Fara í efni
Keflavíkurkirkja
Keflavíkurkirkja er í Keflavíkurprestakalli í Kjalarnesprófstsdæmi. Hún er teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni, arkitekt og byggð árið 1914 eins og sjá má framan á kirkjuturni. Hins vegar var kirkjan vígð 1915, hinn 14. febrúar. Staður var kirkjunni valinn í samráði við arkitektinn haustið 1913. Kirkja hafði ekki staðið áður á þessum stað.Um aldamótin hafði að vísu verið langt komið byggingu kirkju, sem Guðmundur Jakobsson hafði teiknað og smíðað en sú kirkja, sem þá var að heita má fullgerð, skemmdist í óveðri í nóv. 1902 og var smíði hennar þá hætt. Altaristaflan er eftir Ásgrím Jónsson og sýnir Jesúm flytja Fjallræðuna; hefur hún verið í kirkjunni allt frá upphafi. Steindir gluggar eftir Benedikt Gunnarsson, myndlistarmann, voru settir í glugga kórs og framkirkju árið 1976.  Keflavíkurkirkja er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10:00-12:00 & 13-15. Opið á föstudögum frá kl.10:00 – 12:00. Heimasíða: www.keflavikurkirkja.is  Sími: 420 4300
Drykkjarsteinn
Steinn með þremur holum í laginu eins og skálar.  Langþráður áfangastaður ferðamanna sem voru að fara annað hvort til Grindavíkur eða Vogastapa en Drykkjarsteinn er staðsettur þar sem tveir vegir mætast. Nokkrar holur eru í  steininum sem safna vatni það hefur reynst ferðalöngum vel að stoppa og svala þorstanum. Sagt er að vatnið sé vígt og sé allra meinabót. Staðsetning: Rétt fyrir ofan veg 427
Kirkjan í Ytri-Njarðvík
Ytri-Njarðvíkurkirkja er í Njarðvíkurpresta-kalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var vígð á sumardaginn fyrsta, 19. apríl 1979 eða tæpum áratug eftir að fyrsta skóflustungan var tekin.Kirkjan er teiknuð af arkitektunum Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall. Hún er 400 fermetrar að grunnfleti og undir henni er 108 fermetra kjallari. Kirkjuskip rúmar 230 manns í sæti en safnaðarsalur, sem opnanlegur er inn í kirkjuskipið, rúmar 100 manns.Lengi var barist fyrir því að kirkja risi í Ytri-Njarðvík. Þórlaug Magnúsdóttir í Höskuldarkoti stofnaði sjóð árið 1948 til byggingar kirkjunnar. Fyrstu skóflustunguna tók Guðlaug Stefánsdóttir í Þórukoti 13. september 1969.  www.njardvikurkirkja.is  Sími: 421 5013
Staður
Eyðibýli skammt utan við kaupstaðinn í Grindavík.  Prestssetur og kirkjustaður frá fornu fari og allt fram á síðustu öld.  Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey.  Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.  Þar er kirkjugarður Grindvíkinga. Sr. Oddur V. Gíslason(1836-1911) þjónaði sem prestur þar á miðju 19.öld og er minnisvarði um hann í krikjugarðinum.
Landnámssaga
Fyrstu íslensku landnámsmennirnir, sem komu til landsins í kringum 874, voru aðallega af norrænum uppruna, að mestu af vesturströnd Noregs. Á Íslandi þá gátu þeir stundað landbúnað og ræktað jörðina á sama hátt og þeir höfðu í fyrri heimkynnum sínum, alið búfénað og hlúið að uppskerunni. Það voru ríkar fiskveiðilendur rétt utan við landsteinana og hafið sá einnig fyrir öðrum þýðingamiklum hlutum eins og rekavið, rostungum, fuglum og hvölum. Ingólfur Arnarsson, fyrsti landnámsmaðurinn, eignaði sér landið vestan við Ölfusá, sem í dag er kallað Reykjanesskagi. Síðan ráðstafaði hann landi til fimm manna og einnar konu. Steinunn gamla var ættingi Ingólfs: hann gaf henni norðurpart skagans, sem hún endurgalt honum með prjónaðri yfirhöfn. Hún gaf Eyvindi, nánum ættingja sínum landið sem nú er kallað Vogar. Ingólfur gaf tveimur öðrum ættingjum sínum landsvæði, Herjólfi Bárðasyni gaf hann landið frá Höfnum til odda Reykjaness og til Ásbjarnar Össurarsonar gaf hann landsvæðið milli síns eigin lands og Eyvindar. Moldar-Gnúpur settist að í Grindavík og Þórir haustmyrkvi settist að austan við Grindavík.
