Fara í efni

Nýtt öryggisverkefni í samstarfi Samgöngustofu og ferðaþjónustunnar

Þriðjudaginn 22. júní var öryggisverkefnið ,, Nap and Go” kynnt fyrir gististöðum og bílaleigum á Suðurnesjum. Verkefninu er ætlað að vekja athygli öryggi í umferðinn og hættunni sem getur fylgt því að aka bíl fljótlega eftir næturflug. Aðdragandinn er fjöldi slysa sem rakin hafa verið til þreytu og svefnleysis.

Í lok árs 2020 beindi Rannsóknarnefnd samgönguslysa tillögu til Samgöngustofu um að vinna að forvörnum og vekja athygli á því að tímamismunur og næturflug getur haft áhrif á hæfni sem getur skapað alvarlega hættu í umferðinni. Samgöngustofa í samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness, Samtök Ferðaþjónustunnar, Íslandsstofu, Ferðamálastofa, Safetravel.is og ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hafa unnið að því að þróa verkefnið áfram með það að markmiði að bjóða uppá lausnir á sama tíma og unnið er að forvörnum. Um þessar mundir er verið að kynna verkefnið fyrir hagsmunaaðilum og mögulegum þátttakendum í verkefninu.

Hugmyndin er að hótel og gistiheimili nálægt Keflavíkurflugvelli bjóði ferðamönnum uppá þann möguleika að geta gist í styttri tíma t.d. milli kl. 6 og 12 á morgnana, eftir langt næturflug áður en haldið er út í umferðina. Mörg hótel þekkja til mismunandi þarfa gesta í kringum flugvöllinn og er þetta ein lausn fyrir ákveðinn markhóp.

Á mörgum hótelum í kringum Leifsstöð eru gestir sem fara mjög snemma á morgnanna til þess að komast í morgunflug og lausnin gæti verið þá að nýta þau herbergi áður en næstu næturgestir koma og selja væntanlega gistingu á lægra verði heldur en sem nemur heilum sólarhring.

Aðkoma bílaleiga í verkefninu getur verið að kynna þennan möguleika fyrir sínum viðskiptavinum og upplýsa ferðamenn um hættuna að sofna undir stýri. Það er þeirra hagur að fá fólkið og bílana til baka.

Verkefninu er fyrst og fremst ætlað að tryggja öryggi í umferðinni og hlúa að forvörnum þegar kemur að þreytu í umferðinni. Það er von þeirra sem standa að verkefninu  að ferðamenn geti planað morgunlagningu í ferðina sína en einnig að þetta sé í boði sem skyndiákvörðun ef fólki finnst það ekki í standi til þess að keyra.

"Miðað við þá góðu undirtektir sem verkefnið fékk á kynningarfundi með ferðaþjónustunni á Suðurnesjum þá er ekki útilokað að verkefnið verði þróað áfram og nái jafnvel til annarra markhópa heldur en hefur verið rætt um hér.  Fyrirtæki á Reykjanesi eru ekki ókunn að gestir tékka sig inn á öllum tíma sólahringsins þannig að við á Markaðsstofu Reykjaness ásamt samstarfsaðilum verkefnisins bindum væntingar við að aðilar a svæðinu taki vel í þessa herferð.

Öryggi ferðamanna er allri ferðaþjónustunni mikilvægt og því væri frábært ef sem flestir geti tekið þátt í verkefninu og aukið þannig öryggi ferðamanna og fækkað þannig slysum."

Hægt er að nálgast upplýsingar um verkefnið á heimasíðu visitreykjanes.is og ferðaþjónustuaðilar sem hafa áhuga á þátttöku eru hvattir til að hafa samband við starfsmenn Markaðsstofu Reykjaness í netfangið info@visitreykjanes.is.