Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Kennarar á Suðurnesjum kalla eftir frekari stuðningi við útikennslu

Kennarar á öllum skólastigum á Suðurnesjum vilja nýta náttúru og nærumhverfi mun betur í námi nemenda, en þurfa meiri stuðning til að geta gert það. Þetta kemur fram í þarfagreiningu Reykjanes UNESCO Global Geopark sem unnin var í samstarfi við kennara í tengslum við Nordplus verkefnið Empowering Educators. Þar kemur fram að áhugi á útikennslu er mikill, en hindranir eins og tímaleysi, skortur á efni og aðferðum ásamt þörf fyrir aukna þjálfun takmarka möguleika kennara til að nýta svæðið til fulls í námsstarfi.
Kennarar á Suðurnesjum kalla eftir frekari stuðningi við útikennslu
 
Reykjanes UNESCO Global Geopark hefur tekið saman þarfagreiningu um útikennslu í jarðvangnum, sem unnin var í tengslum við Nordplus verkefnið Empowering Educators sem miðar af því að kortleggja tækifæri til útináms í norrænum jarðvöngum. Könnunin var unnin í samstarfi við kennara á Reykjanesinu og dregur fram bæði styrkleika og áskoranir í útinámi á svæðinu. Niðurstöðurnar staðfesta að kennarar á öllum skólastigum eru áhugasamir um útikennslu og nýta náttúruna í kringum sig í ríkum mæli, en þurfa meiri stuðning til að geta nýtt tækifærin til fulls.
 
Samkvæmt greiningunni sækja kennarar í Reykjanes jarðvangi markvisst í náttúrlega fjölbreytni svæðisins svo sem hraunbreiður, jarðhitasvæði, klettastrendur og mosahraun, til að efla vísindalæsi, sköpun, lestur og samfélagslega færni nemenda. Útikennsla er orðin fastur liður í skólastarfi margra skóla, þar sem áhersla er lögð á að tengja nám við raunveruleika nemenda og virkja forvitni þeirra í náttúrunni.
 
Niðurstöðurnar sýna þó að ýmsar hindranir hafa áhrif á umfang útikennslu. Tímaleysi og þétt stundaskrá eru stærstu áskoranir kennara, auk veðurs og þess að margir nemendur mæta ekki klæddir fyrir útivist. Einnig kemur fram að kennarar skorti öryggi og reynslu í aðferðafræði, skipulagi útikennslu og notkun náttúrunnar sem kennslurýmis. Þá nefna kennarar skort á aðgengilegu efni, svo sem tilbúnum verkefnum og námsefni sem tengjast aðalnámskrá grunnskóla.
 
Norrænir jarðvangar leggja áherslu á útinám
 
Reykjanes UNESCO Global Geopark leiðir Nordplus verkefnið sem hófst haustið 2025 og er til tveggja ára, en meðal lykil áherslna jarðvangins er að tengja náttúrufar, jarðfræði, sögu og sjálfbærni svæðisins við nám og kennslu. Með þátttöku í verkefninu mun jarðvangurinn þróa kennsluefni, efla vettvangsnám og útikennslu, bjóða upp á vinnustofur fyrir kennara og styðja við skóla sem vilja nýta jarðvanginn á virkan hátt. Þá mun jarðvangurinn einnig hýsa sam-norrænan gagnagrunn þar sem tekið verður saman kennsluefni til útináms í jarðvöngum, einföld verkefni, fyrirmyndarverkefni og öryggisleiðbeiningar. Markmiðið er að gera kennurum kleift að fara oftar út með nemendur, með betri stuðningi og sterkari tengingu við aðalnámskrá. Þá mun verkefnið undirbúa og bjóða upp á röð endurmenntunarnámskeiða fyrir kennara með áherslu á útikennslu, kennsluaðferðir og vettvangsnám innan norrænna jarðvanga.
 
Kennarar kalla eftir nánari samvinnu við erlenda kennara
 
Eitt af því sem kemur skýrt fram í könnuninni er að kennarar á Reykjanesinu eru áhugasamir um að auka við alþjóðleg samstarfsverkefni og bæta erlent samstarfsnet við kennara sem vinna að sambærilegum áskorunum.
 
Þá sjá þeir tækifæri í að sækja innblástur frá kennurum í öðrum löndum, meðal annars með að deila góðum starfsvenjum, verkefnum og kennsluaðferðum, meðal annars með áherslu á sjálfbærni, loftslagsfræðslu, náttúru og umhverfisvernd. Með þátttöku í Nordplus verkefninu, ásamt öðrum erlendum þróunar- og samstarfsverkefnum, verða til ný tækifæri fyrir samstarf, undirbúning sameiginlegra endurmenntunarnámskeiða fyrir kennara og heimsókna innan norrænna jarðvanga.
 
Skólar eru nú þegar að innleiða útinám með virkum hætti
 
Í könnuninni má sjá fjölmörg dæmi um árangursríka útikennslu meðal skóla í Reykjanes jarðvangi. Margir kennarar nýta nú þegar jarðvanginn sem lifandi kennslustofu, rannsaka náttúrufyrirbæri og vinna skapandi verkefni tengd umhverfi og sögu svæðisins. Sumir kennarar nota útivist markvisst til að efla vísindalæsi og sköpun, til dæmis með sögugöngum og ritunarverkefnum í náttúrunni. Einnig eru mörg dæmi um styttri ferðir, þar sem nemendur vinna smærri verkefni á skólalóðinni eða í næsta nágrenni við skólana.
 
Könnunin undirstrikar að kennarar þurfa mun meiri stuðning til að geta nýtt einstakt náttúru- og jarðfræðiumhverfi Reykjanessins til fulls í útikennslu. Út frá niðurstöðum þarfagreiningarinnar mun jarðvangurinn vinna markvisst að því að efla þjálfun kennara, þróa námsefni og styðja við nýjar leiðir í útikennslu og vettvangsnámi. Á næstu árum verða þessar áherslur miða að því að efla skapandi nálgun við nám í norrænum jarðvöngum í nánu samstarfi við skóla og kennara.
 
Nordplus verkefnið Empowering Educators, sem stendur yfir til ársins 2027, gegnir mikilvægu hlutverki í þessari þróun, samhliða öðrum fræðslutengdum þróunarverkefnum sem nú eiga sér stað innan jarðvangsins. Með því að byggja upp sam-norrænan gagnagrunn, þróa nýjar kennsluaðferðir og efla samvinnu kennara á Norðurlöndum mun verkefnið styrkja útinám í jarðvöngum og skapa umhverfi fyrir kennslu sem byggir á einstökum náttúru- og jarfræðilegum fjölbreytileika Reykjanes UNESCO Global Geopark.