Kirkjuból
Bær á Garðskaga, mikil jörð og oft setin áður af höfðingjum.  Sá atburður gerðist vorið 1433 að hópur manna, sveinar Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forustu Magnúsar nokkurs kæmeistara hafði beðið Margrétar, dóttur Vigfúsar hirðstjóra Hólms, en fengið hryggbrot.  Reiddist Magnús og ákvað að brenna Margréti inni á Kirkjubóli.  Hún var þó eina manneskjan sem komst úr eldinum komst á þreveturt trippi og gat flúið.  Hét hún að giftast þeim manni sem hefndi hennar.  Það gerði Þorvaldur Loftsson á Möðruvöllum og fékk hann Margrétar. Árið 1550 var síðasti kaþólski biskupuinn á Íslandi tekinn af lífi.  Sá sem kvað upp úrskurðinn um að biskup skyldi líflátinn hét Kristján og var umboðsmaður danska hirðstjórans á Íslandi.  Í ársbyrjum 1551 fór Kristján með fjölmennu liði á Suðurnes  í erindum konungs og tók sér gistingu að Kirkjubóli.  Um nóttina réðust Norðlendingar að bænum fengu leyfi bóndans þar til að rjúfa þekjuna, réðust að Kristján og mönnum hans og drápu þá fleiri eða færri.  Voru Kristján og fylgdarmenn hans dysjaðir fyrir norðan túngarð á Kirkjubóli.  Þótti þar reimt, svo að Norðlendingar fóru aftur, grófu líkin upp og hjuggu höfuðin en settu nefin milli þjóana.  Þetta þótti mönnum hin mesta smán er fréttin barst til Danmerkur og töldu að níðst hefði verið á líkunum.  Leiddi þessi atburður til þess að árið eftir komu danskir hermenn að Kirkjubóli, tóku bóndann og fluttu í Straum og hálshjuggu þar.  
Vatnsleysa
Stóra- og Minni Vatnsleysa.  Bæir á Vatnsleysuströnd, stórbýli fyrrum og miklar útvegsjarðir .  Standa þeir vestanvert við allstóra vík sem Vatnsleysuvík heitir, milli Keilisness að vestan og Hraunsness að austan.  Á Minni-Vatnsleysu er reikið eitt stærsta svínabú landsins (Ali).  Til hlunninda þessara jarða eru talin hrognkelsveiði, reki og hverahiti.  Á Vatnsleysu var kirkja í kaþólskum sið, helguð öllum heilögum og átti hún 15 hundruð í heimalandi jarðarinnar.  Löngum mun Vatnsleysukirkja hafa verið þjónað frá Kálfatjörn
Vatnsleysuströnd
Byggðarlag við sunnanverðan Faxaflóa, frá Hvassahrauni að innan og út að Vogastapa, gjarnan nefnd Ströndin af heimamönnum.  Alls er Vatnsleysuströnd 15 km löng.  Upp frá henni liggur Strandarheiði sem öll er þakin hrauni, Þráinsskjaldarhrauni, er runnið hefur til sjávar fyrir um 9000 árum. Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar. 
Kirkjuvogur
Fyrrum stórbýli í Höfnum, útkirkjustaður í Grindavíkurprestkalli frá 1907 en var áður alllengi þjónað frá Útskálum.  Enn fyrr var Kirkjuvogi þjónað frá Hvalsnesi.  Kirkja í Kirkjuvogi var helguð Maríu guðsmóður í kaþólskum sið.  Í illviðrinu mikla í ársbyrjum 1799 skemmdist kirkjuhúsið mikið.
