Fara í efni

Seltún í Krýsuvík verður lokað í maí vegna framkvæmda

Seltún í Krýsuvík verður lokað frá 2. maí til 6. júní vegna framkvæmda. Verið er að skipta um göngupall úr timbri sem er eina örugga aðkoman að leirhverunum á svæðinu og því verður svæðið alfarið lokað meðan á framkvæmdunum stendur. Sú lokun á einnig við um salernisaðstöðu og bílastæði.

Um er að ræða mjög virkt sprengigíga- og borholusvæði og kallar það eitt á að gönguleiðir þarf stöðugt að vera að laga þar sem slitið er mikið. Samhliða verður borið í malarstíga eins og aðstæður leyfa. Verkefnið er unnið með styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu sem er talið brýnt vegna öryggis- og náttúruverndarsjónarmiða.

Ein fegursta náttúruperla landsins

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún heillar marga. Viðhald á stígum og uppbygging gönguleiða á þessum vinsæla ferðamannastað er forgangsatriði Hafnarfjarðarbæjar í nýútgefinni áfangastaðaáætlun höfuðborgarsvæðisins en hugmyndir eru uppi um frekari uppbyggingu aðstöðu á svæðinu á næstu árum.