Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ferðakaupstefnan Vestnorden haldin í Reykjanesbæ 2020

Vestnorden ferðakaupstefnan mun fara fram í Reykjanesbæ 6. - 8. október 2020. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem kaupstefnan fer fram á Reykjanesi.
Mynd: Garðar Ólafsson
Mynd: Garðar Ólafsson

Þetta verður í 35. skipti sem Vestnorden fer fram. Hún hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir íslenska ferðaþjónustu, en búast má við að 600-700 manns taki þátt í ferðakaupstefnunni. „Vestnorden er mikilvægur vettvangur fyrir ferðaþjónustu þessara þriggja landa. Hingað koma ferðaheildsalar frá öllum heimshornum til að stofna til eða styrkja sambönd við íslenska, grænlenska og færeyska ferðaþjónustuaðila. Við sjáum þess merki á hverju ári hvernig ferðaþjónustan hefur eflst og þróast og það er gaman að fá að vera partur af því,“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður sviðs áfangastaðarins hjá Íslandsstofu.

Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála, standa að Vestnorden. Löndin þrjú skipta með sér umsjón með ferðakaupstefnunni en hún er haldin annað hvert á á Íslandi. Um er að ræða stærsta viðburðinn sem haldinn er í ferðaþjónustu á Íslandi.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanessbæjar segir á vef Íslandsstofu:
„Það er okkur mikið gleðiefni að að bjóða gesti og aðstandendur Vestnorden 2020 velkomna til Reykjanesbæjar. Kaupstefnan mun gefa okkur tækifæri til að sýna hvað Reykjanesbær og Reykjanesið hefur uppá að bjóða fyrir ferðamenn og aðila í ferðaþjónustu. Sem hluti af Reykjanes UNESCO Geopark, býður Reykjanesbær uppá fjölbreytta upplifun og afþreyingu hvort heldur sem er í gegnum söfn sín og menningu eða ægifagra náttúru. Við erum því full tilhlökkunar að taka á móti gestum Vestnorden 2020“.

Vestnorden fellur vel að áhersluatriðum íslenskrar ferðaþjónustu þar sem áhersla kaupstefnunnar er að halda uppi merkjum um ábyrga ferðahegðun og sjálfbærni ferðaþjónustunnar.

Íslandsstofa er framkvæmdaraðili Vestnorden þegar hún er haldin hér á landi, en hún verður að þessu sinni haldin í góðu samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness, Reykjanesbæ, og aðra hagsmunaaðila enda um stóran viðburð að ræða.