Sterk samstaða Reykjaness á Mannamótum
Mannamót er árleg ferðakaupstefna og mikilvægur vettvangur fyrir ferðaþjónustu um land allt, þar sem gestum gefst tækifæri til að „fara hringinn í kringum landið“ á einum degi og kynnast því sem er í boði á landsbyggðinni. Viðburðurinn skapar einnig dýrmætt tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila á höfuðborgarsvæðinu til að hitta fyrirtæki af landsbyggðinni, byggja upp samstarf og þróa nýjar leiðir til verðmætasköpunar.
Í ár tóku 21 fyrirtæki þátt af Reykjanesi í Mannamótum og endurspegluðu þau þá fjölbreytni sem svæðið hefur upp á að bjóða, allt frá afþreyingu og upplifunum til gistingar, veitinga og annarrar þjónustu. Reykjanesið var kynnt með samræmdri framsetningu, meðal annars með sameiginlegum kynningarborðum og markaðsefni, sem skapaði sterka heildarmynd og undirstrikaði samstöðu fyrirtækja og hagaðila á svæðinu.
Á Mannamótum í ár voru um 260 sýnendur og um 1200 gestir sóttu viðburðinn. Skipting sýningarsvæðisins eftir landshlutum gerði gestum kleift að kynnast landinu á einum stað og auðveldaði fyrirtækjum að eiga samtöl við fagfólk ferðaþjónustunnar og skapa ný tengsl.
„Mannamót eru einn mikilvægasti sameiginlegi vettvangur ferðaþjónustunnar á Íslandi, þar sem fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðargráðum koma saman til að kynna sína þjónustu, byggja upp tengsl og dýpka þekkingu á fjölbreyttri ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Þátttaka Reykjaness á Mannamótum í ár markaði ákveðin þáttaskil – bæði hvað varðar sýnileika, samstöðu og öfluga samvinnu um að styrkja áfangastaðinn. Þrátt fyrir áskoranir síðustu ára, tengdar jarðhræringum og óvissu, hafa ferðaþjónustuaðilar á svæðinu sýnt mikla seiglu og fagmennsku í sínum störfum. Verkefnin framundan eru ekki síður mikilvæg, og þessi sterka byrjun á árinu gefur okkur mjög góða tilfinningu fyrir áframhaldinu. Við hlökkum til að starfa áfram að enn frekari verkefnum með ferðaþjónustunni á svæðinu, svæðinu til heilla.“ segir Þuríður H. Aradóttir Braun, forstöðukona Markaðsstofu Reykjaness.
Markaðsstofa Reykjaness þakkar fyrirtækjum af Reykjanesi kærlega fyrir öfluga þátttöku og góða samvinnu á viðburðinum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við að styrkja sýnileika Reykjaness og skapa ný tækifæri í ferðaþjónustu.
Fyrirtæki af Reykjanesi sem tóku þátt
4x4 Adventures Iceland
Blue Car Rental
Blue Lagoon
Bus4u
Byggðasafnið á Garðskaga
Courtyard by Marriott Reykjavík Keflavik Airport Hotel
Discover Grindavík
Dive.is
Duus Handverk
Grindavík Guesthouse
Happy Campers
Hotel Service KEF Airport
Hótel Hafnir / Sögugöngur í Höfnum
Hótel KEF / KEF Restaurant / KEF SPA
Kaffi Gola
KONVIN Hotel
Nítjánda Bistro & Grill
Prime Tours
Viking World
Visit Grindavík
Your Friend in Reykjavík










