Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Reykjanesbær auglýsir eftir rekstraraðila skautasvells

Reykjanesbær leitar nú að áhugasömum aðilum til að taka að sér rekstur 200 m2 skautasvells sem kaup hafa verið fest á og er nú á leið til landsins. Hugmyndin að skautasvellinu kviknaði í framhaldi af verkefninu Betri Reykjanesbær þar sem kallað var eftir góðum hugmyndum frá íbúum sem hefðu að markmiði að bæta og fegra bæinn. Meðal hugmynda sem hlutu gott fylgi var ævintýralegt leiksvæði í skrúðgarði og skautasvell í skrúðgarði. Í tengslum við skipulagningu og þróun Aðventugarðsins var litið til þessara niðurstaðna og ákvörðun tekin um að kaupa slíkt svell sem verður frábær viðbót við Aðventugarðinn og kjörinn vettvangur fyrir skemmtilegar samverustundir fyrir fjölskyldur, skólahópa og aðra áhugasama.

Leitað er að metnaðarfullum og framsæknum aðila til að taka að sér rekstur skautasvellsins frá 1. desember 2021 til 1. mars 2022 í samstarfi við Reykjanesbæ.

Rekstraraðili mun bera ábyrgð á daglegum rekstri svellsins. Hann annast rekstur og mönnun á svellinu, sér um bókanir og skautaleigu og hefur umsjón með daglegu viðhaldi, umhirðu og eftirliti svellsins í samstarfi við Reykjanesbæ.

Leitað er að ábyrgum aðila með reynslu af rekstri sem hefur brennandi áhuga á verkefninu og hugmyndir að útfærslu þess.

Rekstraraðili hefur tekjur af aðgangseyri og skautaleigu auk þess sem möguleiki er á að selja auglýsingar á umgjörð/girðingu svellsins.

Um tilraunaverkefni er að ræða með möguleika á framlengingu samnings.

Umsóknarfrestur er til kl. 12:00 þann 15. nóvember 2021 og skal umsóknum skilað í tölvupósti, merkt “Rekstur skautasvells” á netfangið sulan@reykjanesbaer.is

Reykjanesbær áskilur sér rétt til að hefja viðræður við þá aðila sem sækja um eða hafna öllum umsóknum.

 

Umsókn skal fylgja:

  • Nafn og kennitala rekstraraðila
  • Upplýsingar um fyrri reynslu af rekstri
  • Hugmyndir um fyrirkomulag og framkvæmd á rekstri skautasvellsins

 

Nánari upplýsingar veitir Guðlaug María Lewis, menningarfulltrúi í síma 4216700 eða í gegnum ofangreint netfang.