Bláa Lónið verðlaunað sem framúrskarandi vinnustaður í Evrópu
Bláa Lónið hreppti fyrsta sæti í flokki stærri fyrirtækja og annað sæti í flokki allra fyrirtækja í European Inspiring Workplaces Awards 2025. Á hverju ári verðlauna þau fyrirtæki sem eru leiðandi í mannauðs- og menningarmálum sem og vellíðan starfsfólks.
Dómnefndin lagði sérstaka áherslu á einstakan stuðning Bláa Lónsins við starfsfólk sitt á tímum jarðhræringa undanfarinna missera, auk frammistöðu fyrirtækisins hvað varðar vellíðan og upplifun starfsfólks sem og stjórnun.
„Þessi verðlaun eru dýrmæt viðurkenning fyrir allt okkar frábæra starfsfólk sem nálgast sín verkefni af gríðarlegri þrautseigju og samheldni," segir Sigrún Halldórsdóttir framkvæmdastjóri mannauðs, menningar og vellíðunar.
Hjá Bláa Lóninu er forgangsverkefni að hlúa að jákvæðu og uppbyggilegu starfsumhverfi. Lykilþáttur í verðlaununum var skuldbinding fyrirtækisins gagnvart vellíðan starfsfólks, sem og þau sterku gildi sem unnið er eftir í hvívetna.
„Að fylgja kjarnagildum fyrirtækisins hefur hjálpað okkur að byggja upp öflugt og metnaðarfullt teymi – teymi sem stendur sig ávallt með mikilli prýði, jafnvel við erfiðar aðstæður. Þess vegna er það okkur algjört forgangsatriði að styðja vel við starfsfólk okkar á tímum áskorana. Þetta endurspeglar styrk menningar okkar og einlæga skuldbindingu til velferðar þeirra,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.
Bláa Lónið hefur áður hlotið verðmætar viðurkenningar vegna árangurs í mannauðsmálum. Nýverið voru tveir stjórnendur verðlaunaðir af Stjórnvísi og árið 2023 hlaut félagið viðurkenninguna Menntafyrirtæki ársins. Þessar vegtyllur eru mikilvægar og styrkja þá vegferð sem félagið er á, enda árangur þess að miklu leiti öflugu og ánægðu starfsfólki að þakka.
Verðlaun European Inspiring Workplaces undirstrika enn frekar styrkleika Bláa Lónsins, sem er ekki aðeins leiðandi í nýsköpun og ferðaþjónustu, heldur einnig vinnustaður sem leggur metnað sinn í að skapa jákvætt og hvetjandi starfsumhverfi.