Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Topp 10 - Afþreying fyrir börn á Reykjanesi

A Reykjanesi er tilvalið fyrir fjölskylduna að njóta útivistar og afþreyingar enda er þar fjölmargt í boði. Inn á milli leynast faldar perlur sem margir eiga eftir að uppgötva. Hér höfum við tekið saman lista yfir það markverðasta fyrir barnafjölskyldur sem og fólk á öllum aldri sem nýtur útivistar og menningar.

Á Reykjanesi er tilvalið fyrir fjölskylduna að njóta útivistar og afþreyingar enda er þar fjölmargt í boði. Inn á milli leynast faldar perlur sem margir eiga eftir að uppgötva. Hér höfum við tekið saman lista yfir það markverðasta fyrir barnafjölskyldur sem og fólk á öllum aldri sem nýtur útivistar og menningar eða er að leita eftir dægradvöl.

 sundlaug

1. Sundferð

Öll góð ferðalög enda á sundferð. Á Reykjanesi má finna sundlaug í hæsta gæðaflokki í hverju einasta sveitafélagi. Innilaugin í Reykjanesbæ er einstaklega hentug fyrir yngstu börnin en allar hafa laugarnar sín sérkenni og sjarma. Sjá sundlaugar hér.

2. Fjöruferð

Reykjanesið á nóg af fjörum sem auðvelt er að sækja. Hvíti sandurinn á Garðskaga, svarti sandurinn í Sandvík eða magnað landslagið við Kleifarvatn þar sem tilvalið er að busla og njóta náttúru á góðviðrisdegi.

3Skógarferð

Já það er sko hægt að fara í skógarferð á Reykjanesi. Sólbrekkur er tilvalið svæði fyrir fjölskyldur að heimsækja. Skógi vaxið svæði þar sem leiktæki eru til staðar, auk þess sem þar er hægt að grilla. Þar eru góðir göngustígar og tilvalið að hjóla, hlaupa eða ganga meðfram Seltjörn.

Háibjalli við Snorrastaðartjarnir er afar fallegur trjálundur í skjóli kletta þar sem einnig er hægt að grilla og njóta. Þar sem er mikið fuglalíf. Þaðan er einnig hægt að ganga eftir Hrafnagjá sem er gróðurmikil sprungugjá. 

Selskógur er eitt af útivistarsvæðum Grindvíkinga og liggur við rætur Þorbjörns. Þar eru gönguleiðir og glæsilegt nestishús. Svo er stutt í Bláa Lónið.

 

4. Gönguferð (Sjá hér göngukort af Reykjanesi)

Gönguleiðir eru um gjörvalt Reykjanes og margar þeirra eru einstaklega aðgengilegar og hentugar fyrir börn. Nægir þar að nefna: Eldborg við Geitahlíð, hægt er að ganga upp að Stóru-Eldborg, sem margir telja fegursta gíg Suðvesturlands, og þaðan niður í Litlu-Eldborg þar sem hægt er að sjá ofan í gíginn. 

Stampar er mjög aðgengilegir fyrir fríska fætur. Þaðan er magnað útsýni yfir Sandvík, úfið hraunið og Reykjanestá.     

Staðarborg er ótrúlegt hlaðið hringlaga mannvirki sem er staðsett 2-3 km frá Kálfatjarnarkirkju.

Brú milli heimsálfa er einstök á heimsvísu enda staðsett á plötuskilum Evrópu og Ameríku.

Selatangar hafa að geyma verðbúðarrústir og stórbrotið umhverfi.

5. Safna- og menningarferð

Reykjanes hefur að geyma fjölmörg söfn þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Má þar nefna: Skessuna í hellinum, Rokksafn Íslands, Víkingasafnið, Duus hús, byggðasafnið á Garðskaga, Þekkingarsetrið í Sandgerði og Saltfisksetrið í Grindavík.

6. Golfferð 

Á Reykjanesi eru þrír afbragðsgóðir 18 holu golfvellir og tveir 9 holu vellir. Tilvalið fyrir fjölskylduna að spila golf saman með sjávarútsýni á hverjum velli. Vellirnir eru: Hólmsvöllur Leiru, Húsatóftavöllur í Grindavík, Kirkjubólsvöllur Sandgerði og Kálfatjarnarvöllur í Vogum.

7. Hellaferð

Ævintýraferð um hellinn Leiðarenda er tilvalin fyrir alla fjölskylduna. Að lokinni göngu er svo tilvalið að skella sér í kakóbolla hjá norðurljósamiðstöðinni Aurora Basecamp og skoða umhverfið við Kleifarvatn og Seltún.

8. Hjólaferð

Hvergi er betra að hjóla en á Reykjanesi þar sem útsýni er með eindæmum gott og lítið um brekkur. Eins er einstök upplifun að skella sér á fjórhjól frá Grindavík með börn eldri en sex ára. Þar er einnig hægt að leigja reiðhjól fyrir fjölskylduna.

9. Bíltúr um Krýsuvíkurleiðina

Auðvelt er að keyra um gjörvalt Reykjanesið á einum degi með nokkrum góðum stoppum. Staðir sem óhætt er að mæla með til þess að bregða sér út, njóta náttúru, borða nesti og smella af mynd: Seltún og Kleifarvatn, Brimketill, Reykjanesviti, Gunnuhver, Hvalsneskirkja, Garðskagaviti og Brú milli heimsálfa.

10. Fjallganga

Á Reykjanesi eru fjölmargir tindar sem hæfa reynslulitlu fjallgöngufólki. Þorbjörn við Grindavík er afar hentugur fyrir fjölskylduna alla. Þar er stórbrotin Þjófagjá sem allir ættu að skoða. Auk þess er útsýnið magnað og stutt í Selskóg og Bláa Lónið.

Fleiri hugmyndir: 

Ljósmyndaferð - Reykjanesið er fullt af stöðum þar sem ljósmyndarar geta notið sín.

Lautarferð - Fjölmargir ofantaldir staðir eru hentugir til lautarferðar.

Vitaferð - Alls eru 13 vitar á Reykjanesi sem gaman er að heimsækja.

Berjamó - Víða má finna góð berjalyng á Reykjanesi í stórbrotinni náttúru.

Rólóferð - Leikvellir eru í hverju sveitafélagi. Tilvalið að kíkja í bakarí að leik loknum.

Sigling - Hægt er að bregða sér í siglingu frá Vogum þar sem hægt er að veiða og skoða hvali og náttúru.

Kayak - Frá Vatnsleysuströnd er hægt að bregða sér á sjókayak. Frábær upplifun fyrir alla fjölskylduna.

Veiðiferð - Hægt er að dorga á öllum bryggjum á svæðinu. Hægt er að veiða í Djúpavatni, Kleifarvatni og hornsíli má finna í Seltjörn og Snorrastaðartjörn.