Útskálakirkja
Kirkjustaður og prestsetur í Garði. Útskálar voru eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum ásamt Stóra-Hólmi í Leiru og Kirkjubóli á Miðnesi. Kirkja sú er nú stendur á Útskálum var reist á árunum 1861-1863, timburhús á hlöðnum grunni, með sönglofti, forkirkju og turni og tekur um 200 manns í sæti. Forsmiður var Einar Jónsson frá Brúarhrauni. 1975 var forkirkja stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Kirkjan er af yngri turngerð og er friðuð. Altaristaflan er eftr erlendan málara og sýnir boðun Maríu, predikunarstóllinn var að öllum líkindum upprunalega í Dómkirkjunni í Reykajvík. Skírnarfonturinn er eftir Ríkharð Jónsson. Séra Sigurður B. Sívertssen var prestur að Útskálum í tæplega hálfa öld. Hann vann að mörgum framfaramálum s.s. jarðabótum, og húsbyggingum, m.a. lét hann byggja kirkjuna sem nú stendur, en þekktastur er hann fyrir Suðurnesjaannál sem hann skrifaði. Kirkja hefur líklega verið á Útskálum frá fyrstu tíð, hennar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200. Þá var kirkja einnig á Kirkjubóli, en þeirrar kirkju er síðast getið í heimildum frá 14. öld. Dýrlingar kirkjunnar í kaþólskri trú voru Pétur postuli og Þorlákur helgi. Einn hryggilegasti atburður sjóferðarsögu Íslands tengist kirkjunni. Þann 8.mars 1685 fórust 136 á sjó, flestir af Suðurnesjum, um nóttina rak 47 lík á land í Garðinum og var 42 þeirra búin sameiginleg gröf í Útskálakirkjugarði. Það er talið að aldrei hafi jafn margir verið jarðaðir á sama degi frá sömu kirkju á Íslandi.
Skagagarður
Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn var aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum. Var garðurinn 1,5 km langur og lá frá túngarði á Útskálum að túngarði á Kirkjubóli. Sveitafélagið Garður tekur nafn sitt af þessum garði. Staðsetning: Liggur frá Útskálakirkju í Garði að Kirkjubólsvelli. Farið eftir þjóðvegi 45 í átt að Garðskagavita.
Tyrkjaránið
Árið 1627 réðust algírskir sjóræningjari inn í Ísland. Þeir námu fyrst land í Vestamannaeyjum, síðan lá leið þeirra til Grindavíkur þar sem þeir lönduðu 20.júní. Algírskir sjóræningjar voru þekktir sem „Tyrkir“ á Íslandi þar sem Alsír var hluti af hinu gríðastóra Ottoman-veldinu. Þeir handsömuðu bæði íslendinga og dani og seldu þá í þrældóm í N-Afríku. Enginn var drepinn í árásinni á Grindavík en 2 slösuðust. Sumir af föngunum voru seinna frelsaðir og sneru aftur heim til Íslands. Ein af þeim, Guðríður Símonardóttir, giftist séra Hallgrími Péturssyni, höfundar Passíusálmanna.
Patterson
Bandaríkjamenn byggðu árið 1942 og var lokað þremur árum síðar. Hann var aðalega notaður til að sinna orrustuflugvélum hersins sem sinntu loftvörnum á suðvesturlandinu. Við flugvöllinn má finna gömul sjávarsetlög síðan fyrir 20.000-22.000 árum. Staðsetning: Hafnavegur 44 að girðingu Patterson. Frá gömlum skotfærabirgjum er gengið norður. 
Skessan í hellinum
Skessan flutti úr fjallinu sínu til Reykjanesbæjar á Ljósanótt 2008 og hefur nú aðsetur í Svartahelli við smábátahöfnina í Gróf. Þar hefur skessan búið sér notalegan helli með góðu útsýni yfir Keflavíkina og Faxaflóann. Skessan er höfundaverk Herdísar Egilsdóttur sem skrifað hefur 16 sögur um Siggu og skessuna í fjallinu en sú nýjasta fjallar einmitt um flutninginn til Suðurnesja. Hönnun hellisins, framkvæmd og gerð skessunnar var í höndum listahópsins Norðanbáls en við undirbúning verkefnisins leituðu þeir ráða hjá skessunni sem kom með ábendingar um gerð hellisins en í hann er notað efni úr nálægu umhverfi sem gerir hann samofinn landinu. Skessan er í fullri stærð og situr sofandi í ruggustól í eldhúsinu. Opnunartími: Alla daga frá kl. 10:00 -17:00 (nema ef veður hamlar opnun yfir vetrartímann t.d. vegna ófærðar að helli). Frekari upplýsingar eru veittar í Duushúsum, lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar í síma 420-3245. Einnig er hægt að senda póst á netfangið duushus@reykjanesbaer.is. Hægt er að senda skessunni bréf á netfangið skessan@reykjanesbaer.is.  Nánar um Skessuna á www.skessan.is
Selatangar
Gömul verstöð miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Á Selatöngum var allmikið útræði, bæði á vegum Krýsuvíkurbónda og annarra, meðal annars reru þar skip frá Skálholtsbiskupi.  Vísa er til sem nefnir 82 sjómenn þar.  Útræði lagðist niður á Selatöngum eftir 1880.  Allmiklir verbúðarústir eru þar og viða hefur verið hlaðið fyrir hraunhella sem vermenn höfðu til ýmissa nytja, má þar nefna Mölunarkór og Sögunarkór.  Minjar þar eru friðlýstar.  Á seinni hluta 19. aldar kom upp reimleiki á Selatöngum og var draugurinn nefndur Tanga-Tómas.  Mikill reki er við Selatanga.  Þar er stórbrotið umhverfi og má einkum nefna Katlahraun vestan við Tangana.  Þangað liggur ógreiðfær vegarslóði af Ísólfsskálavegi.
