Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Eldgosatímabil hófst með gosi í Geldingadölum í Fagradalsfjall þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur, og stóð í raun yfir síðan í lok árs 2019. Síðan þá hefur gosið þrisvar. Síðast gaus við Sundhnúkagíga 18. desember 2023 og stóð það yfir í aðeins fjóra daga.

Reykjanesskaginn hefur nú upplifað fjögur eldgos á um þremur árum. Fyrstu þrjú gosin áttu sér stað á sömu sprungunni milli Fagradalsfjalls og Keilis; 2021 í Geldingadölum, 2022 í Merardölum og sumarið 2023 við Litla-Hrút. Það fjórða og nýjasta við Sundhnúkagíga á annari sprungu en fyrri gosin.

Fyrsta eldgosið hófst í Geldingadölum 19. mars 2021. Við það hófst eldgosatímabil á Reykjanesskaga sem enn stendur yfir. Fyrir gosið í Geldingadölum hafði riðið yfir skagann jarðskjálftahrina sem stafaði af um 7 km löngum kvikugangi sem hafði myndast milli Keilis og Fagradalsfjalls. Eldgosið hófst þegar kvikugangurinn braut sér leið upp á yfirborðið með nær stöðugu kvikustreymi uppá 5-10 rúmmetra á sekúndu. Eldgosið bar þess merki að um dyngjugos var að ræða, og vísbendingar um að frumstæð möttulbráð hafi streymt af miklu dýpi upp á yfirborðið. Gosið stóð yfir í um 6 mánuði og hefur laðað að sér fjölda ferðamanna bæði á meðan á því stóð og til dagsins í dag. 

Eldgos hófst að nýju í Merardölum í Fagradalsfjalli 3. ágúst 2022. Upptök gossins voru aðeins 1 km frá gossvæðinu við Geldingadali. Eldgosið var af sama meiði og fyrra gos en stóð aðeins yfir í um 3 vikur. Gosið og svæðið var ekki síður vinsælt að heimsækja fyrir gesti og aðgengilegt. 

Þriðja eldgosið á þremur árum hófst við Litla-Hrút 10. júlí 2023 og stóð það yfir í um 4 vikur. Gosið kom úr sama kvikugangi og fyrri gos í Fagradalsfjalli og því svipað að eðli sínu og fyrri gos. Staðsetningin var töluvert innar á Reykjanesskaganum sem gerði aðgengi að gosinu erfiðara fyrir gesti. Auk þess sem gosið kom upp í mosagrónu hrauni sem gerði það að verkum að miklir gróður eldar geysuðu nær allan tímann á meðan á gosinu stóð. Það varð til þess að mun erfiðara og takmarkaðara aðgengi var að gosstöðvum á meðan á því stóð. Þessir gróðureldar eru þeir mestu sem hafa orðið á Íslandi samkvæmt Brunavörnum Suðurnesja og unnu slökkviliðsmenn víða að af landinu við erfiðar aðstæður. 

Fjórða gosið, við Sundhnúkagíga, hófst 18. desember 2023. Þessi atburður var aðeins frábrugðin fyrri gosum, þar sem nú var um að ræða annan kvikugang sem hafði myndast undir Grindavík og í norðaustur. Miklir jarðskjálftar höfðu riðið yfir svæðið sem leiddi til rýmingar á Grindavík fjórum vikum áður. Mikið eftirlit var með þróun mála svæðinu að hálfu Almannavarna, Veðurstofunnar og fleiri aðila. Gosið sjálft hófst af miklum krafti og sendur enn yfir þrátt fyrir að dregið hafi úr því. Gosið er mun stærra en öll þrjú fyrri gos til samans.

Eldgos á Reykjanesskaga eru tíð þó svo að ekki hafi gosið þar í um 800 ár. Síðasta eldsumbrotatímabil stóð í nær 300 ár eða frá landnámsárunum, 950-1240. Enn lengra er síðan gaus við Fagradalsfjall, eða að minnsta kosti 6.000 ár, þá rann hraun sem nefnist Beinavörðuhraun (Heimild: Reykjanes Geopark).

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur tekið saman upplýsingar um hraunflæði og annarskonar upplýsingar um gossvæðið sem hægt er að skoða hér

Veðurstofan hefur verið með mjög ýtarlegar upplýsingar um gosin og þróun þeirra. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um þau hér