Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Reykjanesskaginn er í dag geopark og hluti af verndaráætlun Unesco eða Unesco Global Geopark.

Reykjanes Geopark fékk formlega vottun sem geopark á þrettándu haustráðstefnu European Geoparks Network í Rokua Geopark í Finnlandi í september 2015. Reykjanes Geopark er annað svæðið á Íslandi til að hljóta þessa vottun er Katla Geopark hlaut hana árið 2011. Reykjanes Geopark er jafnframt 66. svæðið í Evrópu sem hlýtur þessa vottun. Í lok árs 2015 var alþjóðlega prógramm geoparka samþykkt sem 3ðja áætlun Unesco og er því Reykjanes Geopark hluti af því.

Enska orðið geopark eða geo er komið af orðinu Gaia, sem er ein af grísku guðunum og þýðir móðir jörð.

Reykjanes Geopark logo

Hvað er merkilegt við Reykjanes?

Mið-Atlantshafhryggurinn gengur á land yst á Reykjanesskaganum og liggur gegnum landið frá suðvestri til norðausturs. Jarðsaga Reykjanesskagans er nokkuð vel þekkt og má rekja hana nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann. Flest jarðlög á svæðinu eru yngri en 100 þúsund ára. Á þessum tíma hefur loftslag verið breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu og er þá talað um jökulskeið, en á milli var hlýrra loftslag líkt og nú, og er þá talað um hlýskeið. Á jökulskeiðunum áttu sér stað gos undir jökli. Þegar jökullinn hopaði stóðu eftir móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun frá gosstöðvum undan halla, oft til sjávar.Reykjanes er á flekaskilum, þ.e. hluti Reykjanesskagans tilheyrir Evrasíuflekanum á meðan hinn hlutinn tilheyrir Norður Ameríkuflekanum.

Talið er að um tólf hraun hafi runnið á Reykjanesi frá því að land byggðist á 9. öld eða að meðaltali eitt hraun á öld. Hraun sem rennur á Reykjanesi er aðallega sprungugos, þ.e. mikið magn hrauns kemur upp úr gígum á sprungum en lítið af ösku.

Af hverju Geopark?

Hvergi í heiminum má sjá flekaskilin ganga á land með jafn áþreyfanlegum hætti og á Reykjanesi. Í Reykjanes jarðvangi er að finna margar merkilegar jarðminjar og eru sumar þeirra einstakar á heimsvísu. Þar er að finna allar tegundir elstöðva sem gosið hafa á Íslandi, m.a. fjögur gosbelti og samanstendur hvert þeirra af hundruðum opinna sprungna, gígaraðir, dyngjur og skjaldlaga bungur.

Reykjanesskaginn er nú vottaður sem Global UNESCO GeoparkEuropean Geoparks Network logo

Reykjanes Geopark hefur listað upp 55 staði sem tengjast flekaskilunum og sögu Reykjanesskagans og eru merktir sérstaklega sem "geosites" eða áhugaverðir staðir innan Reykjanes Geopark.

Frekari upplýsingar um Reykjanes Geopark er hægt að finna inn á heimasíðu hans: www.reykjanesgeopark.is.

Áhugaverð svæði í Geopark
Innan Reykjanes Geopark eru skilgreindir 55 áhugaverðir jarðminjastaðir (e. geosites). Þessi svæði þykja áhugaverð vegna jarðsögu, náttúrufars eða menningarsögu og gegna lykilhlutverki í því að segja sögu svæðisins.
Brimketill
Brimketill er sérkennileg laug í sjávarborðinu vestast í Staðarbergi stutt frá Grindavík. Á sólríkum degi minnir grjótmyndunin helst á heitan pott. Brimketill og katlarnir í nágrenni hans urðu til vegna stöðugs núnings brims við hraunklettana. Þar hefur ytra álag smátt og smátt mótað bolla og katla í basalthraunið. Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum í nágrenni Brimketils má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þessi ferill brýtur bergið smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota sem aldan skellir á sjávarkletta og laust grjót, og auk þess frostveðrun þegar vatn í glufum þenst út við að harðna, og jafnvel sandblástur.  Hraunið umhverfis Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Þjóðsaga ein segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu. Á dögunum var lokið við að byggja áfanga 2 við Brimketil, verkefni sem hófst árið 2015 er nú lokið. Nýja viðbótin við útsýnispallinn veitir ferðamönnum betra útsýni yfir sjálfa Oddnýjarlaug sem einnig nefnist Brimketill. Samhliða áfanga 2 var unnið að því að bæta aðgengi og öryggi umtalsvert sem og að gert var við skemmdir sem urðu á pallinum eftir veðurofsa vetrarins. Verkið var styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og verkefnastjórn var í höndum Reykjanes Geopark og Grindavíkurbæjar. Landmótun og Efla sáu um hönnun og ÍAV smíðaði.  Öryggisupplýsingar! Ekkert eftirlit er á svæðinu. Gestir eru a eigin ábyrgð. Öldurnar geta verið ófyrirsjánlegar og óvæntar. Sjávarstraumar eru einstaklega sterkir. Sterkar vindhviður geta verið hættulegar og ófyrirsjáanlegar. Ef þú ert á ferð með börn, skildu þau aldrei við þig. Lífshættulegt getur verið að fara í sjóinn. Ferðastu um Ísland á öruggan máta. SafeTravel.is
Brúin milli heimsálfa
Brú á Reykjanesi á plötuskilum milli Evrópu og Ameríku.  Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafshryggurinn) "gangi" á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir. Byggð hefur verið brú á milli "plötuskilanna" upp af Sandvík á Reykjanesi þar gefst kostur á að upplifa það að ganga á milli heimsálfa (jarðfræðilega séð) Fólki að kostnaðarlausu. Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi "hafi gengið á milli heimsálfa" gegn vægu gjaldi á upplýsingamiðstöð Reykjaness og gestastofu Reykjanes jarðvangs sem staðsett eru í Duushúsum í Reykjanesbæ.
Grænadyngja og Trölladyngja
Grænadyngja og Trölladyngja eru brött móbergsfjöll vestan við Sogin. Þau eru umlukt ungum gossprungum, háhitasvæðum og mikilli litadýrð. Apalhraun rann frá gosstöðvum suður til sjávar við Reykjanesbraut og myndaði meðal annars Afstapahraun. Fjórir kílómetrar eftir vegi 41 í austur frá Keili.
Kleifarvatn
Stöðuvatn á miðjum Reykjanesskaga milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi,um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins 97m. Það hefur lítilsháttar aðrennsli en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Töluverður jarðhiti er syðst í vatninu og einnig út af Innri stapa vestan við það. Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn ágætlega í því. Munnmæli herma a skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sést þar endrum og eins. Á það að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð.
Gunnuhver
Kröftugt hverasvæði á Reykjanesi. Rétt austan við Reykjanesvita er mikið jarðhitasvæði, eitt af mörgum á Reykjanesi. Gunnuhver er þekktasti hverinn þar en hann mun draga nafn sitt af Guðrúnu nokkurri sem gekk aftur og olli miklum usla á svæðinu þar til að Eiríkur Magnússon, prestur í Vogsósum, tókst að koma draugnum fyrir með því að senda hann í hverinn Á árinu 2006 hljóp mikill hamagangur í svæðið sem stækkaði mikið og eyðilagði akveg og göngupalla. Í endaðan júní 2010 hafa verið teknir í notkun nýjir göngupallar og útsýnispallar þar sem er aðgengi fyrir alla.