Skráning hafin á Mannamót 2026
Mannamót Markaðsstofa landshlutanna verða haldin þann 15. janúar 2026 í Kórnum í Kópavogi.
Mannamót eru árleg ferðakaupstefna sem haldin er í sameiginlegri umsjón Markaðsstofa landshlutanna og hafa fest sig í sessi sem einn mikilvægasti vettvangur ferðaþjónustunnar á Íslandi.
Markmið viðburðarins er að skapa tengslanet og tækifæri þar sem fyrirtæki á landsbyggðinni geta kynnt sína þjónustu og vöruframboð fyrir fagaðilum ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu. Gestir fá jafnframt tækifæri til að kynna sér hvað mismunandi landshlutar hafa upp á að bjóða og efla þannig samvinnu og viðskipti innan greinarinnar.
Viðburðurinn er hluti af Ferðaþjónustuvikunni 13.–15. janúar 2026, þar sem áhersla verður lögð á að efla samstarf, fagmennsku og vitund um mikilvægi ferðaþjónustunnar með fjölbreyttri og fróðlegri dagskrá.
Einungis samstarfsfyrirtæki markaðsstofanna geta tekið þátt sem sýnendur á Mannamótum og stendur skráning nú yfir. Þátttakendur frá Reykjanesi koma til með að kynna undir sameiginlegri ásýnd svæðisins, sem verður kynnt á sameiginlegum kynningarfundi (rafrænt) með þátttakendum 5. janúar kl. 13.30.
Verð fyrir sýnendur er 34.900 kr. + vsk og skráningu lýkur 18. desember 2025.
Gestir fá frían aðgang og hvattir eru til að mæta og kynnast lifandi og fjölbreyttri ferðaþjónustu landsbyggðarinnar.