Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Heimsóknarreglur veitingamanna í Grindavík

Lögreglan á Suðurnesjum hefur sett meðfylgjandi reglur sem gerir veitingastöðum í Grindavík kleift að taka á móti hópum. Grindavík er hamfarasvæði og reglur hafa verið settar til að auka öryggi allra sem eru í bænum. Enn er í gangi eldgos í Grindavík og talsverð hætta af sprungumyndunum, gasmengun og jarðhræringum.

Ekki hafa verið forsendur til þess að reka veitingaþjónustu í Grindavík enda hefur bærinn verið lokaður fyrir alla umferð ferðamanna. Reglum þessum er ætlað að draga úr takmörkunum til reynslu.

Gildissvið

  1. Einungis er verið að hleypa inn hópbifreiðum með farþega sem eru í ferð sem er skipulögð af ferðasala dagsferða sem hefur rekstrarleyfi frá Ferðamálastofu.

  2. Skilyrði er jafnframt að bókað hafi verið borð á veitingastað í Grindavík og sýna þarf staðfestingu þess við lokunarpósta.

  3. Veitingahús þarf að hafa til þess öll skilgreind leyfi frá þar til gerðum yfirvöldum fyrir starfsemi sem þeir starfrækja.

  4. Einungis er heimilt að koma inn til að snæða veitingar í skipulagðri ferð. Umferð einkabíla og hjólandi og gangandi umferð verður vísað frá við lokunarpósta.

  5. Fararstjóri ber ábyrgð á að þessum reglum sé framfylgt í samráði við viðkomandi veitingahús.

  6. Þau sem gerast brotleg við fyrirmæli kann að vera gert að yfirgefa svæðið og fá ekki samþykkt inn á svæðið aftur.

Öryggisreglur

  1. Koma þarf með hópinn saman í hópbifreiðum sem lagt er við veitingahús og skal gæta þess að rútu sé lagt þannig að ef til rýmingar kemur sé auðvelt að koma fólki í rútu og út um flóttaleiðir í bænum.

  2. Notast skal við stystu leið inn og út úr bænum hverju sinni.

  3. Ferðaskipuleggjendur þurfa að ganga úr skugga um að loftgæði í bænum séu í lagi áður en lagt er af stað inn í Grindavík.

  4. Ef loftgæði versna á meðan fólk dvelur inni á veitingahúsi skal halda sér innandyra á meðan að mengun á sér stað og ekki yfirgefa fyrr en að loftgæði hafa skánað.

  5. Sprungur og holrými hafa verið merkt með girðingum og/eða skiltum ásamt varasömum húsum. Ferðamönnum er stranglega bannað að fara inn fyrir sér merktar girðingar/lokanir. Ferðamönnum er einnig óheimilt að fara inn á einkalóðir.

  6. Aðgerðarstjórn og vettvangsstjórn í Grindavík hefur valið tvo útsýnisstaði fyrir ferðamenn til að fara á en þeir eru á planinu bakvið GEO hótel (gamla Festi ) Víkurbraut 58 og svo á útsýnisstað við Melhólsnámu við Grindavíkurveg. Sjá myndir hér að neðan. Á öðrum stöðum er ferðamönnum óheimilt að stíga út úr rútu.

útsýnisstaður við Melhólsnámu við Grindavíkurveg.

Útsýnisstaður bakvið GEO hótel (gamla Festi ) Víkurbraut 58.

Í NEYÐ hringja í 112

  • EKKI yfirgefa ökutæki sem lenda í sprungu eða festu

  • Vera með fyrir fram ákveðna akstursleið og vita hvert skal aka ef til rýmingar kemur

  • Viðbragðsaðilar láta vita með hljóðmerki ef þarf að rýma og ber þá að rýma STRAX um

    rýmingarleiðir út úr bænum.