Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Reykjanes jarðvangur fær styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja fyrir stórum sólmyrkvagleraugum

Úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja fór fram í Hljómahöll 21. nóvember, þar sem kynnt voru fjölbreytt verkefni sem stuðla að menningu, nýsköpun og samfélagsþróun á svæðinu. Meðal þeirra sem hlutu styrk var Reykjanes jarðvangur, sem fékk 2.700.000 kr. til metnaðarfulls verkefnis sem tengist almyrkvanum 2026. Styrkurinn markar mikilvægt skref í undirbúningi fyrir þennan einstaka náttúruviðburð og mun styðja við bæði fræðslu, listsköpun og samfélagslega þátttöku á Suðurnesjum.
Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi tók við styrknum.
Mynd…
Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi tók við styrknum.
Myndina tók: Hilmar Bragi Bárðarson

Úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja fór fram þann 21. nóvember í Hljómahöll. Þar var styrkjum úthlutað fyrir árið 2026 og hlaut Reykjanes jarðvangur 2.700.000 kr. styrk til verkefnisins Stóru sólmyrkvagleraugun. Verkefnið felur í sér uppsetningu níu stórra útilistaverka í formi sólmyrkvagleraugna í öllum þéttbýliskjörnum jarðvangsins í nánu samstarfi við sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Gleraugun nýtast bæði sem öryggistæki til að horfa á sólina og sem áberandi samkomustaðir á degi almyrkvans þann 12. ágúst 2026. Markmiðið er að tryggja íbúum örugga og skemmtilega upplifun af þessum einstaka náttúruviðburði og nýta tækifærið til að efla fræðslu, vísindavitund og samfélagslega þátttöku. Gleraugun geta svo staðið áfram sem útilistaverk, skreytt í samráði við sveitarfélög, skóla, frístundastarf og listasöfn. Þannig munu þau vera aðgengileg íbúum jarðvangsins sem og ferðamönnum til að skoða sólina við mismunandi aðstæður allt árið um kring.

Þetta verkefni er hluti af undirbúningi fyrir almyrkva á sólu sem er einstök upplifun á ævi langflestra. Út um heim allan er einstakur viðburður eins og þessi nýttur til að efla áhuga barna á vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Stóru sólmyrkvagleraugun eru bara einn liður í metnaðarfullri áhætlun Reykjanes jarðvangs um fræðsluviðburði sem tengjast almyrkvanum. Verið er að vinna í að fjármagna sólmyrkvagleraugu og fræðslubækling fyrir alla grunnskólanema á svæðinu, ásamt því að tryggja heimsókn í vor frá Sævari Helga Bragasyni í alla grunnskóla á Suðurnesjum með fræðslu um himingeiminn. Verkefnið er allt unnið í nánu samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness, sveitarfélögin og fyrirtæki á svæðinu.

Stóru sólmyrkvagleraugun verða varanleg minning um sjaldgæfan viðburð og styrkja jafnframt ímynd Reykjaness sem öflugs fræðslu- og vísindasvæðis, þar sem list, náttúra og samfélag mætast á einstakan hátt.