Reykjanesviti
Tignarlegur viti stendur á Suðvesturodda Reykjaness og hefur staðið á Bæjarfelli þar frá árinu 1908.  Rætt var fyrst um að byggja vita á Reykjanesi 1875 en ekki til peningar fyrir því. Stuttu seinna var vitagjald tekið upp til að safna fé til að byggja vita. Öll skip nema fiskiskip við allar hafnir landsins áttu að greiða 15 aura fyrir hverja lest sem úr skipinu væri tekin. Íslendingar ræddu við dani um kosti þess að hafa ljósvita þar sem tryggingafélög vildu ekki ábyrgjast skip sem sigldu til Íslands nema að skipaeigendur greiddu miklu hærri iðgjald. Að enginn skip komu til Íslands var mjög slæmt fyrir íbúana. Loks samþykktu danir að fjármagna ljóshúsið og tækin í ljósið en Íslendingar sæju um bygginguna sjálfa, efniskostnað og launakostnað starfsmanna.  Danskur verkfræðingur Rothe að nafni sá um að hanna bygginguna og skipuleggja verkið. Tafðist verkið af ýmsum ástæðum en 1. desember 1878 var fyrsti ljósviti Íslands formlega vígður á Valahnúk og tekinn í notkun. Það fór ekki betur en svo að hann skemmdist í jarðskjálfta 9 árum síðar og rústirnar sprengdar í apríl 1908.  Fyrsti vitavörðurinn var Arnbjörn Ólafsson og gegndi hann starfinu til 1. ágúst 1884.   
Þoskastríðið við Básenda og Grindavík
Kirkjan í Innri-Njarðvík
Njarðvíkurkirkja er sóknarkirkja Innri-Njarðvíkur, hún var vígð 18.júlí 1886. Saga kirkjunnar í Innri Njarðvík, nær að minnsta kosti aftir til 14.aldar.   Kirkjan hefur verið opin til sýnis frá miðvikud. - sunnudags kl. 13:00 - 17:00 frá júní til 31. ágúst og eftir samkomulagi eftir þann tíma. Upplýsingar hjá sóknarpresti Baldri Rafni Sigurðssyni.
Hópsnes
Tanginn sem þú stendur á nefnist Hópsnes að vestanverðu en Þórkötlustaðanes að austanverðu. Nesið er tveggja kílómetra langt og eins kílómetra breitt. Það myndaðist fyrir um 2800 árum þegar hraun rann til sjávar. Hópsnes/Þórkötlustaðanes myndaðist í gosi úr gígaröð sem kennd er við fellið Sundhnúk og er skammt norðan við byggðina í Grindavík. Hafnarskilyrði í Grindavík eru góð vegna þessa hraunrennslis og lóns (Hópsins) sem varð til við nesið þegar sjór tók að brjóta hraunið og flytja til laust efni. Ef nessins nyti ekki við er erfitt að sjá fyrir sér byggð í Grindavík. Það er því svo að eitt sex byggðalaga á Reykjanesskaga á tilvist sína að þakka gossprungu í eldstöðvakerfi sem enn er virkt. Jarðeldur getur komið upp á þessum slóðum hvenær sem er. Grindavík hefur frá fyrstu tíð verið ein helsta verstöð á Íslandi. Sundhnúkur, þaðan sem hraunið rann er myndaði nesið, hefur leiðarmerki fyrir siglingar inn sundið inn á höfnina. Þegar farið er um nesið má víða sjá flök skipa sem strandað hafa þar og í nágrenninu á 20. öld. Við mörg flakanna eru upplýsingaskilti. Fyrri hluti 20. aldar var blómatími byggðar og útgerðar á nesinu. Þá gerðu margir árabátar og síðar vélbátar út frá Þórkötlustaðanesi. Víða má sjá minjar um byggðina sem nú er horfin, s.s. innsiglingarvörður, fiskbyrgi, íshús, fiskhús, lifrarbræðslu og salthús. Útgerð fluttist á þann stað þar sem nú er Grindavíkurhöfn árið 1939. Þá gróf hópur atorkusamra Grindvíkinga í sundur rifið sem hindraði bátgegnd inn í Hópið. Hópsnesviti var byggður árið 1928. Í dag er nesið er vinsælt til útivistar og liggur um það göngu- og hjólaleið.
