Fara í efni
Fjórhjóla- og Buggy ferðir

Reykjanesið er fjölbreytt og skemmtilegt yfirferðar hvort sem það er gangandi, á hestbaki eða á vélknúnum ökutækjum. Fjórhjólaferðir eru ein vinsælasta afþreyingin á svæðinu og buggyferðir eru fyrir alla fjölskylduna. 

Hjólaferðir

Sumstaðar er boðið upp á hjólaferðir með leiðsögn, sem er bæði fróðleg og umhverfisvæn leið til að kynnast landinu. Margir kjósa líka að hjóla á eigin vegum, ýmist á eigin farskjótum eða á leigðum hjólum.

Gönguferðir

Að ganga, með eða án leiðsagnar, er sívinsæll ferðamáti og gönguleiðirnar óþrjótandi. 

Fuglaskoðun

Þessi síða sýnir helstu fuglaskoðunarstaði á Reykjanesi, hvar sjaldgæfari tegundir er að finna og upplýsingar um aðgengi að skoðunarstöðum. Lítið er fjallað um auðfundna staði þar sem hægt er að sjá algengar tegundir svo sem þúfutittlinga eða heiðlóur, heldur er einblínt á staði þar sem auðvelt er að sjá sjaldgæfari fugla.

Reykjanesið er umlukið sjó og því má finna margar vaðfugla- og sjófuglategundir. Flestar tegundir yfirgefa varpstöðvarnar og halda á heitari slóðir yfir veturinn. Aðrar tegundir færa sig frá varpslóðum niður á láglendi og þá sérstaklega í fjöruna. Á Reykjanesi má finna margar andategundir, vaðfugla og brúsa svo sem æðarfugl, rauðhöfðaönd, straumönd, tjald og himbrima sem hafa vetursetu við strandleng juna. Um 30 tegundir íslenskra varpfugla halda til á landinu allt árið og eru kallaðar staðfuglar. Vetrargestir eru fuglar sem verja vetrinum á Íslandi en verpa á norðlægari slóðum. Má þar má nefna bjartmáf og sumar tildrur. Nokkrar fuglategundir koma til Íslands sem fargestir eða umferðarfuglar. Þrjár tegundir gæsa eru í þeim hópi: Blesgæs á Suðurlandsundirlendi, helsingi norðanlands að vori og Skaftafellsýslum á haustin, og loks margæsir sem sjást á Faxaflóa og Breiðafirði á fartíma. Á Reykjanesi er hægt að sjá margæsir á norðan-og vestanverðu Reykjanesi yfir fartímann. Nokkrar vaðfuglategundir stoppa við á Íslandi á leið frá vetrarstöðvum yfir á varpstöðvar og til baka: Tildrur, rauðbrystingar, sanderlur og svo hluti af sandlóunum og lóuþrælunum

Besti tími árs til þess að sjá sem flestar tegundir í fullum skrúða er að vori (lok maí-júní). Þá eru umferðarfuglar á leið til varpstöðva og staðfuglar í óðalsatferli og því auðséðir. Haustin eru betri til þess að sjá umferðarfugla og flækinga sem dragast út á haf í haustlægðum bæði frá Evrópu og Ameríku.

Aðgengi er gott að flestum stöðum, flestir vegir eru malbikaðir en malarvegir eru sérstaklega merktir. Í fuglaskoðun þarf lítið annað en góð föt og góðan kíki en sjónauki á fæti og myndavél með góðri aðdráttarlinsu gera leikinn auðveldari.

Golfvellir
Hestaafþreying

Íslenski hesturinn er uppáhald margra og þekktur víða um heim sem fyrirtaks farskjóti. Fjölmargar hestaleigur eru um allt land, þar sem boðið er upp á lengri og skemmri ferðir og þær sniðnar að þörfum hvers og eins.

Hellaskoðun

Ísland státar af fjölda hella, stórum, smáum, djúpum og grunnum. Mörg ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á hellaskoðunarferðir en suma hella er hægt að skoða upp á eigin spýtur.