Fulltrúi Markaðsstofu Reykjaness á heimsráðstefnu UNESCO Global Geoparks í Chile
Dagana 8.–12. september 2025 fóru fulltrúar Markaðsstofu Reykjaness, GeoCamp Iceland og Reykjanes UNESCO Global Geopark til Temuco í Suður-Chile til að taka þátt í 11. Alþjóðlegu ráðstefnu UNESCO Global Geoparks (GGN 2025).
Hátt í þúsund fulltrúar jarðvanga víðsvegar út heiminum tóku þátt í ráðstefnnunni sem haldin var á vegum Kütralkura UNESCO Global Geopark. Yfirskrift ráðstefnunnar var „From Ancestral Knowledge towards Future Geoparks: Technologies and Digital Innovation for Sustainable Development“.
Araucanía-héraðið í Chile er einstakt svæði með lifandi eldfjöllum, fornum araucaria-skógum og menningararfi Mapuche-Pewenche þjóðarinnar og skapaði magnað umhverfi fyrir ráðstefnu sem tengdi saman vísindi, menningu og samfélag í anda hugmyndafærði UNESCO jarðvanga.
Íslensk þátttaka og kynningar
Íslenska sendinefndin samanstóð af Þuríði H. Aradóttur Braun, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Reykjaness og fulltrúa Reykjanes UNESCO Global Geopark, Daníel Einarssyni frá sama jarðvangi, Arnbjörni Ólafssyni og Ólafi Jóni Arnbjörnssyni frá GeoCamp Iceland og Sigurði Sigursveinssyni frá Kötlu Geopark.
Saman kynntu þau hvernig íslenskir jarðvangar nýta nýsköpun, fræðslu og nærandi ferðaþjónustu til að efla samfélög og tengja náttúru og menningu í alþjóðlegu samstarfi.
Markaðsstofa Reykjaness hélt þar erindi um verkefnið REGENERATE, sem stofnunin leiðir innan Interreg Northern Periphery and Arctic Programme. Verkefnið miðar að því að þróa og innleiða nærandi ferðaþjónustu í samstarfi við svæði í Finnlandi, Svíþjóð og á Írlandi, með áherslu á hvernig ferðaþjónusta getur orðið afl til uppbyggingar – fyrir náttúruna, samfélagið og menninguna.
Auk þess var fjallað um hvernig Reykjanes nýtir jarðhræringar og eldstöðvakerfi svæðisins sem hvatningu til fræðslu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar, þar sem svæðið er orðið að lifandi tilraunastofu fyrir jarðfræði, menningu og endurnýjandi ferðaþjónustu.
Framlög Íslands á ráðstefnunni
Flutt voru þrjú erindi og fimm veggspjöld frá Íslandi sem sýndu fjölbreytt starf á sviði fræðslu og sjálfbærni, þar á meðal:
- From Lava Fields to Lesson Plans – GeoCamp Iceland kynnti hvernig útinám á Reykjanesi er orðið hluti af skólastarfi og alþjóðlegum samstarfsverkefnum.
- Regenerative Tourism in a Dynamic Landscape – Markaðsstofa Reykjaness og Reykjanes Geopark kynntu hvernig svæðið nýtir jarðvirkni til að þróa nærandi ferðaþjónustu og fræðslu upplifanir.
- Traditional Folktales and Local Legends in Reykjanes UNESCO Global Geopark – um samspil jarðfræði og þjóðsagna í upplifun gesta og varðveislu menningar.
- REGENERATE Project – kynning á norrænu samstarfi um nærandi ferðaþjónustu og sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar.
- Reykjanes as a Living Lab – sýndi hvernig jarðvangurinn tengir saman menntun, nýsköpun og samfélagsþróun með fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum.
Samstarf og framtíðarsýn
Þátttakendur frá Íslandi tóku virkan þátt í umræðum og samstarfi við aðra jarðvanga, deildu reynslu af fræðslu og ferðaþróun og ræddu möguleika á nýjum verkefnum og tengslum.
Aðkoma Markaðsstofu Reykjaness og íslenskra jarðvanga undirstrikaði vaxandi hlutverk Íslands í alþjóðlegu samstarfi um menntun, sjálfbærni og nærandi ferðaþjónustu.
Frá eldfjöllum Chile til eldgosasvæðis Reykjaness var ráðstefnan lifandi dæmi um afl alþjóðlegs samstarfs og hvernig jarðvangar geta orðið tilraunastofur framtíðar – þar sem vísindi, menning og samfélag vinna saman að sjálfbærri framtíð.