Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Reykjanes jarðvangur opnar Gestastofu

Ný sýning um myndun og mótun Reykjanesskagans ásamt upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn

Ný sýning um myndun og mótun Reykjanesskagans ásamt upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn

Föstudaginn, 13. mars, opnaði Reykjanes jarðvangur Gestastofu í Duushúsum í Reykjanesbæ. Gestastofan er sú fyrsta sinnar tegundar í jarðvangnum og er hlutverk hennar að vera upplýsinga- og fræðslumiðstöð þar sem gestir fá upplýsingar um jarðvanginn, s.s. sérstöðu hans, jarðfræði, náttúrufar, sögu, þjónustu og afþreyingu.

Á nýrri sýningu sem sett hefur verið upp er myndrænt sagt frá mótun Reykjanesskagans. Gestir eiga að geta fræðst um jarðfræði og náttúrufar á skaganum á einfaldan og aðgengilegan hátt. Markmiðið með gestatofunni er að miðla fróðleik og upplýsingum um Reykjanes jarðvang og Reykjanesskaga.

Gestastofan nýtist heimamönnum og ferðamönnum auk þess sem stofan hentar vel skólum og nemendahópum. Gestastofan þjónar sem upplýsingamiðstöð í Reykjanesbæ og er skilgreind sem landshlutamiðstöð.

Gestastofan er staðsett í Bryggjuhúsi Duushúsa, í hjarta gamla bæjarins í Keflavík, við smábátabryggjuna í Grófinni. Bryggjuhúsið var byggt 1877 og er elsta húsið í Duushúsalengjunni og það merkasta.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Róbert Ragnarsson formaður stjórna Reykjanes jarðvangs og Markaðsstofu Reykjaness opnuðu Gestastofuna formlega. Við sama tækifæri skrifuðu þeir undir samning um rekstur og uppbyggingu Gestastofu Reykjanes jarðvangs og rekstur upplýsingamiðstöðvar ferðamanna.

Gestastofan verður opin fyrst um sinn virka daga frá kl. 12:00 - 17:00, um helgar frá kl. 13:00 - 17:00.