Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Allar gönguleiðir opnar til kl. 18:00 í dag

Veginum að Vigdísavöllum verður einnig lokað kl. 18.00 í dag af öryggisástæðum.
Göngufólk inn á hættusvæði. Mynd: Þráinn Kolbeinsson
Göngufólk inn á hættusvæði. Mynd: Þráinn Kolbeinsson

Í dag er opið inn á svæðið frá Suðurstrandarvegi en ekki frá öðrum vegum eða vegaslóðum. Fjallið Keilir er inn á merktu hættusvæði og ekki opið almenningi.

Gönguleiðum inn á svæðið verður lokað kl. 18 í dag. Erfiðlega gekk að hafa stjórn á fólki í gærkvöldi og nú sem oft áður er það tiltölulega fámennur hópur sem skemmir fyrir öllum hinum. Það hefur framangreindar afleiðingar að loka þarf gönguleiðum tímanlega í stað þess að halda úti fjölmennum hópi viðbragðsaðila allan sólarhringinn við að eltast við einstaklinga með lélega dómgreind. Takmarkaður hópur viðbragðsaðila hefur ekki getu eða afl til að leiðbeina og gefa fólki fyrirmæli við þessar aðstæður.

Á landakorti lítur svæðið sakleysislega út en margir átta sig engan veginn á vegalengdum eða stærð svæðisins.

Vigdísarvallavegi verður lokað kl. 18 í dag eða á sama tíma og gönguleiðum er lokað. Er það gert af öryggisástæðum.

Uppfært kort yfir hættusvæði var gefið út í gær (20. júlí) og fylgir neðst í fréttinni. Sjá einnig hér.

Gönguleiðir:

  • Leið upp að gosstöðvunum er það sem viðbragðsaðilar kalla Meradalaleið (E-blá). Ganga þarf um 18 km leið fram og til baka. Gönguferðin hentar því alls ekki öllum. Gangan fram og til baka tekur um 5 til 7 klukkustundir. Aðrar gönguleiðir samkvæmt korti eru jafnframt opnar.
  • Göngumenn klæði sig eftir veðri, taki með sér nesti og gleymi ekki að hafa næga hleðslu á farsímum. Ekki er tryggt öryggi farsíma á svæðinu.
  • Þeir gangi að gosstöðvum sem treysta sér til þess, vel búnir og nestaðir. Fylgist með vindátt og fréttaflutningi.

Viðbragðsaðilar:

  • Lögreglumenn, björgunarsveitarmenn, landverðir og sjúkraflutningamenn eru á svæðinu.

Öryggisupplýsingar:

Sem fyrr þá gengur ekki í öllum tilfellum vel að biðja fólk um að halda sig utan hættusvæðis. Við biðjum því fólk um að haga sér í samræmi við fyrirmæli lögreglu og björgunarsveita og fara ekki inn á merkt hættusvæði/bannsvæði.

  • Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega.
  • Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir.
  • Lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar.
  • Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.
  • Mælt er með því að fólk noti rykgrímur til að forðast mengun frá gróðureldum.
  • lögð áhersla á að ekki sé farið með börn á svæðið og að fólk með hjarta- eða lungnasjúkdóma gangi ekki að gosinu, eða þungaðar konur. Það er vegna hugsanlegrar gasmengunar en einnig vegna reyksins frá gróðureldum.
  • Fólk fer að gosstöðvunum á eigin ábyrgð.

Bílastæði:

  • Bílum skal lagt á merktum stæðum við Suðurstrandarveg en ekki í vegkanti Suðurstrandarvegar.
  • Akstur utan vega er bannaður.

Vinsamlegast farið að fyrirmælum viðbragðsaðila.

Sjá jafnframt upplýsingar á:

Spá veðurvaktar um gasdreifingu í dag:

Suðaustan 3-8 m/s, gasmengun berst því til norðvesturs í átt að Vogum, Garði og Reykjanesbæjar og getur gasið náð til Snæfellsness. Gömul gasmengun er yfir Suður- og Vesturlandi og jafnvel víðar á landinu. Norðvestan 3-8 við gosstöðvarnar seint í dag og þá blæs gasinu til suðausturs.
Spá gerð: 21.07.2023 21:31. Gildir til: 22.07.2023 23:59.

Heimild: Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (22. júlí 2023 @9.10) og Veðurstofa Íslands (20.júlí 2023)