Bókasafn Reykjanesbæjar er menningarmiðja bæjarins. Markmið safnsins er að veita íbúum aðgang að fjölbreyttum safnkosti og upplýsingum á mismunandi formi. Safnið stuðlar að eflingu menningar- og vísindastarfsemi, menntunar, símenntunar, atvinnulífs, íslenskrar tungu, ánægjulesturs og upplýsingalæsis. Bókasafnið á að vera hlutlaus staður, „þriðji staðurinn“ á eftir heimili, vinnu eða skóla. Öll börn í Reykjanesbæ fá frítt lánþegaskírteini til 18 ára aldurs.
Starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar stendur fyrir viðburðum af ýmsu tagi og má nefna að á safninu er leshringur, skapandi samvera þar sem lögð er áhersla á margs konar handavinnu, notalegar samverustundir fyrir fjölskyldur með ung börn þar sem lesið er úr barnabókum. Heimskonur hittast einnig einu sinni í mánuði en þá koma saman konur af ólíkum uppruna og ræða málin.
Í Bókasafni Reykjanesbæjar er vilji starfsfólks sá að hér sé einskonar gátt inn í samfélagið eða staður sem er eins og vin í eyðimörkinni þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Upplýsingaþjónusta: http://sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn/thjonusta/upplysingathjonusta
Útibú bókasafnsins er Stapasafn, staðsett á Dalsbraut 11, 260 Reykjanesbæ.