Grindavík saman í sókn
Þann 12. nóvember hófst formlega verkefnið Grindavík – Saman í sókn með öflugum staðarfundi í Gjánni þar sem stjórnendur og lykilstarfsmenn frá 21 fyrirtæki í Grindavík komu saman til að hefja sameiginlegt starf í átt að endurreisn, eflingu og framtíðarmótun atvinnulífs bæjarins. Verkefnið stendur yfir frá nóvember 2025 til febrúar 2026.
Grindavík hefur lengi verið einn af lykiláfangastöðum á Reykjanesi og gegnir ferðaþjónustan því mikilvægu hlutverki í framtíðarsýn verkefnisins – bæði sem uppspretta verðmætasköpunar, ímyndar og samfélagslegs styrks.
Verkefnið er á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, unnið í nánu samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness, Hekluna, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja og Grindavíkurbæ. Íslenski ferðaklasinn leiðir framkvæmd verkefnisins í samstarfi við marga góða aðila, s.s Sjávarklasann, Íslandsstofu og fleiri.
Verkefnið er fjármagnað úr sjóði Byggðaáætlunar 2022-2036.
Sterkur vilji, samstaða og framtíðarsýn
Á fundinum ríkti sterkur andi samstarfs og bjartsýni á framtíðina. Þátttakendur lýstu sameiginlegum vilja til að endurbyggja samfélagið, skapa ný tækifæri og efla atvinnulíf Grindavíkur með framsýni, seiglu og nýsköpun að leiðarljósi.
Í umræðum kom fram skýr þörf á að byggja á þeim sterku gildum sem Grindavík hefur löngum staðið fyrir. Jafnframt var bent á mikilvægi þess að auka skilning þeirra sem starfa utan svæðisins á sérstöðu Grindavíkur og tryggja að þau tækifæri sem felast í sameiginlegri nálgun atvinnulífsins verði nýtt til fulls.
Sérstaka athygli vakti þátttaka nýs fyrirtækis í sælgætisframleiðslu sem nýverið hefur hafið starfsemi í Grindavík – skýr vísbending um trú á framtíðinni og þann kraft sem býr í samfélaginu.
Sameiginlegur vettvangur atvinnulífsins
Verkefnið Grindavík – Saman í sókn er sameiginlegur vettvangur fyrirtækja í Grindavík til að:
- Efla rekstrarhæfni fyrirtækja eftir áföll.
- Auka verðmætasköpun og þróa ný verkefni.
- Styðja við uppbyggingu bæjarins til framtíðar.
- Styrkja tengsl og samvinnu ólíkra atvinnugreina.
Sérstök áhersla er lögð á ferðaþjónustu, bláa hagkerfið, þjónustu, skapandi greinar og iðnað – stoðir sem saman endurspegla fjölbreytni og styrk atvinnulífs Grindavíkur.
Fundarröð og vinnustofur
Fundurinn í Gjánni markaði upphaf að sex vinnustofulotum þar sem fyrirtækin taka þátt í samræðu, greiningu og framtíðarmótun á grundvelli aðferða samkeppnishæfni og klasasamstarfs.
Markmiðið er að kortleggja tækifæri, greina þarfir fyrirtækja og móta sameiginlega sýn til næstu ára.
Í ferðaþjónustunni felast einstök tækifæri til að segja sögu Grindavíkur á áhrifaríkan hátt, byggja upp upplifunarmiðaða þjónustu og styrkja jákvæða ímynd svæðisins í hugum gesta.
Hvaða sögu vilja Grindvíkingar segja?
Sú vinna verður leiðarljós áframhaldandi uppbyggingar og ímyndarvinnu bæjarins.
Þátttakendur í Grindavík – Saman í sókn
- Fishhouse
- Fisktækniskóli Íslands
- Guðlaugsson ehf
- Fjórhjólaævintýri ehf
- Grindavíkurbær
- Hérastubbur
- Sæbýli hf.
- PGV Framtíðarform ehf
- Neskja ehf.
- HH smíði
- Converted Water Tower
- Vísir ehf.
- VIGT
- Grindin ehf
- Rúnar málari og Hárhornið
- Vélsmiðja Grindavíkur ehf
- Gistihús Grindavíkur ehf
- Grindavík Seafood ehf
- Hótel Grindavík
- Sólskip ehf
- Discover Grindavík