Gálgaklettar við Hagafell
Klettar undir háum sléttum klettavegg norðan Hagafells.  Hægt er að finna Gálgakletta um allt land. Þessir eru nálægt Grindavík norðan Hagafells. Sagan segir að nokkrir þjófara voru hengdir þar. Staðsetning: beygt frá vegi 43 
Festarfjall
Eldfjall um 190 metra hátt.  Meðfram því er bergveggur en sagan segir að það sé festi tröllskessu. Staðsetning: Fyrir neðan Suðurstrandaveg 427 fyrir ofan Hraunsvík. 
Uppspretta
Vatnstankur í Vatnsholti. Sumarið 2013 var gömlum vatnstanki í eigu bæjarins breytt í útilistaverk með aðstoð listhóps að nafni Toyistar. Toyistasamtökin eru alþjóðlegur listhópur 28 félaga með varnarþing í Hollandi en þrír listamannanna voru íslenskir og bjuggu í Reykjanesbæ. Hópurinn vinnur við að endurbæta gömul mannvirki og breyta þeim í listaverk og hefur unnið við svipuð verkefni víða. Nauðsynlegt var að gera ráðstafanir vegna tanksins hvort eð var, þar sem hann er staðsettur á útivistasvæði í bænum og var orðinn til mikillar óprýði. Þarna voru slegnar tvær flugur í einu höggi, umhverfinu unnið gagn um leið og búinn var til einstakur listgripur með alþjóðlega tilvísun. Tankurinnvar afhjúpaður á Ljósanótt 2013 og er algjörlega einstakt verk í íslenskum veruleika en um leið hluti af alþjóðlegri keðju umhverfislistaverka.
Helguvík
Lítil hamravík sunnan við dranginn Stakk sem stendur framan við Hólmsberg norðan við Keflavík í Reykjanesbæ.  Í Helguvík er blómlegt atvinnulíf þar er stórskipahöfn, loðnubræðsla, loðnuflokkunarstöð, sementssala, steypustöð og malbikunarstöð.  Til stendur að fjölga enn stórum fyrirtækjum í Helguvík.
Hvalsneskirkja
Hvalsneskirkja, vígð 1887 staðsett á vestanverðu Reykjanesi, kirkja Sandgerðinga.Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði kirkjubygginguna. Hvalsneskirkja er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, um tréverk sá Magnús Ólafsson. Allur stórviður hússins var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins.Kirkjan er enn starfandi í dag og rúmar 100 manns.  Kirkjan er friðuð Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1886 og sýnir hún upprisuna. Einn merkasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674) mesta sálmaskálds Íslendinga sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn, hans kona var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín 1644-1651. Hella þessi var lengi týnd en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna. Kirkja hefur liklega verið á Hvalsnesi lengi, hennar er fyrst gerið í kirknaskrá Páls biskups frá 1200.Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes- og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820 og var hún timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan sem stendur utan kirkjugarðs. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni, María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn helgi kross. 
Staðarborg
Fjárborg á Strandarheiði. Staðsett 2-3 km frá Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju. Hún er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld.  Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m.  Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m.  Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt. Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla.  Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest.  Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu.  Ætlun hans var að hlaða borgina í topp.  En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn.  Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði.  Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans.  En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan.  Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951 
Þórshöfn
Á 19. öld fóru skip að koma til Þórshafnar á ný.  Sendu verslanir í Keflavík oft skip sín þangað með salt, timbur og aðra þungavöru en tóku í staðinn fisk af bændum á Miðnsesi og í Höfnum.  Í byrjun 20. aldar fór skipakomum að fækka til Þórshafnar, enda tók Sandgerði þá við hlutverki verslunarstaðar á Miðnesi.   
