Framfaraskref í innleiðingu UNESCO skóla á Reykjanesi – vinnustofa í Sandgerðisskóla
Mánudaginn 8. desember hélt Reykjanes UNESCO jarðvangur vinnustofu fyrir kennara sem liður í UNESCO skóla innleiðingunni á Reykjanesi. Sandgerðisskóli bauð heim og um 18 kennarar mættu, fulltrúar frá 10 leik-, grunn- og framhaldsskólum á svæðinu. Í þetta sinn var tíminn nýttur í frjálsar umræður um úrfærslu og áherslur umsóknar um að gerast UNESCO skóli, enda margir skólar á fullu í þeirri vinnu einmitt um þessar mundir. Þeir skólar sem hafa verið samþykktir sem UNESCO skólar nú þegar, eða hafa skilað inn sinni umsókn notuðu tímann til að ræða sniðug verkefni og viðburði í þeirra skólum.
Í lok fundarins voru ræddar fyrirhugaðar menntabúðir tengdar UNESCO skólastarfi sem haldnar verða mánudaginn 2. febrúar 2026. Kennarar og starfsfólk skólanna eru hvött til að skrá sín innlegg fyrir Menntabúðirnar í Gerðaskóla, þar sem kynnt verða fjölbreytt og skapandi verkefni sem tengjast UNESCO skólastarfi; skráning fer fram hér.
Núna hafa 3 skólar innan Reykjanes jarðvangs verið samþykktir sem UNESCO skólar; Stóru-Vogaskóli, Háaleitisskóli og Leikskólinn Gimli. Sandgerðisskóli og FS hafa sent inn umsókn og eru að bíða eftir sinni viðurkenningu sem UNESCO skóli, en fjöldamargir aðrir skólar vinna hörðum höndum að því að ljúka við umsóknina. Haustið 2024 skrifuðu 18 skólar undir viljayfirlýsingu um að hefja þá vinnu að gerast UNESCO skólar, þar af allir grunnskólar innan jarðvangsins og báðir framhaldsskólarnir; Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Fisktækniskóli Íslands.


Frekari upplýsingar veitir Sigrún Svafa Ólafsdóttir verkefnastjóri fræðslumála fyrir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Geocamp Iceland.