Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Prófun á rýmingarflautum í Grindavík og Svartsengi frestað

Prófun á rýmingarflautum í Grindavík og Svartsengi fer ekki fram á gamlárdag líkt og áður var áætlað.

Vegna eldsumbrota á Reykjanesi og þeirra aðstæðna sem þeim fylgja hafa verið settar upp rýmingarflautur í Grindavík og Svartsengi. Flauturnar eru hluti af viðvörunarkerfi almannavarna og eru ætlaðar til að vara fólk við ef rýming þarf að fara fram með skömmum fyrirvara.

Rýmingarflauturnar fara í gang ef talið er að eldgos sé yfirvofandi og rýma þarf svæðið. Hljóðið er hátt og stöðugt og gefur skýrt merki um að yfirgefa skuli svæðið tafarlaust samkvæmt leiðbeiningum almannavarna. Til að tryggja að kerfið virki eru rýmingarflauturnar prófaðar síðasta miðvikudag í hverjum mánuði, slíkar prófanir fela einungis í sér stutta hljóðprófun og er þá engin þörf á rýmingu.

Áætlað var að næsta prófun færi fram þann 31. desember á gamlárdag, síðasta miðvikudegi í mánuðinum, en af tilliti til íbúa í Grindavík og þeirra sem dvelja í Svartsengi hefur verið ákveðið að fresta prófuninni um eina viku. Prófunin fer því fram þann 7. janúar 2026.