Hallgrímur Pétursson
Hallgrímur (1614-1674) er talinn vera einn af bestu trúarskáldum Íslands og er hann þekktastur fyrir Passíusálmana. Fyrst gefnir út árið 1666, Passíusálmarnir hafa verið þýddir á mörg tungumál, þ.á.m latínu og kínversku. Um aldabil þá hafa íslendingar lesið Passíusálmanna, ásamt biblíunni, fyrir innblástur og sáluhjálp. Sem ungur maður þá fór Hallgrímur til Danmerkur til að læra til járnsmiðs, en farandi eftir ráði frá Séra Brynjólfi Sveinssyni, seinna Skálholtsbiskups, þá ákvað Hallgrímur að fara í prestanám í staðinn. Árið 1637 þá sneri hann aftur til Íslands eftir fimm ára nám og settist að í Njarðvík, þorpi á Suðurnesjum. Hann var skipaður í Hvalneskirkju, kirkju í Sandgerði, þar sem hann dvaldi í 7 ár. Hann var alltaf þekktur fyrir ljóðagerð sína en öðlaðist ekki frægð fyrir alvöru fyrr en eftir dauða sinn. Við byggingarvinnu á Hvalnesi þá uppgötvaðist legsteinn ástkærrar dóttur hans, Steinunnar. Legsteinninn, sem er talin vera unnin af Hallgrími sjálfum, er eina handverkið hans sem vitað er af. Eftir lát dóttur sinnar þá samdi hann sálminn sem ennþá er sunginn í öllum kristnum jarðaförum á Íslandi.
Kalmanstjörn
Eyðibýli í Höfnum, fyrrum höfuðból,  Suður af Kalmanstjörn eru leifar byggðar fyrr á öldum.  Þar var Kirkjuhöfn, stórbýli áður fyrr.  Herma munnmæli að þar hafi verið 50 hurðir á járnum.  Þá er talið að Kalmanstjörn hafi verið hjáleiga frá Kirkjuhöfn.  Þar var kirkja og sjást minjar kirkjugarðsins að því er talið er.  Lengra suður með sjónum er Sandhöfn og síðan Eyri er fór í eyði um 1828.  Öll þessi byggð fór smám saman í eyði vegna landskjálfta og sandfoks.
Hafurbjarnarstaðir
Bær á Garðskaga, í Miðneshreppi. Rétt hjá Hafurbjarnarstöðum liggur hinn mikli Skagagarður sem eitt sinn girti af Skagatána og Garðskagi dregur nafn sitt af. Á Hafurbjarnarstöðum var kumlateigur forn sem talinn er einn af hinum merkustu sem fundist hafa hér á landi. Var hann athugaður árið 1868 og tekin upp úr honum bein og gripir og flutt í Forngripasafnið en þar sem eftir af honum var rannsakað árið 1947. Alls voru í teignum 9 kuml og í þeim bein 7 eða ef til vill 8 manna og hafa þau verið rannsökuð. Einnig var mikið af beinaleifum hunda og hesta. Allmargt gripa fannst þar, vopn, skartgripir og fleira og sennilega hefur verið þar bátskuml
Jón Þorkelsson og Sveinbjörn Egilsson
Jón Þorkelsson Thorkillius (1679-1759) og Sveinbjörn Egilsson (1791-1852), báðir fæddir í Innri-Njarðvík, voru nánir ættingjar. Jón var skólastjóri í Skálholtsskóla. Hann var merkilegur maður með brennandi áhuga á menntun og skólahaldi á Íslandi. Hann var vel efnaður og arfleiddi öllum sínum veraldlegum eigum í það að stofna skóla á Kjalarnesi, þess vegna hefur hann verið kallaður faðir grunnskólamenntunar á Íslandi. Minnismerki var reist við hlið kirkjunnar í minningu hans árið 1965. Sveinbjörn var einnig menntamaður og var fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík árið 1846. Hann var mikið ljóðskáld, þýðandi og málfræðingur, sem skrifaði orðabók yfir íslenskt skáldamál, Lexicon Poeticum. Hans frægasta verk var þýðing hans á Hómerskviðu. Hans er einnig minnst með minnismerki við kirkjuna.
Stóri-Hólmur
Fornt höfuðból í Leiru. Talið hefur verið að Steinunn gamla, frændkona Ingólfs Arnarsonar hafi búið á Stóra-Hólmi á landnámsöld.  Í landi Stóra-Hólms er einn besti golfvöllur landsins rekin af Golfklúbbi Suðurnesja
Svartsengi
Grasfletir norður frá Svartsengisfelli, norðan við Grindavík. Þar hafa verið haldnar sumarsamkomur Grindvíkinga. Sunnan við það er Svartsengisfell. Mikið háhitasvæði er við Svartsengi. Er hitaveita leidd þaðan til allra Suðurnesja. Affallsvatn af orkuverinu sem þar er myndar Bláa Lónið.
