Fara í efni

Árlegir viðburðir

Reykjanesið býður uppá allskonar árlega viðburði sem vert er að skoða

Sandgerðisdagar
Bæjarhátíðin Sandgerðisdagar er haldin árlega síðustu helgina í ágúst.  Aðaláherslan er á að fólk komi saman og skemmti sér á ýmsan hátt og er lögð sérstök áhersla á fjöskylduna.  Ýmis konar atriði verða til skemmtunar og er dagskráin þétt setin. Sandgerðisdagar byrja á föstudegi og standa til sunnudags.  Mesta vinnu í dagskrána leggja íbúar Sandgerðis sjálfir og er þar af leiðandi mikill hamagangur í öskjunni í vikunni fyrir hátíðina þegar bænum er skipt í 4 litahverfi.  Hvert hverfi keppist við að vera með flottustu skreytingarnar.  Nýlega var tekið í notkun tjaldstæði í Sandgerði sem er líka sérhannað fyrir húsbíla og hafa einmitt húsbílaeigendur verið stór hluti af gestum Sandgerðisdaga undanfarin ár. Sjá nánar á www.sandgerdi.is
Sjóarinn síkáti
Sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti í Grindavík er ein stærsta bæjarhátíð landsins, haldin um Sjómannadagshelgina.  Þar er fjölbreytt dagskrá, allt frá fimmtudegi til sunnudags. Í boði eru ýmsir menningarviðburðir, fjölbreytt skemmtiatriði fyrir alla aldurshópa, skemmtun öll kvöldin, bryggjuball, við höfnina eru mikil hátíðarhöld auk hefðbundinnar hátíðardagskrár Sjómannadagsins og svo mætti lengi telja. Sjóarinn síkáti hefur fest sig í sessi sem ein skemmtilegasta og fjölbreyttasta bæjarhátíð landsins.
Ljósanótt
Menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, Ljósanótt, verður haldin fyrstu helgina í september.  Áhersla er lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags þótt hápunktur hátíðarinnar sé á laugardeginum með lýsingu Bergsins og glæsilegri flugeldasýningu.  Tónlistin leikur stórt hlutverk á Ljósanótt í rokkbænum Reykjanesbæ og má þar nefna ljósalagið og fjölbreytta tónleika.  Fjöldi myndlistarmanna sýna verk sín víðs vegar um bæinn auk þess sem gallerý og vinnustofur listamanna verða opnar.  Einnig má nefna götuleikhús, fjölbreytta barnadagskrá, kjötsúpu, púttmót, fornbíla, smábíla, fjölbreytta íþrótta- og tómsstundaviðburði og svo margt fleira.  Ljósanótt er menningar- og fjölskylduhátíð án áfengis og eru foreldrar hvattir til þess að virða útivistartíma barna og unglinga.  Sjá nánar á www.ljosanott.is  
Sólseturshátíð Garði
Sólseturshátíðin í Garði er sannarlega hátíð fjölskyldunnar. Hátíðarhöldin fara fram á Garðskaga en þar er góð aðstaða fyrir tjaldbúa, tjaldvagna og húsbíla. Snyrting, rennandi vatn og rafmagn er til staðar. Sólsetrið á Garðskaga er einstök sjón og tímasetning hátíðarinnar er vel við hæfi þar sem Sumarsólstöður eru nýafstaðnar og sólsetrið gyllir hafið á meðan Garðbúar og gestir þeirra syngja og gleðjast við varðeldinn.Dagskrá og frekari upplýsingar má finna á http://www.svgardur.is
Jónsmessuganga á Þorbjörn
Á hverju ári í kringum Jónsmessu bjóða Bláa Lónið og Grindavíkurbær upp Jónsmessugöngu á fjallið Þorbjörn. Gangan hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár en hér er um að ræða skemmtilega afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Lagt er af stað frá Sundlaug Grindavíkur og er áætlað að gangan taki um þrjár klukkustundir. Hópstjóri er með í för.  Þegar á toppinn er yfirleitt söngur og spili við varðeld. Göngunni lýkur við Bláa lónið sem verður opið til klukkan 01.00 eftir miðnætti í tilefni göngunnar. Nánari upplýsingar á www.grindavik.is