Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni

Uppfært 3. ágúst kl. 9.00. Allar aksturleiðir opnar. Opið í Bláa lónið, Northern Lights Inn, Grindavík og að Fagradalsfjalli.
Mynd: Almannavarnir, júlí 2025
Mynd: Almannavarnir, júlí 2025

Uppfært 3. ágúst kl. 9.00. Allar aksturleiðir opnar. Opið í Bláa lónið, Northern Lights Inn, Grindavík og að Fagradalsfjalli. Nýja gönguleiðin við Fagradalsfjall vinsæl.

Eldgosið sem hófst við Stóra-Skógfell á Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesi miðvikudaginn 16. júlí 2025, er enn í gangi. Þetta er níunda gosið á svæðinu frá desember 2023 og það tólfta frá því goshrinan hófst við Fagradalsfjall árið 2021. Gosið í dag einskorðast við einn gíg á sprungunni sem gaus. Virknin hefur verið nokkuð stöðug síðustu daga þó hún sé minni en í upphafi goss. Vinsælt er að ganga að jaðri nýja hraunsins eftir leið B við Fagradalsfjall. Sjá nánar um gönguleiðina hér.

Viðbragð:

Almannavarnir og viðbragðsaðilar hafa virkjað sína öryggisferla og sérfræðingar Veðurstofunnar og háskólasamfélagsins meta aðstæður og uppfæra um stöðu mála reglulega. Ávallt er verið að meta aðstæður og uppfæra aðgengi og upplýsingar um svæðið, stærð gossins, umfang og staðsetning, verða uppfærðar þegar þær liggja fyrir.

Við biðjum alla ferðalanga og gesti að fylgjast vel með tilkynningum og fara eftir leiðbeiningum yfirvalda. Lokanir og aðrar aðgerðir verða tilkynntar eftir því sem staðan þróast.

Aðgengi og lokanir 

Allar akstursleiðir eru opnar

  • Opið í Bláa lónið og Northern lights Inn
  • Opið í Grindavík

Gönguleiðir og útsýnisstaðir fyrir eldgosið:

  • Opið að Fagradalsfjalli. Ný leið (B) hefur verið opnuð frá bílastæði P1 við Fagradalsfjall þar sem hægt er að komast að hraunjaðri nýja hraunsins. Athugið að leiðin er 4,7-6,1 km löng aðra leið (um 1,5-2 klst). Sjá kort af gönguleið hér fyrir neðan.
  • Útsýnisstaðir hafa verið merktir á kortið vestan og norðan við gosstöðvarnar af Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi. Þaðan er gott útsýni að gosstöðvunum en ekki er mælt með göngu þaðan vegna lélegra skilyrða. Gestir eru hvattir til að nota frekar leið B við Fagradalsfjall sem stendur. Helstu staðir eru Arnarsetur og bílastæði í Arnarseturshrauni við Grindavíkurveg (veg nr. 43), við upplýsingaskilti á Stapanum um flugslysið í Fagradalsfjalli og við afleggjarann að Vogunum.
  • Mikilvægt er að huga að gasmengun frá gosinu og vindáttum áður en farið er í göngu. Hér má finna mælingar inn á loftgæði.is og inn á vedur.is má finna spá fyrir gasmengun.

Mikilvægt fyrir ferðamenn

Eldgosið hefur ekki áhrif á aðra hluta Reykjanesskagans og landsins, þar á meðal Reykjavík, og flugsamgöngur til og frá Íslandi ganga samkvæmt áætlun. Hringvegurinn er opinn. Ferðalangar eru beðnir um að fylgjast vel með opinberum tilkynningum og virða lokanir og öryggisráðstafanir.

Hlekkir á ítarefni:

  • Veðurstofan: Veðurstofan vinnur með Almannavörnum og viðbragðsaðilum við að vakta atburðina og uppfærir upplýsingar um gosin reglulega. Þar má finna upplýsingar um gerð og umfang gosanna, spár um gasmengun og fleira. Þá gefur hún út hættumat vegna gossins sem nýtt er til að uppfæra opnanir og lokanir á svæðinu.
  • Samgöngustofa: Birtir reglulega tilkynningar um leyfi og reglur til drónaflugs.
  • Vegagerðin: Vegagerðin birtir upplýsingar um opnanir og lokanir vega á Reykjanesi vegna atburðanna. Hægt er að skoða uppfært kort frá þeim hér.
  • Safetravel: Birtir upplýsingar um aðstæður og hættur umhverfis landið sem geta haft áhrif á ferðalagið og miða að öryggi ferðamanna.
  • Ferðamálastofa: Birtir reglulega stöðuskýrslur um atburðina og veitir sérstakar upplýsingar til ferðaþjónustuaðila.
  • VisitIceland: Á vef Visit Iceland eru birtar upplýsingar um stöðu atburðanna á ensku og fréttir um aðgengi til og frá landinu á meðan á þeim stendur.
  • Visit Reykjanes: Á vef Visit Reykjanes birtast upplýsingar um stöðu gossins, lokunarpósta og aðgengi innan landshlutans á meðan á gosi stendur og milli atburða.
  • Vefmyndavélar frá gosstöðvunum: ruv.is - mbl.is - visir.is