Junkaragerði
Bær í Höfnum, skammt norðan Hafnabergs.  Sagt er að bærinn heiti eftir 12-18 erlendum mönnum sem þar áttu að hafa búið kallaðir voru junkarar.  Vour þeir taldir ölkærir, karlmenni mikil en óeirðarmenn um kvennafar.  Vildu landsmenn koma þeim af höndum sér og nótt eina söguðu þeir næstur sundur nefjur (ræðin) á hástokkum báts þeirra.  Reru junkarar svo fyrir dag en er líða tók á morgun gerði hvassan vind og hrukku nefjurnar í sundur.  En ekki náðist tilætlaður árangur því að junkarar reru við hné sér og björguðu sér þannig í land.  Næst leystu menn skautana af árunum, söguðu þeir meir en til miðs og negldu skautana aftur svo að ekki sáust verksummerki.  Nokkru síðar reru junkarar, gerði þá andvirði mikið og brotnuðu árarnar hver af annari.  Spurðist ekki til þeirra síðan.
Útilegumannabyggð við Eldvörp
Minjar af skjóli úr steinum og steyptum veggjum fannst nálægt Eldvörpum við gamla gönguleið. Hellir hjá Eldvörpum fannst þegar Hitaveita Suðurnesja var að bora þar. Stærð hellisins er 30 m langur og 6-8 m breiður. Hæð er um 1,5 metri. Seinna fundust fyrir vestan Eldvörp tvær tóftir.   Staðsetning: Nálægð við Eldvörp, gengið frá vegi 425.
Hólmsbergsviti
Hólmsbergsviti, norðan við Keflavík í Reykjanesbæ, var reistur árið 1956 og er einn þriggja vita sem reistir voru á árunum 1956 – 1957 eftir sömu teikningu, en hinr tveir eru í Seley og á Vattarnesi. Vitarnir á Fjallaskaga, í Æðey, á Skarði og Ketilsflesi sem eru eins að stærð og formi, en Axel Sveinsson, verkfræðingur teiknaði þá alla. Vitabyggingin er steynsteyptur, kónískur turn, 9,3 m hár og á hann var sett 3,4 m hátt sænskt ljósahús. Dyrnar eru í djúpu opnu anddydri. Efst á turninum er framstæð þakbrún með steynsteypt handrið, með ferköntuðum opum allt í kring og stendur það á fjórum klossum.
Vitarnir á Garðskaga
Fyrstu  heimildir um ljósvita á Garðskaga er frá því 1847, en þá var hlaðin varða til leiðarvísis sjófarendum. Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. Í blöðunum frá þeim tíma segir, að í ágústmánuði 1847 hafi komið með póstskipinu smíðuð járnvarða, sem setja eigi upp á Garðskaga, til leiðarvísis skipum sem sigldi inn Faxaflóa. Gert er ráð fyrir, að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verði hlaðinn, verði 15 álna há (3,7m). Þetta var leiðarmerki um daga en ekki viti. Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. Það var ferstrengd bygging úr steinsteypu, 12.5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús, þar sem vitavörðurinn hélt til um nætur. Umhverfis vitan var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 metrar á hæð. Í vitanum voru sett mjög vönduð ljósatæki, sem var olíulampi. Ljósbrjótur magnaði ljósið og sneri lóðaklukka ljósbrjótnum. Hana þurfti að vinda upp á fjögra klukkustunda fresti og því talið nauðsynlegt, að vitavörðurinn dveldist í varðhúsinu um nætur. Á síðari árum þótti ekki hættulaust að dveljast í vitanum þegar mikið brimaði og var þá vitans gætt frá vitavarðahúsinu. Nýr viti var svo byggður á Garðskaga árið 1944 og var ein höfuðástæða þess, að sjór hafði gengið mikið á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Nýji vitinn er sívalur turn úr steinsteypu, 28 m. á hæð með ljóshúsi. Garðskagavitin mun vera hæsti viti á landinu, það er að segja, byggingin sjálf. Ljóstæki gamla vitans voru flutt yfir í nýja vitann, en fljótlega kom þó rafljós í stað olíuljóssins, í fyrstu frá vindrafstöð, en síðar frá Sogsvirkjuninni og var ljósmagn vitans aukið um leið. Árið 1961 var vitinn búinn sænskum ljóstækjum og var hann með sömu ljósmerkjum og sá gamli (upplýsingar um ljósmerki). Radiomiðstöð var tekin í notkun á Garðskaga árið 1952 fyrir atbeina Slysavarnafélags Íslands og fjórum árum síðar var sú stöð leyst af hólmi með ljósradiomiðunarstöð, sem er miklu langdrægari og fullkomnari
Gálgar á Stafnesi
Aftökustaður samkvæmt gömlum sögum.  Tveir frekar háir klettar og breitt bill á milli þeirra. Tré var á milli klettana og menn þar hengdir.  Staðsetning: Um 1 km frá Básendum, stutt ganga frá vegi 45
