Fuglahúsið
Á túninu á lóð Fjölbrautaskóla Suðurnesja stendur verkið Fuglahúsið eftir Sigurð Guðmundsson listamann. Verk Sigurðar var valið úr samkeppni sem efnt var til um útilistaverk við skólann og var það vígt árið 1994. Verkið er gert úr bronsi og saman stendur af fuglahúsi sem er áfast á hausform. Úr hausforminu gengur yddaður blýantur í gegn. Inni í fuglahúsinu eru ungar. Ungarnir tákna nemendur sem eru að hefja skólagöngu við skólann og blýanturinn táknar framtíðina og það þroskaferli sem nemendur fara í gegnum við skólann.