Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Geopark Villa rís í Innri-Njarðvík

Andrea Maack myndlistakona og ilmhönnuður heillaðist af Reykjanesinu þegar hún flutti heim árið 2015 eftir dvöl á Ítalíu. Litrík háhitasvæði í bland við dökka og kalda náttúru eru henni innblástur í merkinu hennar Andrea Maack, en einnig í hönnun á draumahúsinu Geopark Villa. Hún segir það merkilegt eitt og sér að Reykjanesið sé Geopark og að það megi byggja svo nálægt einstökum jarðminjum. „Erlendu vinum mínum finnst þetta mjög merkilegt, en Íslendingar eru smátt og smátt að átta sig á þessu." Segir Andrea.

Netsalan sem opnaði fyrir ári síðan hefur farið vel af stað en Andrea Maack hefur verið að fást við nýjar aðferðir til að ná til kúnnans. „Mikið af visælustu ilmunum hafa verið uppsedir í mánuð. Biðin hefur verið erfið fyrir marga en fólk skilur að það tekur tíma að búa til hágæða vörur. Einnig lokuðu mikið af rótgrónum framleiðslufyrirtækjum í faraldrinum sem við vinnum með á Ítalíu og í Frakklandi. Gamli ilmvatnsmarkaðurinn trúði engan veginn á netið, en planið var alltaf að vera í búðum og á netinu þar sem fólk á möguleika á að fá prufu senda heim. Fólk getur þá prófað heima í ró og næði til að kynnast vörunni. Þetta verður eins og kennsla með kúnnana, ilmurinn er öðruvísi á húðinni og stundum tekur bara tíma að finna það eina rétta.” segir Andrea.

Photo: @benjaminhardman

Ilmurinn átti alltaf að vera hluti af listinni

Andrea er í grunninn listakona með mikla reynslu úr tískubransanum í London og átti því ekki von á að verða eigandi ilmvatnsfyrirtækis. „Ég fór fyrst að blanda og leika mér, og kom mér í sambandi við minni ilmvatns framleiðendur sem voru öll til í prófa eitthvað nýtt. Ég kom með unisex ilmi sem voru svolítið á undan sínum tíma og upprunalega hugmyndin var að tengja abstrakt list við ilm. Ég byrjaði með sýningar hér heima og í Evrópu þar sem fólk kom inn á sýninguna og fékk ilmvatnsprufur, sem var partur af listaverki. Boltinn fór svo að rúlla þegar hönnunargalleríið Spark bað mig um að setja upp sýningu sem var ilmvatnsbúð í miðbæ Reykjavíkur. Franska Vogue skrifaði um verkefnið, þá hugsaði ég bara ég fer alla leið með þetta og úr varð merkið Andrea Maack sem er ennþá starfandi eftir öll þessi ár."

Photo: @benjaminhardman

Reykjanes Geopark sem markaðstæki

„Eftir að við fluttum heim þá vorum við að huga að næsta skrefi. Ég sá fljótt möguleikana í að nýta þessa einstöku náttúru sem við höfum á Reykjanesinu. Við höfum líka myndað mikið af efni héðan sem við notum í markaðssetningu á vörunum okkar. Þetta svæði er svo heillandi og einstakt og okkur langaði því að breyta til og gera eitthvað í okkar anda. Það er merkilegt eitt og sér að Reykjanes sé Geopark og að það megi byggja hús á þessu svæði svo nærri einstökum jarðmynjum á heimsvísu. Hæfileikaríkir ljósmyndarar fíla t.d. Reykjanesið best og þeir vita hvað þeir hafa. Erlendu vinum mínum finnst þetta mjög merkilegt, en Íslendingar eru smátt og smátt að átta sig á þessu." Segir Andrea.

Draumahúsið Geopark Villa

Vegna fjölda eftirspurna um heimsóknir og kynningar hjá rísandi ilmvatnsmerkinu Andrea Maack fylgdi myndlistarmaðurinn draumnum um að byggja heimili/aðstöðu frá grunni. „Ég var löngu búin að hanna þetta hús í hausnum og lífsstílinn í kringum það. Fimm árum seinna var Geopark Villa allt í einu komið í gang. Við erum núna m.a að vinna með ítölskum hönnuðum sem sjá um húsgögnin, flísarnar og fleira. Við erum þannig búin að fjar-hanna þetta allt saman í faraldrinum. Aðstaða verður í boði með stúdíói þar sem við getum tekið á móti áhugasömum, en einnig er heimili fyrir fjölskylduna í teikningunum sem verður auðvitað afmarkað frá stúdíóinu. Ég sá líka fyrir mér að fólk gæti verið hér lengur ef það vildi, þar sem auka herbergi væri til staðar og heitur pottur úti. Þar spilar náttúran enn og aftur inn í því útsýnið yfir sjóinn er æðislegt og á veturna gæti fólk jafnvel séð norðurljósin."

Photo: @benjaminhardman

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á Reykjanesi?

„Þessi dökku og köldu svæði heilla mig, t.d. brimketill, svo líka allt umhverfis Reykjanesvita eins og Valahnúkur og Karlinn."

Hverju ertu stoltust af?

„Við erum ótrúlega stolt af því að vera íslenskt fyrirtæki sem hefur verið starfandi í þetta langan tíma. Við höfum náð að gera það sem okkur langar að gera og látið það ganga. Fólk vill oft að hlutirnir gerast hratt en stundum virkar það bara ekki þannig. Markmiðið mitt hefur alltaf verið að búa til merki sem stenst tímans tönn og það tekur tíma."

Photo: @benjaminhardman

Hvaða ráð gefurðu þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í að stofna fyrirtæki?

„Í fyrsta lagi, hafa mikla ástríðu fyrir því sem þú gerir. Ef þig langar það nógu mikið þá er best að hella sér út í djúpu laugina. Ég er ekki með neina leyni uppskrift eða leyni sambönd - ég tek bara upp símann, það er ekki gott að hugsa mikið um hvað öðrum finnst. Maður verður að vera með nógu mikið sjálfstraust og vera ekki hræddur við að hafa samband við fólk, annars er enginn að fara að banka uppá hjá þér. Það hjálpaði líka mikið að skrifa niður markmið og allar hugmyndir sem mér datt í hug, það er svo gaman að geta skoðað óskalistann seinna og sjá hversu langt ég er komin."

Hver eru næstu skref hjá Andrea Maack?

„Núna þurfum við svolítið að staldra við og ákveða hvaða átt við viljum fara í með fyrirtækið. Það er t.d. mikil eftirspurn í hreinlega leiðsögn, maður dettur svolítið aftur í myndlistarmanninn þar sem fólk vill fá ráðgjöf og kynnast sögunni á bak við vöruna. Ég vil gera Geopark Villa að upplifun og jafnvel hefja framleiðslu hér heima, þannig verður ferlið svo margfalt sýnilegra."

Video: @benjaminhardman

Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með framkvæmdum hér: @geopark_villa

 

Gunnhildur Björg Baldursdóttir