp tvær tóftir.   Staðsetning: Nálægð við Eldvörp, gengið frá vegi 425.
Valahnúkamöl
Hryggur með mikið af ringlaga hnullungum. Varð til með miklum stormum, háum öldum og brimi. Staðsetning: Nálægt Valahnúk í noðri og Skálafelli í suðri. Vegur 425
Valahnúkur
Valahnúkur er samsettur úr móbergstúfflögum, bólstrabergi og bólstrabrotabergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en sýnir mismunandi ásýndir í virkni gossins. Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn.   Móbergstúff Sambland af hraunmolum og harðnaðri gosösku sem finnst í Valahnúk nefnist túff. Túff myndast þegar 1200°C heit bráð kólnar snögglega í vatni. Þá verður til glersalli þar sem kristallar hafa hafa ekki tíma til að vaxa. Sallinn ummyndast fljótt í móberg.   Bólstrabrotaberg Neðarlega í Valahnúk má sjá hallandi lag af bólstrabrotabergi. Bólstrabrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar. Einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna þá niður hallann, umlykjast gjóskusalla og mynda hið svokallaða bólstrabrotaberg.   Bólstraberg Bólstraberg er ein algengasta hraunmyndun jarðarinnar þar sem hún er algengasta hraunmyndun úthafsskorpunnar. Þessir sérkennilegu bólstrar myndast í gosi undir vatni eða jökli. Oft er um að ræða gos þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Einnig geta bólstrarnir myndast þegar lítið eða ekkert gas er í kviku sem þrýstir sér hratt út úr flæðandi hraunmassa. Þar sem kvikan kólnar snögglega myndast svört glerhúð utan á bólstrunum. Oft eru þeir nokkrir metrar á lengd en einungis 10-30 sentímetrar í þvermál. Þegar horft er á klettavegg með þversnið af bólstrunum þá lítur hver bólstri út eins og bolti eða koddi. Bólstrabergið í Valahnúk hefur að öllum líkindum orðið til í gosi undir jökli.
Vigdísarvellir
Rústir af gömlum sveitabæ Bali og Vigdísarvellir. Núna er þar tjaldsvæði. Staðsetning: Vegur 428 lokaður að vetri til. 
Þorbjörn
Stakt móbergsfell (243 m.y.s) fyrir ofan og norðan við Grindavík.  Af því er mikið útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins.  Norðaustan í fellinu er mikil jarðhitamyndun og norður og norðaustur af því er allvíðáttumikið jarðhitasvæði. Fjallið er með mikinn sigdal á toppnum.  Þorbjörn er myndaður á síðasta kuldaskeiði ísaldar, eins og flest önnur jföll á Reykjanesi. Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga.  Voru þeir síðast unnir með prettum að því er sagan segir.  Í heimsstyrjöldinni síðari hafði setuliðið bækistöð/varðstöð í sigdalnum og lögðu veg upp á fjallið. Sjást vel ummerki um byggingar setuliðsins frá þessum tíma. Auðvelt er að ganga á Þorbjörninn bæði að norðanverðu upp eftir misgenginu og að austanverðu þar sem gamli bílvegurinn liggur. Undir norðurhlíðum fjallsins hafa Grindvíkingar ræktað skóg og er svæðið tilvalið til útivistar.
Þórshöfn
Á 19. öld fóru skip að koma til Þórshafnar á ný.  Sendu verslanir í Keflavík oft skip sín þangað með salt, timbur og aðra þungavöru en tóku í staðinn fisk af bændum á Miðnsesi og í Höfnum.  Í byrjun 20. aldar fór skipakomum að fækka til Þórshafnar, enda tók Sandgerði þá við hlutverki verslunarstaðar á Miðnesi.   
Þráinsskjöldur
Hraunbunga mikil norðaustur af Fagradalsfjalli.  Litlar minjar eldsumbrota eru í hvirfli bungunnar en geysimikil hraun hafa runnið frá henni til suðurs, vesturs og þó miklu mest til norðurs, hefur hraunið runnið kringum Keili og Keilisbörn og nær kaffært Litla Keili.  Heita hraunbreiður þessar einu nafni Þráinsskjaldarhraun og nær það austan frá Vatnsleysuvík og vestur að Vogastapa.  Þannig stendur öll byggð í Vogum og Vatnsleysuströnd í þessu hrauni.  Talið er að Þráinsskjaldarhraun hafi runnið fyrir um 9000 árum.  Þráinsskjöldur er einna mikilvirkasta eldstöðin á öllum Reykjanesskaga.
Ögmundarhraun
Hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi ( Vesturháls). Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan í Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurberg. Sunnan til í hrauninu er 2 hólmar sem standa upp úr og er annar nefndur Óbrynnishólmi en hinn, sá austari Húshólmi. Í þeim síðar nefnda eru bæjarrústir sem taldar eru vera með þeim elstu á landinu eða frá landnámi og mótar vel fyrir þeim eins og sést á loftmyndinni hér. Er talið að hér séu rústir af elstu kirkju á Íslandi.