Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Eldgos í Geldingadal - umferð og útivist á svæðinu

Gefnar hafa verið út leiðbeiningar til almennings sem hyggist leggja leið sína að gosstöðvunum.

Í ljósi þess að búið er að opna á aðgengi almennings að gosstöðvum við Geldingadal viljum við vekja athygli á því að Reykjanesið er UNESCO hnattrænn jarðvangur og einstakur á heimsvísu. Við viljum gefa sem flestum tækifæri á að upplifa þennan einstaka viðburð í jarðsögu svæðisins. Förum varlega og sýnum aðgát þegar farið er um svæðið. Jarðvegurinn er viðkvæmur, gljúpur og blautur og erfitt getur verið að endurheimta djúp för.

Almannavarnir hafa gefið út meðfylgjandi leiðbeiningar til almennings

  • Utanvegaakstur er ólöglegur.  
    • Þetta á við um öll vélknúin ökutæki, svo sem fjórhjól, sexhjól, mótorhjól. 
  • Það er mögulegt að leggja í Grindavík og við Bláa Lónið og ganga þaðan helgina 20.-21.3.  
    • Ferðin frá bílastæði tekur 4-6 klukkustundir og er eingöngu fyrir fólk sem vant er útivist í erfiðum aðstæðum. 
  • Veður getur breyst á skömmum tíma. Það er kalt og blautt og spáð roki um helgina. 
    • Vertu í gönguskóm, hlýjum  og vatnsheldum fatnaði. 
    • Gerðu ráð fyrir því að ferðin geti tekið lengri tíma en áætlað er. 
    • Vertu með nesti og vatn að drekka.  
    • Fylgstu vel með ferðafélögunum. Þreyta og ofkæling kemur fljótt.  
    • Haldið ykkur við fell og hryggi. Forðist dali og dældir í landslaginu. 
    • Það er hætta á grjóthruni. Varist brattar hlíðar.  
  • Það þarf ekki mikið út af að bregða til að villast. 
    • Vertu með staðsetningartæki. 
  • Símasamband á svæðinu er slæmt og getur þá orðið erfitt að kalla á hjálp ef þörf krefur. 
  • Gosstöðvar geta breyst og nýjar gossprungur mögulega opnast með litlum fyrirvara.  
  • Gasmengun er mest nálægt svæðinu og getur leynst í dölum og dældum þar sem það er sérlega varasamt. Gasmengun getur breyst með litlum fyrirvara ef gosið eykst skyndilega og varasamt að vera nálægt gosstöðvunum án mælitækja.  
    • Fólk á alltaf að halda sig undan vindi. Það þýðir að fólk á að vera með vindinn í bakið þegar það gengur að gosstöðvunum og í fangið þegar það gengur til baka.  
    • Gasmengunin sést ekki og fylgir ekki endilega þeim sýnilega gasmekki á svæðinu.  
    • Gasmengun getur verið lyktarlaus og þá er erfitt að verjast henni.
    • Gasmengun getur loðað við þó sýnilegur gosmökkur sé breyttur með breyttri vindátt 
    • Grímur sem notaðar eru til sóttvarna veita enga vörn gegn gasmengun. 
    • EF þið finnið fyrir minnstu heilsufarseinkennum þá skulið þið forða ykkur strax með vindinn í fangið.

Hægt er að horfa á beint vefstreymi frá eldstöðvunum í Geldingadal á ruv.is.