Stafnes
 Höfuðból að fornu.  Þar var um aldir mikið útræði og fjölbýli á staðnum.  Konungútgerð hófst þar um miðja 16. öld og stóð til 1769.  Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldurgir til að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun.  Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum.  Básendar eru skammt sunnan við Stafnes.  Nokkru sunnar er Þórshöfn lítið notuð enda Básendar skammt frá.  Mörg skip hafa farist á Stafnesskerjum.  Árið 1928 fórst þar togarinn Jón forseti.  Drukknuðu 15 skipverjar en 10 varð bjargað,  Slys þetta varð ásamt öðrum íkveikjan að stofnun Slysavarnarfélags Íslands. Töluverð selveiði var á Stafnesi fyrr á árum. Stafnesviti var byggður árið 1925 á Stafnesi, milli Hafna og Sandgerðis. Hann er 8 m hár, steinsteyptur ferstrendur turn, 3x3 m að stærð sem stendur á efnismiklum sökkli. Anddyri var byggt við hann árið 1932. Á vitanum er 3 m hátt norskt ljóshús úr járnsteypu. Þrír krosspóstagluggar eru á vitanum, áður fyrr með sex rúðum en fjórum síðar. Efst á turninum er stölluð þakbrún með einföldu handriði úr járni og tréslám sem sett var upp árið 1981. Vitinn var hvítur í upphafi og um hann ofarlega var málað rautt band, en árið 1962 var vitinn málaðir gulur.
Fagradalsfjall
Hæsta fjall á Reykjanesskaga eða um 385(m.y.s). Eldgos hófst í Geldingardal handan Fagradalsfjalls í mars 2021. Það liggur aflangt frá austri til vesturs og er í raun lítil háslétta, með nokkrum hnjúkum, einkum að vestanverðu, móbergsstapi. Fjallið hefur orðið til við gos undir jökli á síðustu ísöld sem stóð yfir í 100.000 ár. Á Fagradalsfjalli fórst í flugslysi í síðari heimsstyrjöldinni, Frank M. Andrews, yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafssvæðinu, ásamt fleiri háttsettum foringjum.  Voru þeir að koma vestan frá Ameríku til lendingar á Keflavíkurflugvelli, en flugvélin hefur sennilega flogið of lágt.  Aðeins einn maður komst lífs af úr þessu flugslysi og beið hann björgunar á annan sólarhring. Staðsetning: Í Reykjanesfjallgarðinum á miðjum Reykjanesskaga í NA af Grindavík. 
Krýsuvíkurkirkja
Krýsuvíkurkirkja var reist 1857 og lögð niður sem sóknarkirkja 1929 en var síðar höfð til íbúðar. Gert var við kirkjuna 1964 og hún afhent Þjóðminjasafninu til eignar. Hún er dæmi um einfalda sveitakirkju frá síðari hluta 19. aldar. Síðast var jarðsett í kirkjugarðinum 1971. Krýsuvík var fyrrum stórbýli, enda landgæði mikil hér áður en uppblástur tók að herja. Bæjarhóllinn er vestan kirkjunnar of fór Krýsuvík endanlega í eyði eftir 1950. Í Ögmundahrauni vestast í Krýsuvíkurlandi eru miklar bæjarrústir niðri undir sjó huldar hrauni, þar sem virðist móta fyrir kirkju og kirkjugarði. Er jafnvel talið, að þar hafi bærinn áður staðið. Í landi Krýsuvíkur voru mörg kot og hjáleigur; Lækur var austan við bæjarlækinn, Norðurkot norðan túns, Suðurkot sunnan við túnið og Arnarfell sunnan undir samnefndu felli í suðaustur frá kirkjunni. Norðan þjóðvegar stóð Stóri-Nýjibær.
Kálfatjörn
Bær, kirkjustaður og áður prestsetur á Vatnsleysuströnd.  Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi.  Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið.  Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893.  Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni.  Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum.  Kálfatjarnarkikirkja tilheyrir Tjarnarprestkalli í dag.  
Húshólmi
Bæjarrústir og túngarðar að hálfu undir Ögmundarhrauni. Húshólmi er neðanlega í hrauninu nálægt Hælsvík.  Bæjarrústirnar eru mjög fornar og auðvelt er að ganga að þessum rústum.  Sérfræðingar eru sammála um að hér séu elstu minjar sem hafa fundist um landnám á Íslandi, taldnar vera eldri en 871. Svæðið er vinsælt útivistarsvæði. Í kringum það liggur bílfær vegur sem gaman er að ganga eða hjóla. Þá er hann einnig mikið nýttur af hestamönnum.