Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Metþátttaka á Mannamóti Markaðsstofa landshlutanna

Frú Elíza Reid heilsaði upp á Suðurnesjamenn.
Frú Elíza Reid heilsaði upp á Suðurnesjamenn.

Aldrei hafa fleiri fyrirtæki frá Reykjanesi tekið þátt í Mannamóti Markaðsstofa landshlutanna sem fram fór í Kórnum í Kópavogi í lok síðustu viku. Mikil örtröð skapaðist í gangi Reykjaness þar sem m.a. var boðið upp á bragðgóðar kræsingar, þar sem verkefnið Matarkista Reykjaness fór fremst í flokki. 

„Ég hef ekki sest niður. Þetta er búið að vera ótrúlega gaman. Ég bjóst ekki við svona miklu, það er vel að þessu staðið og ég ætla klárlega að reyna að koma aftur, það er alveg á hreinu. Ég hef ekki upplifað svona áður og allir virðast vera ánægðir,“ sagði Jóhann Issi Hallgrímsson frá Issi fish and chips í lok dags í Kórnum en hann reiddi fram tæplega 1000 skammta af fiski og frönskum fyrir svanga sýningagesti.

Alls komu tæplega 800 gestir á sýninguna og þar hittu þeir 270 sýnendur frá öllum landshlutum. Frú Eliza Reid leit við í Kórnum og fór um öll landshlutasvæðin, þar sem hún hitti og spjallaði við fólkið í ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Forsetafrúin er einmitt sendiherra ferðaþjónustu og sjálfbærni hjá Ferðamálastofnun Sameinuðu Þjóðanna, UNWTO.